Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:23:59 (7813)

2004-05-11 14:23:59# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar biðja gjarnan um meiri tíma til að kynna sér umfangsmikil plögg, helst nokkrar vikur. En eftir að hinn mikli doðrantur umboðsmanns Alþingis lá fyrir komu menn daginn eftir með stóra dóma um hæstv. dómsmrh. að honum fjarverandi, þótt að hann væri að koma heim frá útlöndum daginn eftir. Þá þurfti ekki að lesa. Þá þurfti ekkert að kynna sér. Þá var hægt að koma með stóra dóma og flenna þá yfir hæstv. dómsmrh. fjarstaddan.

En því miður. Nú er liðinn þessi tími. Það er augljóst í mínum huga að þeir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem talað hafa hafa enn ekki lesið þetta álit og láta stóryrðin fjúka. Það er afar athyglisvert að það skuli gerast með þessum hætti.

Hér er sérstaklega nefnt til sögunnar að hæstv. dómsmrh. hafi þurft að gera grein fyrir því fyrir fram, þegar hann liti yfir allar umsagnir og umsóknir, hvað mundi ráða niðurstöðu hans, hann yrði að gera ráð fyrir því fyrir fram og segja frá því fyrir fram. Bíddu, varð ekki Hæstiréttur að gera það fyrir fram við umsækjendur, að segja frá því að hann mundi aðallega leggja til grundvallar þekkingu á réttarfari? Gerði Hæstiréttur það? Eru menn að halda því fram að Hæstiréttur hafi brotið lög í þeim efnum? Hæstiréttur gerði það ekki. Síðan er sagt, af fákunnáttu, að hæstv. dómsmrh. hafi gefið skýringar eftir á. Út á hvað gengur stjórnsýslureglan? Stjórnsýslureglan gengur út á það að ef menn eru ekki ánægðir með niðurstöðu ráðherra, hver sem hann er, þá beri honum að gera grein fyrir því eftir á. Út á það gengur stjórnsýslureglan. Annaðhvort er þetta vísvitandi kjánaskapur sem hér kemur fram eða eitthvað sem kallað er bernsk óskammfeilni, sem ég veit ekki hvað er.