Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:17:23 (8460)

2004-05-17 21:17:23# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:17]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson svaraði ekki spurningu minni. Ég held að hann hafi ekki skilið hana. Það er einu sinni svo í störfum Hafrannsóknastofnunar Íslands sem leggur til gögn og tekur í raun ákvörðun með sjútvrh., þó kannski eingöngu sjútvrh., um heildarafla á þorski á Íslandsmiðum, að þá eru 5 eða 10 þúsund tonn til eða frá í þessu kerfi orðnar ansi litlar tölur í samanburði ef við tökum dæmi. Ég var frystitogarasjómaður í fjögur ár. Á frystitogurum er til að mynda verið að vinna þorsk á Bretlandsmarkað, roðlausan með beini. Ákveðinn nýtingarstuðull er tekinn fyrir en nýtingin er í raun 5--6% minni eins og allir sem til þekkja vita. Gefum okkur það að frystitogarar hér við land séu að veiða 100 þúsund tonn af þorski og það sé 5--6% munur á nýtingarstuðli Fiskistofu og raunnýtingu á þeim afla sem kemur upp úr skipinu. Þá eru það 5.000--6.000 tonn. Þetta skiptir ekki máli þegar verið er að finna út úr því hvað við eigum að veiða mikið af þorski á hverju fiskveiðiári. Það er ekki horft á þessar breytur. Til að mynda er ekki einu sinni horft til áætlaðs brottkasts sem menn vita ekki einu sinni hvað er mikið. Þess vegna finnst mér ótrúlegt að í hvert skipti sem þessi litli floti sem dagabátasjómenn eru berst fyrir rétti sínum og lífsviðurværi, hvort sem það eru 2, 3, 4 eða 5 þúsund tonn til eða frá, að það sé grundvallarregla að fiskur í reit einum skuli dragast af fisk í reit tvö. Því verð ég að beina þeirri spurningu aftur til hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar: Telur hann það rétt í ljósi þeirra óljósu veiða (Forseti hringir.) sem í raun eru hjá frystitogaraflota landsins og víða annars staðar?