Staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:41:10 (7722)

2004-05-05 18:41:10# 130. lþ. 110.14 fundur 760. mál: #A staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í fyrra svari mínu er ráðuneytið nú þegar búið að staðfesta að fullu aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024 með ákveðnum fyrirvörum, samanber 19. gr. skipulags- og byggingarlaga. Málið er þannig ekki til frekari vinnslu í ráðuneytinu. Þetta hafa lögfræðingar okkar farið yfir. Málið er sem sagt ekki til frekari vinnslu.

Nefndin, sem var eina úrræðið sem við höfðum til að grípa til þegar þessi staða kom upp, þ.e. nefnd sem hægt er að skipa um svæðisskipulag samkvæmt 6. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Þar með var ekki hægt að auglýsa þá niðurstöðu að nýju sem nýtt skipulag. Nefndin taldi hins vegar mikilvægt að aðilar málsins færu í samningaviðræður og þær standa yfir miðað við þær upplýsingar sem ég hef.

Þarna hafa vegist á misjöfn sjónarmið, annars vegar Reykjavíkurborgar, að vilja nýta þetta land til frekari uppbyggingar á byggð og svo skoðanir og sjónarmið samgönguyfirvalda og að hluta til landsbyggðarinnar, miðað við umræðuna, um að Reykjavíkurflugvöllur sé mjög mikilvægur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll og mikilvægur fyrir heilbrigðisþjónustu. Menn ná mikilli nálægð við hátæknisjúkrahús með því að hafa sjúkraflug um Reykjavíkurflugvöll. Jafnframt er svæðið talið afar mikilvægt með tilliti til samgangna á landinu. Þessi sjónarmið stangast á. (MÁ: Hver eru sjónarmið þín?) Sjónarmið mín hafa verið þau að ég hef staðfest þetta skipulag en jafnframt sett við það fyrirvara af því að menn hafa verið ósammála.