Einkaleyfi

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 14:12:40 (8560)

2004-05-18 14:12:40# 130. lþ. 119.22 fundur 751. mál: #A einkaleyfi# (evrópski einkaleyfasamningurinn o.fl.) frv. 53/2004, RG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að leyfa mér að taka undir síðustu orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þegar hann lýsir ánægju með það þegar tekst að ljúka miklum lagabálki og hann hefur verið unninn þannig að samstaða hefur náðst í mikilvægum málum. Sem betur fer er það oft þannig að þingið afgreiðir í sátt þýðingarmikil mál en það er líka mjög misjafnt þegar menn stýra slíkri vinnu í þinginu hvað þeir leggja sig mikið eftir því að þýðingarmikil mál sem helst eiga að hafa góðan sess og ekki taka breytingum strax aftur séu unnin þannig að um þau sé alhliða sátt í þinginu. Þetta er grundvallaratriði með mörg stærri mál. Mér er kunnugt um að í mörgum þjóðþingum er það þannig að mönnum dytti ekki í hug að breyta ákveðnum tegundum laga öðruvísi en að það gerðist í svo mikilli sátt að a.m.k. 80% þjóðþingsins stæðu þar að baki. Danir hafa t.d. sagt að um löggjöf eins og grunnskólalöggjöf eða framhaldsskólalöggjöf eða háskólalöggjöf, löggjöf sem mikilvægt er að ekki sé hrært í strax aftur ef stjórnarskipti verða, sé grundvallaratriði að ná sátt um löggjöfina þannig að að baki henni sé a.m.k. þetta hlutfall þingsins. Þessu er öðruvísi farið hjá okkur og við eigum ábyggilega oft eftir að koma inn á það það sem eftir lifir þings hve mikill skortur er á þeirri hugsun af hálfu stjórnvalda hjá okkur og það smitar að sjálfsögu yfir á þá sem leiða vinnu í nefndum. Því fagna ég þeirri yfirlýsingu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þar sem hann talar um að það sé mikilvægt að leiða mál til lykta á þennan hátt í nefnd. Sjálf hafði ég það gjarnan að leiðarljósi sem formaður í nefndum á þeim tíma sem ég var stjórnarliði og er fremur stolt af því að hafa yfirleitt náð fram mjög þýðingarmiklum málum í þokkalegri sátt og a.m.k. þannig að þegar ekki varð sameiginleg niðurstaða féllust menn á að komið væri að því að málið færi inn í þingið þar sem orðið hafði verið við öllum óskum um að fá umsagnir, um að fá fólk á fund nefnda o.s.frv. Það skiptir því máli hvernig unnið er í nefndum.

Ég kem hingað upp og kveð mér hljóðs vegna þess að ég tók til máls um 18. málið á dagskránni. Það er alþjóðasamningurinn sem það frv. sem við erum að fara að afgreiða samkvæmt þessu nefndaráliti byggir á. Mér er ekki kunnugt um hvort eitthvað fleira hafi verið tekið inn í löggjöfina en það gerðist að bæði samningurinn um einkaleyfi og stjórnarfrv. um einkaleyfi komu inn í þingið og eru til meðferðar í nefndum á sama tíma, annars vegar í utanrmn. og hins vegar í iðnn. Mér finnst það mikilvægt og ég er alveg viss um að það væri meira að segja hægt að hafa það þannig að það væri meiri samvinna á milli nefndanna, þeirra nefnda sem afgreiða alþjóðasamninga og í sumum tilfellum ESB-tilskipanir og þeirrar fagnefndar sem er með málið, þ.e. frv. sem byggist á samningnum eða gerðinni, og ég er alveg viss um að það væru góð vinnubrögð og væri líka upplýsandi og skapaði meiri þekkingu á því hvernig endanleg niðurstaða verður á málinu.

Hvað varðar einkaleyfin, ekki síst varðandi lyf, hefur Alþingi á liðnum árum verið mest upptekið af því hversu ströng vernd einkaleyfisins er vegna þess að hér á landi höfum við fyrst og fremst verið með framleiðslu á samheitalyfjum. Þeirri framleiðslu og starfsemi hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á liðnum áratug og það hefur skipt mjög miklu máli fyrir þann iðnað hversu langur tími er heimilaður á einkaleyfinu hjá þeim sem eru með frumlyfin á einkaleyfi og sem verða auðvitað að fá að hafa þau á einkaleyfum í einhvern tiltekinn tíma af því að í slíka framleiðslu er lagður mjög mikill kostnaður vegna rannsókna og endurtekinna rannsókna þar til lyfin verða til.

Nú ber svo við að lyfjaiðnaðurinn hjá okkur hefur tekið breytingum þannig að þegar við skoðum einkaleyfi og samninga um einkaleyfi eins og utanrmn. gerði, og iðnn. hefur haft til meðferðar stjórnarfrv. þar að lútandi, kemur í ljós að á Íslandi er lyfjaiðnaðurinn ekki lengur eingöngu samheitalyf. Auðvitað er sá iðnaður fyrirferðarmestur en það er ánægjulegt til þess að vita að hér á landi eru menn farnir að fást við rannsóknir í ríkari mæli og vera með frumlyfjagerð. Það er þá sem slíkur samningur sem utanrmn. hefur haft til meðferðar og þetta frv. byggir á er nýttur og það er ótvírætt að það er mikill kostur í þeirri stöðu að geta með einni umsókn í evrópska einkaleyfakerfinu sótt um einkaleyfi í hverju þeirra 28 ríkja og kannski bráðum 30 sem á svæðinu eru. Það er full ástæða til fyrir okkur á Alþingi að staldra við þetta og hvaða möguleikar felast í því hvað lyfjaiðnaðurinn er orðinn þýðingarmikill hjá okkur. Þess vegna ákvað ég af því að ég kom með fyrirspurnir varðandi samninginn, sem var 18. mál á dagskránni, við fyrstu umfjöllun málsins og af því að við höfum í framhaldi af því kallað til okkar fjölmarga í utanrmn. og kynnst því hvað felst í þeim samningi, að tala um það fyrir hádegi þegar samningurinn kom á dagskrá og mér finnst líka mikilvægt að þeir sem hafa verið að vinna með málið í sitt hvorri nefndinni geti komið og bent á hvað skiptir máli í þessu.

Það kom fram í utanrmn. að menn voru ekki endilega vissir um að það væri allt gott við nýja einkaleyfasamninginn þar til menn fóru að skoða þá gerð sem er í uppsiglingu hjá Evrópusambandinu en þar er verið að vinna af fullum krafti að gerð sem á að reka formlega smiðshöggið á frjálslegri reglur um þróun og skráningu samheitalyfja. Þetta er svokallað Bolar-ákvæði sem mun hafa gífurlega jákvæð áhrif fyrir lyfjaiðnaðinn. Það má segja að þetta Evrópusambandsákvæði geri það að verkum að það vinni upp þau hugsanlega neikvæðu áhrif sem er að finna í þessum samningi og sem t.d. Samtök iðnaðarins höfðu áhyggjur af þegar þau voru fyrst spurð út í samninginn. Það kom líka fram í utanrmn. að það væri mjög mikilvægt að Ísland gætti þess að um leið og þessar reglur eða gerðir yrðu til hjá Evrópusambandinu að innleiða þær hér í lög eins fljótt og unnt væri vegna þess að það mætti segja að þessar evrópsku gerðir eða reglur væru hin hliðin á peningnum sem mundi gera þetta ástand miklu betra en verið hefur hingað til. Mér finnst ástæða til að minnast á þetta hér af því að það var kannski ekki meginatriðið í framsögu formanns iðnn. þegar hann mælti fyrir nál. og gerði grein fyrir breytingartillögum við frv. og hvaða löggjöf verið er að setja.

Eitt enn sem mér finnst líka skipta mjög miklu máli og við ræddum nokkuð í utanrmn. eru tækifærin sem verða fyrir aðra hér og mér finnst menn hafa fjallað um það sem eitthvað sem ætti að hafa áhyggjur af en það er ekki víst að það sé eitthvað til að hafa áhyggjur af að erlendir aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins geti komið til Íslands með framleiðslu sína eða tiltekinn hluta hennar og með því fengið innkomu í gegnum þessi lög og þennan samning inn á Evrópska efnahagssvæðið. Það sem er neikvætt við það er náttúrlega óttinn við samkeppni á sama sviði af hálfu þeirra sem eru búnir að basla í mjög langan tíma við að koma á góðum innlendum markaði og kraftmikilli framleiðslu en hin hliðin á því dæmi hlýtur líka að vera sú að þarna sé kannski mögulegt að við fáum fyrirtæki inn í landið sem eru með slíka framleiðslu af því að Ísland fái stöðu við það að vera aðili að einni einkaleyfaskrifstofu og í gegnum Ísland fáist innkoma inn á þetta stóra og mikla svæði. Mér fannst þetta mjög áhugavert þegar við ræddum það í utanrmn. og það eru slíkir hlutir sem mér finnst að oft væri ástæða til að kryfja betur til mergjar. Ekkert okkar vissi hver þýðingin af þessu væri í raun, menn hafa svolitlar áhyggjur af því, það er líka ábyggilega frekar spennandi hvað felst í þessari breytingu en það veit ekkert okkar. En það eru tækifæri í þessu og það eru nýjar hliðar á þessu sem mér finnst mikilvægt að við stöldrum við og horfum á með opnum huga. Málið hefur því á sér fleiri hliðar en eingöngu það sem hér kom fram þegar farið var yfir frv. og nál. og ég verð að segja að það var mjög áhugavert að taka málið fyrir með þeim hætti sem við gerðum í utanrmn. og fá svo góða yfirsýn á það hvað væri að breytast varðandi lyfjaiðnaðinn. Ég átti sæti í iðnn. fyrir nokkrum árum og ég minnist þess að þá fengum við einkaleyfalöggjöfina og þá snerist öll umræðan um það hvaða erfiðleikar gætu fylgt því fyrir innlendan lyfjaiðnað sem allur byggðist á samheitalyfjum og var allur þess eðlis að hann snerist um að geta komist sem fyrst inn á markaðinn og að aðrir væru ekki með of löng einkaleyfi.

Við það að fara yfir mál af þessu tagi er líka gaman að átta sig á hve miklar breytingar hafa orðið hér á landi, hvaða nýsköpun hefur orðið og hvernig menn hafa nýtt sér tækifærin og hversu kraftmikill lyfjamarkaðurinn er í raun orðinn þannig að mér fannst full ástæða til, virðulegi forseti, að þó að málið væri afgreitt úr fagnefnd að koma hér og ræða með hvaða hætti við höfum farið í málin í sitt hvorri nefndinni, hv. utanrmn. og iðnn. Ég vil því hafa það mín lokaorð að ég held að hér sé á ferðinni mjög merkilegur samningur og góð löggjöf en líka það að það á eftir að koma viðbót við hana sem eru hinar nýju reglur Evrópusambandsins sem að allra mati gerir málið eins jákvætt og unnt verður þannig að það vegur á móti þeim hugsanlega neikvæðu hliðum sem hér er að finna.