Dagskrá næsta þingfundar

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 23:18:28 (7786)

2004-05-10 23:18:28# 130. lþ. 111.94 fundur 544#B dagskrá næsta þingfundar# (um fundarstjórn), ISG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[23:18]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Það var minnst á það áðan að fjarvera framsóknarmanna úr þingsalnum væri mjög áberandi, kannski æpandi eins og sagt var. Ég verð að segja að skortur forseta á svörum við þeim spurningum sem til hans er beint er mjög áberandi og æpandi í þessum þingsal í kvöld. Ég var að hugsa til þess áðan, virðulegur forseti, að miklar ráðstefnur hafa verið haldnar um árangursstjórnun. Ríkisendurskoðun hefur tekið út fjölmargar ríkisstofnanir með tilliti til þess hvernig þær standist mælikvarða um árangursstjórnun sem fjmrn. og ríkisstjórnin öll þykist vera að innleiða í ríkisrekstrinum. Ég er hrædd um að þessi virðulega stofnun hér viti ekkert um hvað árangursstjórnun snýst og að virðulegur forseti hafi eflaust aldrei heyrt það fremur en hann hefur heyrt hugtakið starfsáætlun.

Hvernig í veröldinni er hægt að búast við því, eins og hér kom fram, að nokkur maður beri virðingu fyrir Alþingi þegar vinnulagið á hinu háa Alþingi er með þeim hætti að við stöndum hér klukkan að verða hálftólf að kvöldi og við vitum ekkert hvað við ætlum að tala um á morgun, við vitum ekkert hvaða pappíra við eigum að mæta með í þingsalinn. Við vitum ekkert hvernig við eigum að undirbúa okkur. Við vitum akkúrat ekkert hvað hér á að gerast á morgun, virðulegur forseti.

Ég hygg að það verði að fara að koma svör við þeim spurningum sem hér var beint til virðulegs forseta. Ég hygg að þessi ágæta stofnun verði að fara að tileinka sér meiri árangursstjórnun en hér er greinilega við lýði í dag.