Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:31:13 (8405)

2004-05-17 16:31:13# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir öllu máli að það takist að ná fram breytingum á næstu árum þannig að verðið til neytenda lækki. Það er mergur alls þess máls sem ég hef haft í frammi í dag. Hæstv. ráðherra segir að trygging sé fyrir því í þessu kerfi og að það séu fulltrúar ASÍ og BSRB og það kann vel að vera. Hugsanlega dugar það til þess að ná fram þessum lækkunum. En það sem auðvitað skortir á bæði í frumvarpinu og líka varðandi þær tillögur sem er að finna í skýrslunni er hvernig eigi að ná fram þessari lækkun. Hvernig á að tryggja að neytendur fái þessa lækkun í formi lægra verðs á þeim mjólkurafurðum sem þeir fá? Ég sé það ekki alveg.

Nú er það svo að í fjórum markmiðum sem koma fram í 3. gr. frumvarpsins lúta tvær beinlínis að því að lækka verðið. En ég spyr: Hvernig á að tryggja það? Út á það gengur þetta allt, að ná fram lægra verði.