Dagskrá næsta þingfundar

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 23:13:04 (7784)

2004-05-10 23:13:04# 130. lþ. 111.94 fundur 544#B dagskrá næsta þingfundar# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[23:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Forseti. Ég hef ítrekað spurt hæstv. forseta einfaldrar spurningar í kvöld: Hvað verður á dagskrá fundar í fyrramálið? Það hefur verið upplýst og liggur fyrir að fyrir liggja fjölmörg mál, stjórnarfrumvörp og fleiri þingmál sem eru fullunnin og samstaða var um að afgreiða frá nefnd fyrir nokkrum dögum og jafnvel vikum og bíða afgreiðslu. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að hafa þinghald með eðlilegum hætti og nota tímann í að afgreiða mál sem fyrir liggur að þurfa afgreiðslu í vor, breytingar á húsnæðislögum og fjölmörgu sem ágætt samkomulag gæti væntanlega verið um að hafa til umfjöllunar og ljúka afgreiðslu á.

Ég spyr þar af leiðandi og ég spyr í alvöru, virðulegi forseti, og mér leiðist að forseti fái ítrekað beinar efnisspurningar frá þingmönnum og hunsi algjörlega að svo mikið sem minnast á þær, eins og hæstv. forseti hafi hvorki heyrt og þaðan af síður skilið það sem við hann er sagt. Það er þreytandi til lengdar að eiga orðaskipti við þannig kringumstæður. Það er eins og maður sé að tala með saltstólpa fyrir aftan sig.

Ég endurtek spurninguna: Hvað verður á dagskrá í fyrramálið? Er þess að vænta að fjölmiðlafrumvarpið verði sett á dagskrá? Ef hæstv. forseti tekur það ekki alvarlega að fá svona spurningu vísa ég til þeirra ákvæða þingskapanna að forseta beri að bregðast við og úrskurða um mál ef slíku er beint til hans. Ég fer þá fram á það, ef forseta finnst það þægilegra form, að forseti úrskurði um hvað verði á dagskrá í fyrramálið, að við fáum sem sagt að heyra niðurstöðu forseta í formi úrskurðar í þeim efnum.