Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 20:58:29 (8449)

2004-05-17 20:58:29# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GHj
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[20:58]

Guðjón Hjörleifsson:

Frú forseti. Frumvarp hæstv. sjútvrh. um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, byggir á því að leyfilegum sóknardögum sóknardagabáta fækkar um 10% á næsta fiskveiðiári og miðað við viðmiðunarfjölda sóknardaga á yfirstandandi fiskveiðiári fækkaði þeim úr 19 í 18 daga.

Meginbreytingin er sú og ber sérstaklega að fagna henni að nú er útgerðum báta með dagatakmörkun sem hafa leyfi til handfæraveiða gefinn kostur á að stunda veiðar og fá veiðileyfi með krókaaflamarki. Í frv. er gerð grein fyrir hvernig reiknigrunnur er fundinn út með tilliti til aflareynslu hvers báts í þorski og ufsa á öðru hvoru fiskveiðiárinu 2001/2002 eða 2002/2003. Reiknigrunnur hvers báts í krókaaflahlutdeild byggir á viðmiðunarreynslu hans og teljast 80% af upp að 50 lesta reynslunni og 60% af því sem umfram er og er miðað við óslægðan fisk.

Virðulegi forseti. Þá er einnig tekið tillit til þeirra sem hafa lítið veitt. Lágmark er sett og skal reiknigrunnur í þorski aldrei vera lægri en 15 lestir miðað við óslægðan fisk. Andstæðingar þess að gefa útgerðum handfærabáta sem eru með dagatakmarkanir möguleika á að fara í aflamarkskerfið segja að nú sé verið að færa mönnum einhvern gjafakvóta. Það er mjög ósanngjarnt og gerir ekkert annað en skapa tortryggni í garð þessara manna. Sóknardagakerfið býður upp á að hægt er að kaupa og selja sóknardaga, þ.e. þeir eru framseljanlegir, og er það ekki ólíkt þeirri þróun um viðskipti sem er í stóra kerfinu. Verið er að gefa þessum aðilum tækifæri að velja um hvort þeir vilji sóknardaga eða fara í krókaaflahlutdeild í þorski og ufsa á næsta fiskveiðiári.

[21:00]

Í áranna rás hefur verið mikill ágreiningur um sóknardagabáta og hefur mest borið á því fyrir alþingiskosningar hverju sinni. Vonandi linnir þessum ágreiningi ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Fiskistofa hefur út frá forsendum frumvarpsins reiknað út hver valkostur hvers báts er miðað við aflamark og ef við skoðum hvernig sú skipting er í óslægðum þorski, virðulegi forseti, þá fá 55 bátar 15 tonn, 66 bátar fá úthlutað á bilinu 15--25 tonn, 75 bátar fá úthlutað á bilinu 25--35 tonn, 52 bátar fá úthlutað á bilinu 35--45 tonn, 29 bátar fá úthlutað á bilinu 45--55 tonn, 11 bátar fá úthlutað á bilinu frá 55--65 tonn og 4 bátar eru með meira en 65 tonn. Þetta eru 292 bátar með 8.800 tonn sem er tæplega 31 tonn á bát að meðaltali.

Virðulegi forseti. Í áranna rás hefur verið mikill ágreiningur um sóknardagabáta og hefur mest borið á því fyrir kosningarnar eins og ég sagði. Ég tel þetta frumvarp skapa tækifæri til að ná meiri sátt í þessum hluta fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég fagna því jafnframt að ekki er gefinn kostur á því að selja sig út úr þessu kerfi, það er að þeir stóru gætu keypt aflamark þeirra minni. Það er mjög mikilvægt.

Ég skal viðurkenna að ég hefði viljað hafa þennan valkost skýrari. Þar á ég við það að miðað við þann fjölda eigenda skipa sem hafa valkosti gilti sú regla að ef 60--65% þeirra sem velja annan valkostinn frekar en hinn þá væri það niðurstaða fyrir alla. Þá kæmi í ljós hvort við ætlum að vera áfram í sóknardagakerfinu eða færa alla þessa aðila yfir í krókaafla að hluta til. Með því lokuðum við þessum ágreiningi og sköpuðum töluvert meiri vinnufrið hjá þessum aðilum, svo og stjórnmálamönnum.

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að þegar maður kemur úr sjávarplássi þar sem útgerðarfyrirtæki hafa lagt mikið undir og verið í aflamarkskerfinu hafa veiðar smábáta alltaf verið að taka meira til sín og skerða hjá þeim sem eru í stærra kerfinu. Í sóknardagakerfinu árið 1998/1999 voru 5.575 tonn veidd af þorski, 1999/2000 6.914, 2000/2001 8.437, 2001/2002 12.424 tonn og 2002/2003 11.009 tonn.

Það hafa margir dagakarlar, eins og þeir nefna sig þegar þeir kynna sig, hringt í mig eða sent mér tölvupóst ásamt því að ég hef fengið senda undirskriftarlista um 100 eigenda dagabáta þar sem þeir hafa hvatt til þess að fá umræðu um málefni sóknardagabáta á þeim forsendum að fara í svokallað kvótakerfi í stað sóknarstýringar. Eftir að hafa kynnt mér þessi mál og þær forsendur sem þeir leggja fram tel ég það vera sanngjarna kröfu og frumvarp sem hæstv. ráðherra leggur fram býður fram þann valkost. Þetta snýst um atvinnuöryggi 400--500 fjölskyldna og tryggir að hægt sé að byggja á þessu til framtíðar og gera áætlanir í samræmi við það. Þó svo að kvóti þessara aðila verði minni en þeir hafa verið að veiða þá eru margir kostir sem hjálpa til að vega upp þann mismun. Má þar nefna að hjá mörgum er lausafjárstaðan mjög erfið, enda er mikil óvissa um úthlutun sóknardaga á hverju ári. Í sóknardagakerfinu mega dagabátar einungis róa frá 1. apríl til 31. október ár hvert. Með því að fara í kvótakerfið geta þeir aðilar sjálfir ákveðið hvenær og hvert þeir sækja fisk í sjó.

Með því að stjórna sinni sjósókn sjálfir geta þeir valið stærri og betri fisk með því að veiða á öðrum árstíma og fengið þannig hærra verð sem vegur töluvert þungt þegar borinn er saman mismunur annars vegar á veiði síðastliðinna ára og úthlutunar á krókaaflamarki. Það er líka staðreynd að það tekur oft meiri tíma að sækja betri fisk en stunda veiðar á smáfiski yfir sumartímann. Gæði smáfisksins eru ekki sambærileg og töluvert meira er af ormi í smáfiski.

Réttilega hefur verið bent á að minna komi af fiski yfir sumartímann með þessum breytingum og það er líklega rétt að mínu mati. Aftur á móti er verið að skapa mikil aflaverðmæti og meira gæðahráefni en er í dag ef þessar breytingar ná fram að ganga. Þróun á veiðum sóknardagabáta hefur verið með þeim hætti að veidd hafa verið upp í 12 þúsund tonn af þorski á einu ári eins og áður hefur komið fram.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra eru settar reglur um leyfilegan fjölda handfærarúlla um borð í hverjum bát og breytingar á vélum báta sem leiða til aukningar á vélarafli í hestöflum og hafa áhrif á fjölda sóknardaga. Það er staðreynd að fjöldi handfærarúlla um borð í báti og ganghraði hans skiptir veigamiklu máli fyrir aflagetu hans. Ef engar takmarkanir verða settar er ljóst að það þarf að fækka dögum enn frekar ef við ætlum að vera áfram í sóknardagakerfinu því þessir bátar eru margir orðnir það öflugir að þeir munu einungis skerða veiðar þeirra minni og aflvana þar sem töluverður hluti af tíma þeirra fer í siglingu til og frá þeim fiskimiðum sem þeir róa á.

Virðulegi forseti. Í sjávarútvegsnefnd hefur þingmannafrumvarp um gólf á sóknardögum ekki verið tekið til afgreiðslu þar sem von var á frumvarpi frá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það er ljóst miðað við þær umræður sem ég hef orðið var við á þingi að ágreiningur er um þetta mál. Einhverjir hefðu viljað á gólf og eingöngu sóknartakmarkanir. Aðrir viljað breytingar og setja alla þessara dagabáta í kvóta. En hæstv. sjávarútvegsráðherra fer bil beggja í þessum málum.

Ég er einn af þeim, eins og áður hefur fram komið í ræðu minni, sem vildu sjá alla dagabáta í aflamarki og trúi ekki öðru að ef stærri hluti þeirra aðila sem gera út dagabáta vilja fara þá leið þá fái þeir sterkt bakland Landssambands smábátasjómanna til þess að svo geti orðið því þeir eiga að vinna að hagsmunum sinna manna í félaginu.

Virðulegi forseti. Ég hef einnig orðið var við að töluverður ágreiningur er af hálfu LÍÚ um frumvarpið og það er ekkert óeðlilegt þegar við skoðum sögu og þróun veiða smábáta. Vonandi verður hægt að vinna þetta mál faglega og við erum skyldug að taka mest tillit til þeirra aðila sem eru í þessari atvinnugrein en þó með þeim takmörkunum sem setja þarf um veiðar úr þorskstofninum.

Við ræðum mikið um kostnað við hafrannsóknir og eftirlit. Er hægt að hagræða og spara á einhverju sviði og jafnvel auka fjárframlög sem því nemur í enn meiri hafrannsóknir? Það er mitt mat að ef við færum með alla sóknardagabáta í aflamarkskerfi þá væri hægt að spara töluvert. Það er dýrt að vera með tvö kerfi. Við það gæti því skapast nokkur sparnaður. Með tvískiptu kerfi hefur skapast mjög mikill ágreiningur milli útgerðarhópa og við stjórnmálamenn höfum einnig komið töluvert inn í þær deilur og oft skapað meiri vandræði en minni. Allt of oft hefur orðið að bregðast við með sértækum aðgerðum.

Af framansögðu er ljóst að breytingar hæstv. sjávarútvegsráðherra eru byggðar á framtíðarsýn og styrkingu núverandi fiskveiðistjórnarkerfis, það er aflamarkskerfis.

Virðulegi forseti. Í fyrramálið er fundur í sjávarútvegsnefnd. Þar munu fulltrúar Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins mæta og fara yfir frumvarpið. Þar munu jafnvel liggja fyrir upplýsingar um fjölda skipa miðað við heimahöfn, löndun í hverri höfn og vinnslu í hverri höfn þannig að það eru mjög gagnlegar upplýsingar sem þar liggja fyrir og mjög athyglisverðar.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra sem við erum að fjalla um verði afgreitt nú á þessu þingi sem senn fer að ljúka. (Gripið fram í: Heldurðu það?) Ég vona það.