Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:56:16 (7840)

2004-05-11 15:56:16# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þm. snúi allri málsmeðferðinni á hvolf með því að stinga upp á því að brtt. séu kynntar sérstaklega fyrir gestunum sem eru kallaðir til til þess að ræða við nefndina um frv. sem liggur frammi. Þetta gerist ekki þannig.

Nefndarstarfið gengur þannig fyrir sig að við köllum eftir sjónarmiðum, leggjum mat á það hvort breytinga er þörf og í kjölfar þess að við höfum hitt sérfræðingana og farið yfir önnur sjónarmið í störfum nefndarinnar þá leggjum við mat á hvaða breytingar eru æskilegar á frv. Þannig gerist þetta.

Þegar spurt er hvort einhverjir ákveðnir sérfræðingar sem koma á fund nefndarinnar hafi treyst sér til að fullyrða eitt eða annað, þá hefur ekki verið óskað eftir því. Það er ekki farið fram á að málið sé lagt í dóm sérfræðinga sem koma til nefndarinnar til að ræða þau álitaefni og sjónarmið sem þurfa að koma til sérstakrar skoðunar.

Ég ítreka að það var farið eftir ábendingum og brtt., eins og ég hef áður sagt, taka sérstaklega mið af þeim.