Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:38:02 (7857)

2004-05-11 16:38:02# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Einar K. Guðfinnsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það á að þurfa að tala um þessa hluti við svo þingreyndan mann sem hv. 2. þm. Norðvest. Það ákvæði sem vísað var til hérna lýtur fyrst og fremst að því þegar verið er að skipuleggja störf nefndanna til lengri tíma. Það er ekki þannig að 18. gr. þingskapalaganna kveði á um að forseti þingsins geti tekið fram fyrir hendurnar á formönnum einstakra þingnefnda og skipað þeim fyrir verkum, hvenær þær eigi að starfa og hvernig þær eigi að starfa.

Hins vegar hefur verið unnið þannig að þingstörfunum á undanförnum dögum að sérstaklega hefur verið veitt svigrúm til að nefndirnar hafi sem bestan tíma til að fara yfir þau mál sem þeim hafa verið falin. Það liggur auðvitað fyrir, eins og ég hef margoft tekið fram, að það tiltekna mál sem við erum hér að ræða er á forræði allshn.

Allshn. hefur lokið störfum sínum. Það getur vel verið að menn hafi eitthvað við það að athuga, ég veit það ekki og efast reyndar um það, en það getur samt verið. Ef það er þannig þá geta menn auðvitað látið það koma fram í þingræðum sínum en ekki reynt að koma í veg fyrir að hinar efnislegu umræður geti farið fram sem nauðsynlegt er að fari fram. Auðvitað hefur allt svigrúm verið veitt til þess að nefndirnar geti starfað og við látið efnislegar umræður fara fram.

Ég vil bara enn og aftur taka það fram, eins og ég gerði í upphafi máls míns áðan, að ég lýsi yfir fullum stuðningi og trausti á störf hæstv. forseta. Ég veit að hæstv. forseti reynir að greiða fyrir þessari umræðu og vona að þingmenn reyni ekki að koma í veg fyrir það með því að beita alls konar hælkrókum til að trufla starfið.