Hreinsun skolps

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:50:54 (7725)

2004-05-05 18:50:54# 130. lþ. 110.15 fundur 804. mál: #A hreinsun skolps# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að hreyfa þessu. Hann veltir því fyrir sér í fyrirspurn sinni hvort verið gæti að reglugerð nr. 798/1999 gengi lengra en þyrfti miðað við þær tilskipanir sem við höfum séð frá Evrópusambandinu. Er þetta ekki í fyrsta skipti sem ég heyri það sjónarmið. Sérfræðingar sem þetta hafa skoðað hafa margir haldið því fram að reglugerðin væri stífari og gengi lengra en þyrfti til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru hjá Evrópusambandinu.

Eins og menn þekkja eru aðstæður hér öðruvísi á mörgum stöðum en gengur og gerist í þröngum flóum og fjörðum. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér að ef hægt er að gera mengunarmælingar við úrtak, við enda útrásar, og þar kemur í ljós að mengun er undir þeim mörkum sem menn telja vel ásættanlegt af hverju þurfi þá að fara út í dýr hreinsimannvirki til að koma menguninni eitthvað neðar þegar hún er undir þeim mörkum sem menn telja þegar ásættanleg.