Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:22:28 (8080)

2004-05-13 10:22:28# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:22]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég hef undanfarnar vikur setið fundi efh.- og viðskn. Þannig hefur málum verið háttað í þeirri ágætu nefnd að þar hefur varla farið fram fundur öðruvísi en að þar hafi orðið einhverjar sérkennilegar uppákomur. Fundurinn í morgun slær þó líklega öll fyrri met. Eins og komið hefur fram í umræðunum voru þar lagðar fram tvær dagskrártillögur. Sú fyrri var frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, tillaga um að nefndin skilaði af sér áfangaumsögn vegna þess að svo alvarlegar upplýsingar hafa komið fram í störfum nefndarinnar að ekki var talið fært að halda þeim frá þingsal lengur, en halda hins vegar áfram umfjöllun í nefndinni, m.a. til að fá fleiri gesti og upplýsa málið enn frekar.

Sú dagskrártillaga var samþykkt með fimm atkvæðum gegn einu, gegn einu atkvæði formannsins sem skömmu áður á sama fundi hafði marglýst því yfir að jafnvel væri ástæða til að ræða þetta mál fram á sumar í nefndinni, ekki mundi hann standa gegn því.

Þegar einn nefndarmanna hafði yfirgefið fundinn vegna þess að hann þurfti að mæta á fund í annarri nefnd bar formaður upp, án þess að nokkur frekari umræða hefði farið fram, aðra dagskrártillögu sem gekk út á það að umfjöllun nefndarinnar væri lokið þátt fyrir að nýlega hefði verið samþykkt dagskrártillaga um að umræðan héldi áfram í nefndinni. Sú dagskrártillaga hv. þm. Péturs Blöndals var felld með fjórum atkvæðum gegn fjórum. Þá fékk formaður með sér nokkra stjórnarliða á ný, en eins og fram kom í fyrri atkvæðagreiðslunni sem hlýtur að vera einstakt í störfum nefndar á Alþingi sat formaðurinn einn gegn þeirri afstöðu að eðlilegt væri að halda umfjöllun áfram og skila áfangaumsögn í málinu.

Þetta, herra forseti, hlýtur að vekja athygli okkar og segja okkur margt um það í hvaða stöðu þetta mál er í þinginu. Þess vegna er ástæða til að við gefum okkur þann tíma sem þarf til að ræða málið, bæði í nefndum og þingsal.