Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:46:43 (7902)

2004-05-11 22:46:43# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég held að svarið liggi svo sem fyrir í mörgum ræðum mínum um málið og í sjónarmiðum mínum og félaga minna sem hafa komið rækilega fram. Við teljum fullt tilefni til að fara rækilega yfir og skoða þetta mál og við útilokum ekki að til einhverra ráðstafana verði gripið, t.d. til þess að tryggja þá kannski að samþjöppunin verði ekki enn ríkari en orðið er í framtíðinni. Við höfum aldrei svarað því hvort við teldum óhjákvæmilegt að fara að brjóta upp það ástand sem komið er í fjölmiðlum. Við höfum bent á hluti eins og þá að tryggja gagnsæi hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum, talað um mikilvægi þess að styrkja Ríkisútvarpið o.s.frv. Þar erum við að tala um ákveðnar aðgerðir. Við erum ekki að tala um algert afskiptaleysi eða bara að láta það ráðast hvernig hlutirnir kunni að þróast á komandi missirum og árum. Ég mundi hafa áhyggjur af því ef menn aðhefðust ekki neitt. En það er himinn og haf á milli þess að lýsa viðhorfum af því tagi og lýsa sig reiðubúinn til að skoða málin og hinu að ætla að standa að verki eins og hæstv. ríkisstjórn og því miður sennilega meiri hluti hennar hyggst gera hér.