Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 10:18:26 (8350)

2004-05-17 10:18:26# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[10:18]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í 2. mgr. 63. gr. þingskapalaga segir að forseti geti breytt dagskrá en vinnulagið hefur verið á þá lund, eðlilega, að það sé gert í samráði við formenn þingflokka. Þannig hefur verið starfað í þinginu.

Hitt er alveg rétt hjá hæstv. forseta að það er engin nýlunda að stjórnarandstaðan og stjórnarandstöðuþingmenn óski eftir því að umdeild þingmál séu tekin af dagskrá og geta verið ýmsar ástæður fyrir því.

Hér er um það að ræða að fyrir liggur dagskrá. Það hefur enginn ágreiningur verið gerður um að þessi mál verði rædd í dag, stjórn fiskveiða og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum. Eina ágreiningsefnið er hvernig sú ákvörðun var tekin og að ekki skyldi vera haft samráð við formenn þingflokka.

Hins vegar er alveg ljóst að hæstv. sjútvrh. vissi hvað til stóð. Hæstv. landbrh. vissi hvað til stóð og Bændablaðið vissi hvað til stóð eins og sjá má á þingpöllum. (Gripið fram í.) Ýmsum hafði verið gerð grein fyrir því að til stæði að breyta dagskrá þingsins án þess að þeim sem fyrst skyldi rætt við, formönnum þingflokkanna, væri gerð grein fyrir þessu. Það er þetta sem við erum fyrst og fremst að finna að, herra forseti.