Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:10:59 (8232)

2004-05-15 12:10:59# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er greinilegt að mönnum er eitthvað órótt á stjórnarheimilinu núna. Vanstilling hæstv. dómsmálaráðherra var slík að maður hlýtur auðvitað að spyrja sig þeirrar spurningar hvað gangi á innan ríkisstjórnarinnar þessa dagana. Ég spurði áðan og bað um að nefndir væru lögfræðingar sem gætu sagt við Alþingi að frumvarp sem við ræðum stæðist sannanlega stjórnarskrána, stæðist íslensk grundvallarlög. Ég hef ekkert nafn fengið og það dugir ekki, hæstv. dómsmálaráðherra, að nefna til sögunnar tvo skýrsluhöfunda sem eru ekki þeir sem sömdu þetta frumvarp. Þeir sömdu ekki þetta frumvarp og þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Það þýðir ekki að nefna til þá tvo sem unnu að skýrslunni. Það dugir ekki og er eiginlega hálfaumkunarvert, hæstv. dómsmrh., að nefna til sögunnar að þrír lögfræðingar sitji í allsherjarnefnd. Þeir eru nú ekki bara þrír. Þeir eru held ég gott ef ekki sex sem sitja í allsherjarnefnd frá stjórn og stjórnarandstöðu og greinir mjög á, hæstv. forseti. Ég veit ekki til þess að Sigurður Kári Kristjánsson eða Bjarni Benediktsson séu sérfræðingar í íslenskum stjórnskipunarrétti. Ég spurði um sérfræðinga á því sviði. Þeir eru það ekki, hæstv. forseti. Að nefna þá hér til sögunnar, til vitnis um að þetta standist íslenska stjórnskipun er auðvitað hlálegt, hæstv. forseti, og ekki hægt að taka alvarlega.

Svo vil ég að lokum nefna bréfið sem kom frá Róbert Marshall formanni Blaðamannafélagsins og var sent út. Nú er sem sagt búið að spyrða okkur saman. Nú erum við saman í Baugsliðinu af því við höfum bæði þá skoðun að það eigi að taka málið út úr þinginu. Bíðið við, 70% þjóðarinnar hafa þá skoðun. 70% þjóðarinnar. Er verið að segja hér með öðrum orðum að 70% þjóðarinnar séu bara að ganga erinda einhvers auðhrings, Baugs, séu bara nytsamir sakleysingjar sem ekkert viti hvað þeim sé fyrir bestu? Hæstv. dómsmálaráðherra á ekki að tala svona hér í þinginu.