Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:22:46 (7862)

2004-05-11 18:22:46# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta andsvar og þá get ég komið skoðunum mínum á framfæri varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Almennt tel ég að við eigum að beita þjóðaratkvæðagreiðslu í ríkari mæli en gert er og ég tel einmitt að þetta mál ætti að skoða vel með tilliti til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hefði talið, burt séð frá því hvort forseti Íslands beitti neitunarvaldi, að mál eins og þetta ætti að fara fyrir þjóðina rétt eins og stjórn fiskveiða.

Það eru ýmis álitamál sem þjóðin ætti að fá að greiða atkvæði um og ég tel að fjölmiðlafrumvarpið sé einmitt mál sem rétt væri að þjóðin hefði skoðun á og að það eigi alls ekki að vera ákveðið eingöngu í einhverri nefnd og þröngri klíku stjórnarflokkanna, alls ekki. Þetta er einmitt mál sem ætti að fara í opna umræðu og væri málinu til framdráttar ef þjóðin greiddi atkvæði um það.