Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:35:09 (7856)

2004-05-11 16:35:09# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem aftur upp vegna þess að hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. kom í ræðustól og hélt því fram að það væri ekki á verksviði forseta þingsins að sjá til þess að nefndir þingsins hefðu svigrúm til að starfa.

Það er ekki lengra síðan en svo að í morgun fyrir hádegi ákvað hæstv. forseti að fresta fundum þingsins þangað til klukkan tvö vegna þess að hann vildi gefa nefnd tækifæri til að ganga frá sínum málum áður en umræðan hæfist.

Auðvitað er þetta á verksviði forseta Alþingis. Hann á auðvitað að sjá til þess að nefndir þingsins fái tækifæri til að ljúka störfum sínum með sóma.

Ég vil af þessu tilefni vitna í 18. gr. þingskapa, þar sem stendur:

,,Forseti ákveður í samráði við formenn fastanefnda fundatíma nefnda, starfsáætlun þeirra og starfshætti að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um þá í þingsköpum.

Forseti skal gera áætlun um afgreiðslu mála úr nefndum í samráði við formenn þeirra þannig að unnt sé að skipa málum niður á dagskrá þingsins í hagkvæmri tímaröð og dreifa þeim sem jafnast á þingtímann.``

Þetta segja þingsköpin og til viðbótar hlýtur það að vera á ábyrgð forseta að sjá til þess að þingmenn fái tækifæri í sínum nefndum til að vinna eðlilega það starf sem þeim er ætlað. Sú krafa sem hér hefur verið sett fram er því eðlileg, að þeim nefndum sem ekki hefur tekist að ljúka störfum, sérstaklega menntmn. þingsins, gefist tækifæri til að ljúka starfi sínu af þeim ástæðum sem hér hafa verið dregnar fram, að hún fékk verkefnið í hendurnar síðar en aðrar nefndir.

Við erum að upplifa á hv. Alþingi málsmeðferð sem á varla sinn líka í þingsögunni í máli sem er svo mikilvægt sem þetta. Það er sérkennilegt að menn skuli þurfa að standa endalaust í ræðustól Alþingis til að fá það fram að reynt verði að bæta eitthvað úr því sem menn eru hér að stofna til. Ekki þannig að það verði nokkurn tíma hægt að afgreiða þetta mál á þessu þingi svo vit sé í. Þó væri a.m.k. hægt að fara yfir þau aðalatriði sem skoða þarf í vinnu þeirra nefnda sem eiga eftir að skila áliti.