Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:08:16 (8363)

2004-05-17 12:08:16# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég skil alveg og styð það að samkeppni fái að njóta sín og vera sá eðlilegi drifkraftur í hagræðingu sem sanngjarnt rými er fyrir og það hefur nú heldur betur verið samkeppni í íslenskri mjólkurframleiðslu. Hvað sagði hæstv. ráðherra áðan að kúabúum hefði fækkað mikið á nokkrum árum? (ÖS: 600.) Já, 600. Ég held að það sé varla til grimmari samkeppni í nokkurri grein hér á landi en í mjólkurframleiðslu einmitt þar sem keppnin er innbyrðis og hefur þau áhrif að margir hætta og jafnvel fleiri en við teljum æskilegt út frá hugsunum um sjálfbæra atvinnustefnu og sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og líka öryggi framleiðslunnar.

Ég vil mótmæla því að þarna sé ekki um verulega harða samkeppni að ræða. Hins vegar hef ég áhyggjur af því ef innbyrðis samkeppni er svo hörð. Innbyrðis samkeppni fylgir yfirleitt það að menn sæki fjármagn, kaupi aðra út með einum eða öðrum hætti. Mjólkurframleiðslan er að verða óhuggulega skuldsett þannig að ef hagræðingarkrafan er sett óraunhæf á atvinnugrein þá grípur hún til þess að ná í fjármagn og keppa aðra út en getur lent í því hagræða sjálfa sig í hel. Það er það ástand sem er hættulegast öllum, bæði viðkomandi atvinnuvegi og líka neytendum.