Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:56:39 (8319)

2004-05-15 17:56:39# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa að mér finnst ekki sérlega hátt ris á umræðunni og sannast sagna lagðist lítið fyrir hæstv. forsrh. þegar hann gerði lítið úr þeirri umræðu sem farið hefur fram í þingsalnum um þetta mikilvæga frv. Ég hef hlýtt á flestar þær ræður sem hér hafa verið haldnar, þær hafa verið efnismiklar og menn hafa lagt sig fram um að varpa ljósi á þetta mikilvæga mál.

Hæstv. forsrh. er 1. flutningsmaður málsins. Hann hefur hins vegar ítrekað hunsað óskir um að hann komi til umræðunnar og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum og svari spurningum sem fram eru settar. Ein slík spurning var sett fram í gær og hún er á þá leið:

Frumvarpið á ekki að taka gildi fyrr en að liðnum tveimur árum. Hvað stendur í vegi fyrir því að við skjótum málinu á frest og tökum það upp að nýju í haust?