Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:01:47 (7843)

2004-05-11 16:01:47# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að sjá að hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni virðist líða betur í umræðu um einkavæðingu Ríkisútvarpsins en að halda uppi vörnum fyrir það mál sem hér er til umræðu. Ég svo sem lái honum það ekki.

Það er líka ánægjulegt að heyra, virðulegur forseti, að Framsfl. og Sjálfstfl. hafi náð saman um stefnu í málefnum RÚV og fróðlegt að heyra að hún hafi verið hér kynnt af hálfu hv. þingmanns.

Í upphafi var lagt af stað með það að banna með öllu tilteknum hópi fyrirtækja eða tilteknum fyrirtækjum að eignast svo mikið sem 1% í ljósvakamiðli án þess að fyrir því kæmu nokkur einustu boðleg rök, virðulegur forseti. Í brtt. meiri hlutans er lagt til að þetta verði mildað og verði farið upp í 5% án þess að fyrir því séu nokkurs staðar boðleg rök. Út af hverju eru það 5% en ekki 2, 3 eða 7%? Engin rök fyrir tölunni.

Virðulegur forseti. Ég tel það orka mjög tvímælis gagnvart tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar að setja slíkar takmarkanir án þess að fyrir þeim séu færð fram boðleg rök, sérstaklega að nauðsyn fyrir slíkum reglum sé ekki rökstudd almennilega, enda eru þær hvergi nokkurs staðar til í heiminum. Það er eins og að hæstv. ríkisstjórn standi svo skelfileg ógn af markaðsráðandi fyrirtækjum að það á helst að gera þau brottræk héðan úr landinu. Fyrst var lagt af stað með það að engin markaðsráðandi fyrirtæki mættu koma svo mikið sem nálægt einu prósenti í því að reka ljósvakamiðil. Nú er búið að breyta þessu örlítið og laga það án þess að nokkur boðleg rök séu fyrir því hvar þau mörk eru sett, án þess að hægt sé að benda á eitt einasta fordæmi í heiminum fyrir svona ströngum takmörkunum. Þetta felur í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, virðulegur forseti, og er þá fátt eitt tínt til.