Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:22:07 (8257)

2004-05-15 15:22:07# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var að mörgu leyti mjög góð ræða sem hér var flutt þó ég sé ósammála flestu sem þar var sagt. Hv. þm. spyr um afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég reyndi í máli mínu áðan að sýna fram á samfelluna sem er og hefur verið í okkar málflutningi. Hv. þm. spurði hvað hefði breyst í okkar afstöðu frá því sparisjóðalögin voru samþykkt fyrr á árinu. Ekkert, það hefur ekkert breyst. Þó að tilefni þeirrar lagasetningar hafi verið atburðir sem voru að gerast hjá SPRON þá var með lögunum verið að taka á miklu stærra máli, fyrirsjáanlegri röð samninga sem mundu tefla sparisjóðakerfinu í landinu í tvísýnu. Þetta vita menn.

Hinu vil ég mótmæla, það er því viðhorfi sem fram kom hjá hv. þm. til starfsmanna Norðurljósa. Hann gerir því skóna að þeir lúti í einu og öllu vilja forstjóra þess fyrirtækis. (Forseti hringir.) Þetta er kannski ekki undarlegt úr reynsluheimi Sjálfstæðisflokksins. Margur heldur mig sig, segir máltækið.