Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:04:01 (8072)

2004-05-13 10:04:01# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt hefur efh.- og viðskn. fjallað á fundum sínum undanfarna daga um það frv. til fjölmiðlalaga sem liggur fyrir. Á fundinum í morgun gerðist það að meiri hluti nefndarinnar samþykkti með fimm atkvæðum gegn fjórum að leggja áfangaumsögn til allshn. sem væntanlega dreifir henni síðar til þingsins. Það skiptir miklu máli tel ég fyrir þingheim að vita af því að meiri hluti efh.- og viðskn. er þeirrar skoðunar, samkvæmt þessu áliti, að frv. sé augljóslega vanbúið og ekki tækt til afgreiðslu á þeim skamma tíma sem þinginu er ætlaður til að fjalla um frv. Meiri hluti efh.- og viðskn. telur það jafnframt alvarlegt umhugsunarefni að á fundum nefndarinnar voru lögð fram gögn sem benda til að hugsanlega stríði frv. gegn ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Sömuleiðis hlýtur það að varða þingið miklu að í þessu sameiginlega áliti meiri hluta efh.- og viðskn. er vakin sérstök athygli á því að Samkeppnisstofnun hafi lýst þeirri skoðun við nefndina að þrátt fyrir þær brtt. sem fram hafa komið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar stríði frv. enn gegn markmiðum samkeppnislaga. Það er meginniðurstaða þess nýja meiri hluta sem hefur myndast í þessu máli í efh.- og viðskn. að málið sé vanbúið og vanreifað og þurfi augljóslega miklu víðtækari og ítarlegri skoðunar við. Með hliðsjón af því leggur meiri hlutinn til að Alþingi fresti afgreiðslu frv. og að tíminn í sumar verði nýttur til að vinna málið betur og í nánara samráði við sérfræðinga.

Ég vil líka að það komi fram að nefndin ákvað að halda áfram umfjöllun sinni. Hv. formaður lagði fram dagskrártillögu um að nefndin lyki umfjöllun málsins. Hún var felld. Það var einungis eitt atkvæði sem formaðurinn fékk þannig að heldur er farið að sneyðast undan hv. formanni það sem hann stendur á.