Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:52:16 (7838)

2004-05-11 15:52:16# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi koma upp af því tilefni að hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, sem hér hefur mælt fyrir nefndaráliti minni hlutans, segir meiri hlutann hafa sýnt gestum sínum lítilsvirðingu í störfum sínum. Ég vil gera sérstaka athugasemd við þau orð vegna þess að fyrir þessu er ekki nokkur fótur. Það er sannarlega rétt að meiri hluti nefndarinnar var farinn að mynda sér skoðun á málinu eftir því sem vinnu nefndarinnar vatt fram. Það er hins vegar ólíðandi að fullyrt sé að það hafi verið búið að ganga frá öllum hnútum málsins þegar síðustu gestir komu á fund nefndarinnar. Það er einfaldlega rangt. Ég fullyrði að nefndarálit meiri hlutans tók breytingum eftir að síðustu gestirnir gengu af fundi nefndarinnar. Það er staðreynd málsins og um það veit ég meira en hv. þm.

Hv. þm. sagði fjölmarga sérfræðinga hafa fullyrt að lögin væru íþyngjandi, brytu stjórnarskrá o.s.frv. Þetta er að mínu mati rangt. Enginn af þeim óvilhöllu sérfræðingum sem komu á fund nefndarinnar fullyrtu eitt eða annað í þessu efni. Þeir bentu hins vegar á ýmis álitaefni. Af ræðu hv. þm. mátti einna helst skilja að hún hefði einfaldlega ekki farið almennilega ofan í þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til. Þeim er einmitt sérstaklega stefnt að þessum athugasemdum, beint að þeim. Þetta eru viðbrögð nefndarinnar við ábendingum, sérstökum ábendingum um stjórnarskrána, Evrópuréttinn og annað þess háttar. Þess vegna hafna ég því algerlega að meiri hlutinn hafi ekki tekið mark á þeim sérfræðingum sem komu á fund nefndarinnar.