Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:41:02 (8411)

2004-05-17 16:41:02# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Við erum sammála um markmiðin, kannski ekki alveg um leiðirnar. Ég tel að ef til dæmis væri frjáls markaður með mjólk þá kynni það að leiða til verðstríðs eins og einhver sagði í morgun eða harðrar samkeppni. Hún mundi hins vegar ekki hafa áhrif á greinina í heild eins og hún er stödd núna, tel ég, þar sem jafnvægi er milli eftirspurnar og framleiðslu. Hún mundi hins vegar leiða til þess að þeir sem eru langlakastir hvað framleiðni varðar yrðu grisjaðir út. Við eigum aldrei að setja upp kerfi sem er þannig að það haldi yfir hlífiskildi yfir þeim sem ekki standa sig nógu vel. Það má aldrei verða, að minnsta kosti ekki til langs tíma þannig að ég held að samkeppni gæti leitt til þess að bæði greinin og neytendur hefðu betri stöðu eftir á en áður.

Að því er varðar svo afurðastöðvarnar þá er í reynd verið að leggja til lögfestingu á stöðu sem er best lýst með orðunum fákeppni og hugsanlega einokun. Það þarf nú að skoða ákaflega vel áður en menn fallast á það. En ljóst er að afurðastöðvarnar eru sennilega svo fáar eða þær hafa skipt svo rækilega á milli sín verkum að engin samkeppni er á milli þeirra. Ég vil hins vegar sem neytandi verða að njótandi þeirra gæða sem samkeppnin hefur í för með sér. Þegar við jafnaðarmenn vorum í ríkisstjórn vorum við að reyna það með því að breyta lögum og leyfa ákveðinn innflutning á landbúnaðarvörum og það var leyft. En það er einfaldlega svo lítið eins og hæstv. landbúnaðarráðherra sagði, 1--2% af neyslunni innan lands, að það hefur engin áhrif þannig að ég velti því fyrir mér hvort það væri ekki bara gott fyrir neytendur og fyrir greinina, hugsanlega ekki fyrir afurðastöðvarnar fyrsta kastið, að leyfa aukinn innflutning á unnum mjólkurafurðum og efla þannig samkeppnina.