Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:45:11 (8307)

2004-05-15 17:45:11# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Leyfist mér fyrst að óska hæstv. forsrh. innilega til hamingju með það hve vel honum tókst upp í hinu málefnalega svari áðan. Hann fór ítarlega yfir ákvæði frv. og hrakti auðvitað allar þær röksemdir sem menn hafa komið með fram gegn því. Satt að segja held ég að hæstv. forsrh. hafi toppað sjálfan sig í þeirri ræðu.

Það var bara eitt sem vantaði í ræðu hæstv. forsrh. um stjórnarskrána. Hversu oft hefur ríkisstjórn undir hans forustu brotið stjórnarskrá? Hversu oft hefur hæstv. forsrh. verið rassskelltur með dómum Hæstaréttar vegna þess að hann hefur þröngvað í gegn lögum sem hafa brotið stjórnarskrá? Staðan er einfaldlega þannig að hæstv. forsrh. þorir ekki að setja málið í umsögn sérfræðinga við Háskóla Íslands eða annarra sérfræðinga. Staðan er meira að segja þannig að annar stjórnarflokkurinn, Framsfl., er miður sín yfir því hvernig málið er statt gagnvart stjórnarskránni. Og svo kemur hæstv. forsrh. og hvert er inntakið í ræðu hans? (Forseti hringir.) Dylgjur gagnvart Samf. Af hverju þorir ekki hæstv. forsrh. að segja (Forseti hringir.) það sem hann var að dylgja um? Getur það verið að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi haft rétt fyrir sér?