Fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:22:59 (7738)

2004-05-05 19:22:59# 130. lþ. 110.18 fundur 769. mál: #A fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:22]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Aðgengi íbúa landsins að háhraðatengingum í fjarskiptum skiptir miklu máli fyrir atvinnumöguleika, fjölbreytta nýtingu tækninnar og hvaða möguleika einstaka byggðir hafa til að takast á við samkeppnina í búsetunni. Undirskriftalisti sem hefur borist okkur þingmönnum Norðvest. frá íbúum á Laugabakka í Miðfirði bendir rækilega á þessa staðreynd. Þeir sendu þingmönnunum lista með eftirfarandi formála, með leyfi forseta:

,,Meðfylgjandi eru undirskriftalistar með áskorun um betri internetþjónustu á Laugabakka í Miðfirði í Húnaþingi vestra. Íbúum og öðrum notendum er mikið í mun að fá möguleika á ADSL-tengingu sem fyrst en einfalt mun vera að koma henni á við símstöðina sem er á Laugabakka. Með tilvísan í að ríkisstjórnin og samgönguráðherra hafa ákveðið átak í internetþjónustu á landsbyggðinni vonast ég til að Landssíminn og aðrir þeir sem þetta bréf fá hlutist til um að farið verði að ósk undirskrifenda sem fyrst. Það er það sem við viljum.``

Undir þetta rita íbúar á Laugabakka og í næsta nágrenni þar.

Nú er unnið að því að koma á ADSL-tengingu á stærstu þéttbýlisstöðum landsins. Eftir því sem ég best veit hafa verið sett þar skilyrði um að íbúar yrðu 500 eða fleiri til að fá hana. Það má velta fyrir sér skilgreiningunni á þéttbýli. Ef við horfum t.d. á stöðu Hvammstanga og Laugabakka er það eitt sveitarfélag og eiginlega samrekið þéttbýli. Laugabakki og Hvammstangi þjóna sem ein þéttbýlismiðstöð í öllu starfslegu tilliti. Það er því mikið óréttlæti að Hvammstangi skuli vera flokkaður sér sem þéttbýli en Laugabakki ekki hluti af því. Þetta er innan þeirrar skilgreiningar sem unnið hefur verið eftir.

Sama má líka segja víðar, t.d. í Ísafjarðarbæ. Hann samanstendur af nokkrum minni þéttbýlisstöðum þar, Flateyri, Þingeyri og Suðureyri, en háhraðatengingin er bara á Ísafirði en ekki á hinum stöðunum vegna þess að samkvæmt þessari vinnureglu teljast þeir undir þessum fjölda. Hnífsdalur sem er í fjögurra km fjarlægð frá Ísafirði yrði ekki með háhraðatenginguna vegna þess að hann er skilgreindur sem annað þéttbýli. Mér finnst, virðulegi forseti, þessi skilgreining alveg með endemum og spyr hæstv. samgrh. bæði hvernig hann muni bregðast við þessum óskum íbúa á Laugabakka og einnig hvort ekki standi til að endurskoða þessar reglur þannig að þær reynist þá manneskjulegri og komi í raun íbúum þessara svæða til góða.