Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:13:01 (7808)

2004-05-11 14:13:01# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Þetta mál er tvíþætt. Það varðar annars vegar aðferðir við skipan hæstaréttardómara, hvort ástæða er til að breyta þeirri skipan sem þar hefur verið viðhöfð og hins vegar embættisfærslu hæstv. dómsmrh. í þessu einstaka tilviki. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hana. Hún hefur fengið almenna fordæmingu og falleinkunn alls staðar þar sem menn mæla slíkt. Það er alveg víst að hæstv. dómsmrh. næði ekki samræmdu prófunum í þessari námsgrein ef prófað væri á þann máta í þessum efnum.

Hæstv. ráðherra hefur fengið á sig álit frá embættum um þrenns konar brot á lögum, á jafnréttislögum, á lögum um dómstóla og á stjórnsýslulögum. Málsvörn hæstv. ráðherra varðandi það að hann ákveður einhliða eftir á að gera hæfni á sviði Evrópuréttar að sérstöku andlagi þessarar ráðningar stenst náttúrlega engan veginn. Það að hann taki sér það vald að úrskurða án nokkurrar rannsóknar eða án nokkurrar umsóknar hver af umsækjendunum sé hæfastur á því sviði stenst ekki heldur. Það er alveg sama hvernig á málið er litið þótt hæstv. ráðherra reyni stanslaust að þræða á milli skerja, fyrst og fremst til að bjarga því sem bjargað verður hvað það snertir að hann hafi ekki með beinum hætti brotið lög, þá er embættisfærslan sem slík svo ófagleg og óvönduð að það hálfa væri nóg.

Ef hæstv. ráðherra var þeirrar skoðunar að mikilvægast væri að styrkja Hæstarétt á sviði Evrópumála þá átti það auðvitað að liggja fyrir strax við auglýsinguna, svo maður tali ekki um þegar hæfni umsækjenda var metin og borin saman. Þá hefði umsagnaraðilinn, þ.e. Hæstiréttur, lagt sérstakt mat á hver umsækjendanna væri hæfastur á því sviði. Allt þetta vantar þannig að þessi spilaborg hæstv. dómsmrh. hrynur ofan í hausinn á honum líkt og gerist með aðra þessa dagana.