Hringamyndun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:57:41 (7751)

2004-05-05 19:57:41# 130. lþ. 110.23 fundur 955. mál: #A hringamyndun# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:57]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spyr hvað líði undirbúningi að löggjöf um hringamyndun. Því er til að svara að ég skipaði nefnd í lok janúar sl. um íslenskt viðskiptaumhverfi. Ástæða þess að nefndin var skipuð er sú að aukin hagræðing og hraðar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa leitt til meiri samþjöppunar og minni samkeppni í einstökum atvinnugreinum. Þá hafa ýmis viðskipti á verðbréfamarkaði vakið upp spurningar um hvort stjórnunarhættir hlutafélaga séu með þeim hætti sem best gerist. Nefndin er að skoða hvernig bregðast megi við aukinni samþjöppun og með hvaða hætti skuli þróa reglur þannig að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts. Hún skal hafa hliðsjón af reynslu síðustu ára og alþjóðlegum samanburði.

Nefndin er að skoða lagasetningu um viðskiptalífið á breiðum grundvelli en ekki löggjöf um hringamyndun sérstaklega. Þau lög sem sérstaklega koma til skoðunar í vinnu nefndarinnar eru lög um hlutafélög, samkeppnislög og löggjöf um fjármálamarkaðinn. Nefndin skal ljúka störfum eigi síðar en 1. september nk. Mikill vinna er hjá nefndinni núna, ekki síst við að afla gagna. Á þessu stigi get ég ekki sagt meira um nefndarstarfið eða til hvers það muni leiða.