Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 11:08:19 (8223)

2004-05-15 11:08:19# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Ég er komin í ræðustól Alþingis til þess að tala um fjölmiðlamálið svokallaða öðru sinni. Í sjálfu sér gæti ég haft þessa ræðu tiltölulega stutta. Ég ætla ekki að fara yfir öll þau efnisatriði sem ég fór yfir í fyrri ræðu minni. Þar færði ég rök fyrir því, virðulegur forseti, að þetta frumvarp, verði það að lögum, stangaðist á við allar þær grundvallarhugmyndir sem við höfum um lýðræði, málfrelsi, tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi og eignarréttindi og að frumvarpið stangaðist á við grundvallarreglur íslenska ríkisins, íslenska lýðveldisins, hvað þetta varðar. Ég færði rök fyrir því hvernig þetta frumvarp stangaðist á við ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Ég færði rök fyrir því hvernig frumvarpið stangaðist á við ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarréttinn, þó eflaust mætti nú bæta hann. Það er kannski það af þessu sem er auðbætanlegast. Og ég færði rök fyrir því hvernig þetta frumvarp, ef það yrði að lögum, gengi gegn tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er kannski alvarlegasti þáttur þessa máls, það er að segja hvernig frumvarpið brýtur gegn tjáningarfrelsinu.

Að auki er frumvarpið með þeim annmörkum að ekki er ratað það meðalhóf sem löggjafinn, Alþingi Íslendinga, verður að rata í lagasetningu sem er íþyngjandi fyrir einstaklinga eða hópa í okkar samfélagi. Ekki er ratað það meðalhóf sem okkur ber samkvæmt íslenskum stjórnsýslulögum og samkvæmt íslenskum stjórnskipunarrétti að rata ef þess er nokkur kostur. Það þarf auðvitað veigamikil rök til þess að grípa til aðgerða sem eru meira í þyngjandi en nauðsyn er til þess að ná fram því markmiði sem menn stefna að. Markmiðið með þessum lögum er að tryggja fjölbreytni og lýðræði í fjölmiðlum á Íslandi og það hefur verið sýnt fram á að hægt er að fara ótal margar leiðir í því efni sem eru mun minna íþyngjandi en hér er gert ráð fyrir.

Nú þarf í sjálfu sér ekki mig til að segja þetta hér í ræðustól Alþingis. Menn þurfa ekki annað en fylgjast með umræðunni í samfélaginu. Menn þurfa ekki annað en lesa það sem haft er eftir lögfræðingum landsins, ég vil segja nánast öllum lögfræðingum landsins ef undan er skilinn einn, Jón Steinar Gunnlaugsson. Öllum lögfræðingum landsins ber saman um að það orki mjög tvímælis að þetta frumvarp, verði það að lögum, standist íslenskan stjórnskipunarrétt. Þetta vita stjórnarþingmenn. Þetta vita þeir. Þeir hafa allir unnið eið að stjórnarskránni og þeir vita að ef það leikur vafi á því, eins og það gerir sannarlega núna, þá á stjórnarskráin að njóta vafans. Hún á að njóta vafans. Það er ekki einn og ekki bara tveir og ekki bara þrír lögfræðingar sem segja þetta heldur nánast hver einasti lögfræðingur sem við er talað í fjölmiðlum.

Hér hafa menn komið í ræðustól og ég hlýt að furða mig á því að hv. þm. Hjálmar Árnason formaður þingflokks Framsóknarflokksins kom hér upp og talaði um þetta mál. Hann talaði um samkeppnisþátt þessa máls. Hægt var að taka undir margt í málflutningi hans. Það er alveg hægt að taka undir það að of mikil samþjöppun sé almennt í íslensku viðskiptalífi. Við verðum að gæta okkar á henni. Við verðum að reyna að beita þeim leiðum sem færar eru til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki misnoti markaðsráðandi stöðu sína. Það er alveg hægt að taka undir það. En að þingmaðurinn skyldi ekki víkja einu orði í ræðu sinni að íslensku stjórnarskránni og þeim vafa sem leikur á því að frumvarpið standist íslenskan stjórnskipunarrétt, hlýtur að vekja furðu, og að hann skyldi ekki leiða fram einn einasta lögfræðing, ekki eitt einasta nafn, til marks um það og einhvern sem vildi leggja nafn sitt við það að þetta frumvarp stæðist íslensk stjórnarskipunarlög. Ekki eitt nafn hefur verið nefnt, ekki eitt. Jú, fyrirgefið þið. Ég gleymdi Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Það er það nafn sem nefnt hefur verið. Þó hefur hann nú ekki tekið af öll tvímæli í þessu sambandi heldur svona frekar látið að því liggja að það mætti líta svo á að þetta stæðist stjórnarskrána. En hann hefur ekki tekið af öll tvímæli. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Ég held því að við hljótum öll að geta sammælst um að það orki mjög tvímælist að þetta standist stjórnarskrána. Þeir stjórnarþingmenn sem ekki vilja hlusta á þau rök eru einfaldlega slegnir einhverri undarlegri blindu og þeir eru að láta hafa sig út í einhverjar ófærur sem þeir eiga trauðla afturkvæmt úr.

Mikið hefur verið slegist um þetta mál hér á þingi og margt hefur verið sagt. Það er kannski ekkert sérkennilegt að málið hafi fengið svona mikla umræðu hér á þingi. Ástæðan er einfaldlega sú að málið er ekki þroskað. Málið er ekki tækt til lagasetningar. Ef fram hefði farið mikil og vönduð undirbúningsvinna af hálfu stjórnmálaflokkanna allra og af hálfu þeirra hagsmunaaðila sem þetta mál varðar, ef það hefði farið fram mikil og vönduð umræða í samfélaginu um þetta mál, í fjölmiðlunum, þá þyrftum við auðvitað ekki að standa hér dag eftir dag og ræða málið.

[11:15]

Ástæðan fyrir því að við stöndum hér dag eftir dag og ræðum þetta mál er sú að málið er í slíku skötulíki og það er svo illa undirbúið og það er svo lítið rætt að það er ekki hægt að hleypa því í gegnum Alþingi Íslendinga með einhverju hraði. Það er ekki hægt. Það er ekki forsvaranlegt og við hljótum þess vegna að taka þann tíma sem við höfum tekið í að ræða þetta mál vel á hinu háa Alþingi.

Margir furða sig á því hvers vegna í ósköpunum þingmenn allir geti nú ekki náð saman um þetta mál, vegna þess að allir hafi þeir jú sama markmiðið, allir hafi þeir það markmið að þeir vilji tryggja lýðræðið, þeir vilji tryggja fjölbreytni. Allir gjalda þeir varhuga við of mikilli samþjöppun. Af hverju geta menn þá ekki náð saman í þessu máli? Af hverju geta menn þá ekki unnið að þessu eins og menn og klárað málið sameiginlega?

Ég held að ástæðan fyrir því hvernig fyrir þessu máli er komið sé einfaldlega sú að þeir sem ráða för í ríkisstjórninni nú um stundir vilja ná tökum á fjölmiðlum. Þeir vilja ná tökum á fjölmiðlum. Þeirra markmið er ekki í sjálfu sér að tryggja fjölbreytni og lýðræði. Þeirra markmið er að ná tökum á fjölmiðlunum. Þeirra markmið og það sem þeir hafa unnið að ötullega, sé ég er, á undanförnum árum er að ná tökum á Alþingi. Þeir hafa Alþingi algjörlega í hendi sinni. Þeir stjórna hér lögum og lofum á Alþingi, þeir sem eru í forsvari fyrir ríkisstjórninni, eru í forsvari fyrir framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið hefur tögl og hagldir hér á Alþingi Íslendinga. Það ræður því hvernig mál ganga fyrir sig hérna. Það ræður dagskránni. Það ræður umræðunni.

Menn hafa líka sýnt mjög mikla viðleitni til þess að ná tökum á dómsvaldinu. Við þurfum ekkert annað en fylgjast með nýlegri skipan hæstaréttardómara til þess að gera okkur grein fyrir því. Hugmyndir sem hafa komið innan úr dómsmálaráðuneyti meðal annars um það að dómsmálaráðherra eigi að skipa forseta Hæstaréttar eru líka til marks um þessa viðleitni til þess að ná tökum á dómsvaldinu sem ekki alltaf hefur dæmt eins og ráðamönnum er þóknanlegt.

Umræðan á Alþingi er til marks um það hvernig menn vilja ná tökum á fjölmiðlunum sem hafa stundum verið mjög harðir í gagnrýni sinni á framkvæmdarvaldið, á stjórnvöld. En það er nú einu sinni eðli fjölmiðlanna að gagnrýna helst þá sem með völdin fara og þar hlýtur auðvitað ríkisstjórnin að koma mjög til álita. Hún hlýtur auðvitað að verða skotspónn fjölmiðla að einhverju leyti. Þar eru jú völdin. Þar eru jú menn að ráðgast um þjóðfélagsmálin, taka ákvarðanir sem varða okkur öll þannig að spjótin hljóta auðvitað að beinast að ráðamönnum þessa lands, að ríkisstjórn, að forsætisráðherra, í fjölmiðlunum. Það leiðir af sjálfu sér. Við sjáum þetta í hvaða landi sem er. Hverjir haldið þið að séu fyrst og fremst skotspónn gagnrýninna fjölmiðla? Það eru stjórnvöld. Það eru ráðherrar að sjálfsögðu. Hér eiga menn erfitt með að sætta sig við það og vilja ná tökum á fjölmiðlunum. Og núna síðast --- það opinberaðist fyrir okkur í gær --- vilja menn líka ná tökum á forsetaembættinu. Menn vilja ráðskast með það, vilja ákveða hvernig forseti Íslands hagar sínum embættisgjörðum.

Framkvæmdarvaldið fer einfaldlega offari í okkar samfélagi og það er það sem ég held að fólk hér úti sé að bregðast við. Viðbrögð fólks við þessu fjölmiðlamáli endurspegla það að núna er fólki nóg boðið hvernig framkvæmdarvaldið í landinu hagar sér, hvernig menn fara með það vald sem þeim hefur verið fengið. Ég held ekki að fólk sé í sjálfu sér að bregðast við efnisatriðum þessa frumvarps. Ég held að það sem fólk sé að bregðast við sé með hvaða hætti menn fara með vald sitt, hvernig framkvæmdarvaldið er með tilraunir á nánast öllum sviðum samfélagsins til að beygja fólk og stofnanir undir vilja sinn. Ég held að viðbrögð fólks og andspyrna fólks hér í samfélaginu byggist á þessu. Fólk vill setja framkvæmdarvaldinu skorður.

Margt hefur verið sagt um þetta mál á Alþingi. Eins og ég sagði þá ætla ég ekki að bæta miklu efnislega við það. Ég þarf ekki að gera það. Ég held að það skipti meginmáli að frumvarpið eins og það liggur fyrir stangast á við íslenska stjórnarskrá. Það eitt dugir til þess að menn taki þetta mál út úr þinginu.

Í gær, virðulegi forseti, þá gekk hinn pólitíski ófriður sem hér hefur geisað of langt. Hann gekk of langt. Einhvern tímann sagði fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra að menn hefðu ekki enn séð inn í vopnabúr forsætisráðherrans, það væri stórt. Ég held að við höfum öll gert okkur grein fyrir því fyrir löngu. Það er mjög stórt. Í gær dró hann fram stóru sleggjuna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún er dregin fram. Hún var dregin fram fyrir ári síðan líka. Þá var stóra sleggjan dregin fram og forsætisráðherra freistaði þess --- ég verð að orða það bara eins og það er --- hann freistaði þess að rota okkur öll hin, að rota okkur öll hin með stóru sleggjunni sem hann dró fram úr vopnabúri sínu. Hann gerði þetta líka í fyrra og það má eiginlega segja að þá hafi hann gert okkur öll svo vönkuð, hann gerði okkur öll svo vönkuð fyrir ári síðan þegar hann dró hana fram að eiginlega komum við engum vörnum við. Það kom eiginlega enginn neinum vörnum við. Núna átti að leika sama leikinn aftur. En ég held að forsætisráðherra hefði ekki átt að gera þetta. Hann átti ekki að leika þennan sama leik aftur.

Ég hef aðeins orðið þess vör í umræðunni --- ég varð vör við það fyrir ári síðan og hef orðið vör við það núna frá því í gærkvöldi --- að ýmsir telja að þetta séu orð í reiði sögð, þetta séu viðbrögð í fjölmiðlaviðtali við einhverju sem hafi gerst, að þetta sé svona vanhugsað, innblástur augnabliksins sem þarna sé á ferðinni og það hafi verið þannig líka í fyrra í svokölluðu bolludagsmáli. En það er alls ekkert þannig. Þetta er ekkert reiðikast. Þetta er ekki eitthvað sem gerist bara í anda augnabliksins. Þetta er ekkert sem verður til á því augnabliki sem fjölmiðlamaðurinn réttir forsætisráðherranum míkrófóninn. Þetta er pólitísk aðferðafræði. Þetta er pólitísk aðferðafræði og vel þekkt sem slík. Hún hefur verið notuð með ágætum árangri víða og lengi.

Ég get tekið dæmi bara af því það liggur beint við. Ég get tekið dæmin úr stríðsrekstri. Þekkja menn ekki það þegar stríðsherrann segist ætla að sprengja --- eins og var nú sagt um Víetnam á sínum tíma --- sprengja Víetnam aftur úr steinöld ef menn brygðust ekki þar rétt við. Hvað var sagt áður en ráðist var inn í Írak? Var ekki sagt að það mundi verða slíkt sprengjuregn þar að menn hefðu ekki séð annað eins ef þeir ekki létu undan síga? Það er auðvitað alþekkt þetta að draga fram stóru sleggjuna, sýna inn í vopnabúrið hversu öflugt það er, til þess að fá menn til undirgefni, til hlýðni.

Hún er líka alþekkt sú aðferð að segja: Sá sem ekki er með mér er á móti mér. Bush sagði það áður en hann fór inn í Írak. Sá sem styður ekki innrásina hefur tekið sér stöðu við hlið Saddams Husseins. Hann er bara með Saddam Hussein sá sem ekki styður innrás Bandaríkjamanna í Írak. Nú er það sama upp á teningnum. Sá sem ekki styður fjölmiðlafrumvarpið er í Baugsliðinu. Það skiptir engu máli hver það er, hvort það er sú sem hér stendur, hvort það er forsetinn, hvort það er eitthvert fólk sem er að skrifa greinar í blöðin eða einhverjir lögfræðingar og ungir sjálfstæðismenn á deiglan.com. Það er alveg sama hver það er. Ef menn eru ekki í liðinu með fjölmiðlafrumvarpinu þá eru þeir í Baugsliðinu af því þeir eru á móti frumvarpinu.

Þetta er aðferðafræði. Þetta er þverpólitísk aðferðafræði. Það er eins gott að menn geri sér grein fyrir því. Þetta er engin tilviljun. Þetta er ekkert sem verður til á augnablikinu, á þeirri stundu sem það gerist. Þetta er hugsað. Þetta er ákveðið. Þetta er skipulag. Þetta er skipulögð pólitísk aðferðafræði.

Við höfum fengið að vita að engu verður eirt og það verða engin vopn spöruð til að hafa fullan sigur í þessu máli. Okkur hefur verið sagt að vopnabúrið sé stórt. Okkur hefur verið sýnt inn í það og sagt að það sé eins gott fyrir okkur að átta okkur á þessu og gefast upp í þessu máli, hætta þessu. Forsetinn hefur fengið mjög skýr skilaboð um það að hann skuli nú hafa hægt um sig í þessu máli.

Þegar svona umræða fer fram er hætt við því að margir meiðist af því þeir dragast inn í átökin nauðugir viljugir. Það vill auðvitað enginn meiðast og verða á milli í slíkum átökum. Það vill enginn verða undir þessum valtara sem fer af stað. En stundum verður ekkert undan því vikist.

Virðulegur forseti. Ég held, eins og ég sagði, að hinn pólitíski ófriður hafi tekið á sig nýja mynd í gær og hann hafi gengið of langt og að tími sé kominn til að semja um vopnahlé svo ég haldi mig nú áfram við þessa samlíkingu við stríðsátök, það sé kominn tími til að semja um vopnahlé og þessum átökum verði að linna.

Sá veldur miklu sem upphafinu veldur og það var ríkisstjórnin sem ákvað að efna til átaka hér í þinginu. Hún ákvað það. Ég geri ráð fyrir því, ég geng ekkert að því gruflandi að þeim sem það ákváðu hafi þótt tilefnið ærið, þeim hafi þótt tilefnið réttmætt, þeir hafi talið sig hafa eitthvert erindi að reka hér á þingi sem þeir þyrftu að fara með í gegn. En ég held að þeir hafi vanmetið andspyrnuna sem þetta mál mundi mæta.

Ég held að þeir verði að gera sér ljóst að svo lengi sem þessum hernaði verður haldið áfram þá verður andspyrna. Það verður andspyrna hér í þinginu og það verður andspyrna í samfélaginu öllu. Og þó þeim hafi þótt tilefnið brýnt, þó þeim hafi þótt að þeir hefðu eitthvert erindi að rækja á Alþingi með þessu frumvarpi þá er tilefnið ekki svo aðkallandi eða svo stórfenglegt að það réttlæti þennan hernað allan sem hér er í gangi.

Ég vil því leyfa mér að segja við ríkisstjórnina hæstvirta sem auðvitað stjórnar þessu máli --- það er hún sem stjórnar þessu. Það er hún sem hefur tök á málinu og það eru formenn stjórnarflokkanna sem hafa tök á þessu máli --- ég vil segja við þá: Hættið þið þessu. Hættum þessu. Við getum sagt það við okkur öll. Hættum þessu. Tökum málið út úr þinginu. Ræðum það í sumar og reynum að ná lágmarkssátt í málinu. Hættum þessu. Þetta mál á auðvitað ekkert að vera hér til umræðu undir þeim formerkjum sem það er. Þetta mál er ekki þess eðlis og það varðar okkur í samfélaginu ekki það miklu og það eru ekki það miklir hagsmunir í húfi að það réttlæti það að halda uppi þessum hernaði hér. Tökum þetta út. Ræðum málið í sumar og reynum að ná lágmarkssátt í því. Þegar til þeirrar sáttagerðar kemur verða auðvitað allir að gefa eitthvað eftir og menn verða að reyna að mætast einhvers staðar á miðri leið. Ég held að við eigum öll talsvert mikið undir því að það takist vegna þess að við, að minnsta kosti eftir því sem menn hafa sagt í ræðustóli Alþingis, eigum það sameiginlegt að vilja tryggja fjölbreytni og lýðræði í fjölmiðlum. Við hljótum því að geta fundið leiðir til þess að ná sáttum um það markmið sem allir geta lifað við.

Virðulegur forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég held að málið eins og það blasir við núna sé á því stigi að það sé ekkert að gera við það annað en að taka það út úr þinginu svo ekki logi það ófriðarbál sem nú logar því miður í samfélaginu og sem, virðulegur forseti, tók á sig nýjar myndir í gær þar sem farið var yfir eitthvert strik í þessu máli þaðan sem menn eiga trauðla afturkvæmt nema með því að leggja málið til hliðar í bili.