Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 15:01:13 (8572)

2004-05-18 15:01:13# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. um málið spunnust heilmiklar og uppbyggilegar umræður um stöðu sveitarfélaganna og hljómaði þar sú framtíðarmúsík sem menn heyrðu fyrir sér hvað varðaði stöðu, stærð, styrk og verkefni sveitarfélaga á komandi árum auk að sjálfsögðu umræðna um þá tvo meginþætti sem koma fram í nefndarálitinu, annars vegar að bæta gildandi ákvæði laganna hvað varðan skipan manna í nefndir og ráð og rýmka heimildir sveitarstjórna til að ábyrgjast lán til stofnana og fyrirtækja í þeirra eigu og hins vegar um atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga sem fram munu fara vorið 2005 á grundvelli tillagna sameiningarnefndar sem félmrh. skipaði. Út frá hinu síðara spunnust hinar mjög svo ágætu umræður strax við 1. umr. þar sem félmrh. var við alla umræðuna og tók þátt í því að ræða með okkur hv. þingmönnum ýmsum úr flestum flokkum ef ekki öllum, held ég, ekki bara um stöðu einstakra sveitarfélaga og hvert stefni heldur einnig hvernig menn sæju verkefnaflutningnum til hagað á næstu árum og tekjustofnunum fyrir komið.

Í athugasemdum við lagafrv. er ágætlega gerð grein fyrir því átaki til eflingar sveitarfélaga sem stendur yfir, skulum við vona. Að minnsta kosti var því formlega hleypt af stokkunum í ágúst árið 2003 og felur samkvæmt því einkum í sér þrennt: Að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu sveitarfélaga og laga tekjustofna sveitarfélaganna að breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan. Þetta segir sérstaklega í erindisbréfi nefndarinnar þannig að það er óhætt, burt séð frá því hvaða skoðanir menn hafa á skipan í þá nefnd, að binda vonir við að átakið færi málið það hressilega úr stað að í maí árið 2005, þegar stefnt er að því að fram fari kosningar um ýmsar tillögur nefndarinnar um sameiningu sveitarfélaga, sjáum við verulegar breytingar á stöðu sveitarfélaganna fyrir okkur hvað varðar stærð þeirra, styrk, verkefni og tekjustofna.

Það gefur augaleið að ýmis sveitarfélög telja sig hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum af hálfu ríkisvaldsins við tilflutning verkefna og telja að sporin hræði og vilja stíga varlega til jarðar en upp úr flestum sveitarstjórnarmönnum stendur að menn vilja að sjálfsögðu sjá þá breytingu ganga yfir á einhverju árabili sem gengið hefur yfir alla Skandinavíu þar sem u.þ.b. 70% af verkefnum samfélagsins eru á forræði sveitarfélaganna og 30% á forræði ríkisins en hérna er það hins vegar algerlega öfugt þar sem 70% af verkefnum samfélagsins eru á forræði ríkisins en einungis 30% á forræði sveitarfélaganna. Samanborið við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndunum þar sem þykir hafa gefist ákaflega vel að laga samfélagið að þessu fyrirkomulagi með ýmiss konar háttalagi, þá tel ég að við eigum að hraða þeirri þróun hér og stefna að því að innan einhverra ára verði því svo fyrir komið að hlutfallið á milli verkefna ríkis og sveitarfélaga sé það sama á Íslandi og hinum norrænu löndunum, það sé hið eðlilega fyrirkomulag. Þess vegna er leiðinlegt hve lengi þessi mál hafa staðið í stað hér á landi og lítil þróun verið í gangi síðan sveitarfélögin tóku við grunnskólunum sem var náttúrlega risastórt skref og heppnaðist að mörgu leyti ákaflega vel.

Það sem ég tel mjög spennandi kost og sé fyrir mér á næstu árum og kemur vonandi út úr störfum þessarar nefndar er að sveitarfélögin taki yfir rekstur á framhaldsskólunum. Ég held að það yrði framhaldsskólunum til mikilla bóta, mundi fleyta þeim mjög fram um veg ef sveitarfélögin tækju þá yfir, enda eru sveitarfélögin flest hver miklu metnaðarfyllri og kraftmeiri í allri samfélagsuppbyggingu sinni en hið opinbera, þjónustan stendur miklu nær íbúunum og slík valddreifing frá ríki til sveitarfélaga er því mjög mikilvæg. Þar eru íbúarnir miklu nær stjórnsýslustiginu og hafa meira með sína hagi að gera og meiri aðgang að fulltrúum sínum, sveitarstjórnarmönnunum. Þess vegna held ég að tilfærsla reksturs framhaldsskólanna yfir til sveitarfélaganna væri mjög mikilvæg í þróuninni á tilflutningi tekjustofna og verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Þar gætu menn séð það fyrir sér að sveitarfélögin mundu enn frekar laga framhaldsskólana að sérkennum hvers samfélags og sérkennum hvers sveitarfélags og væru þá framhaldsskólarnir enn þá fjölbreytilegri og litríkari en þeir eru í dag þó að þeir séu það svo sannarlega, enda er það einn besti kosturinn á íslenska menntakerfinu hve framhaldsskólarnir eru fjölbreytilegir. Slíkur tilflutningur á rekstri þeirra til sveitarfélaganna gæti því svo sannarlega stuðlað að því að þeir mundu enn frekar laga sig að sérkennum þeirra sveitarfélaga og landsvæða sem þeir eru staðettir í og verða íslensku samfélagi og menntakerfi til mikils framdráttar. Þetta er mjög spennandi og það verður mjög gaman að fylgjast með tillögunum sem koma frá umræddri nefnd sem sett var á laggirnar til að vinna að því að skipuleggja og skilgreina átak til eflingar á sveitarstjórnarstiginu. Það verður mjög gaman að fylgjast með því og menn bíða spenntir eftir því.

Hitt sem við ræddum nokkuð ítarlega og um spannst skemmtileg umræða við 1. umr. málsins var hvað menn sjá fyrir sér í sameiningu sveitarfélaganna og er náttúrlega jákvætt ef menn geta náð fram verulegri sameiningu sveitarfélaga strax í maí árið 2005 án þess að til komi nokkurs konar lögþvinganir, enda ganga lögþvinganir um sameiningu sveitarfélaga oft þvert gegn tilfinningu og vilja íbúanna. Við höfum séð að það er ágætisuppskrift að brotlendingu í sameiningu sveitarfélaga og erfitt að halda utan um það. Langbest er að það gerist innan frá. Til marks um það að umræðan um sameiningu sveitarfélaga er að lifna við og taka sitt eigið flug úti í samfélaginu er að þar sem ég fylgist vel með, á Suðurlandi, hafa verið að birtast undanfarið greinar eftir sveitarstjórnarmenn og áhugamenn um sveitarstjórnarmál. Ég man sérstaklega eftir þremur greinum eftir Orra Hlöðversson, bæjarstjóra í Hveragerði, og bæjarfulltrúana í Hveragerði, Þorstein Hjartarson og Magnús Ágústsson, sem báðir eru bæjarfulltrúar Samf. í meirihlutasamstarfi við Framfl. í því sveitarfélagi, farsælu og kraftmiklu samstarfi sem hefur orðið því sveitarfélagi mjög til góðs enda mikil uppbygging í gangi í Hveragerði og íbúafjölgun veruleg. Þeir hafa sett fram hugmyndir um að skoða kosti þess að sameina allt Árborgarsvæðið eins og það er kallað. Magnús Ágústsson nefndi sérstaklega tillögu um að sameina alla Árnessýslu strax í einu skrefi því þar sem Árborgarsvæðið tæki til langflestra íbúa væri trúlega best að stíga skrefið til fulls og sameina alla Árnessýslu strax í eitt sveitarfélag. Þykir mér það mjög spennandi hugmynd og hvet eindregið þá nefnd sem er að störfum um sameiningu sveitarfélaga svo og heimamenn á því svæði til að taka þessa hugmynd upp á arma sína og skoða hana mjög gaumgæfilega.

Oft er best að ganga mjög hratt til verks og ljúka umræðu, leiða hana til lykta á næstu tólf mánuðum og kjósa um þessa tillögu í maí árið 2005, hvort þetta sé vilji íbúanna á þessu svæði, þó að ég viti að víða mætir hún að sjálfsögðu andstöðu og sums staðar vilja menn ekki sjá sameiningar og alls ekki svona stórar heldur sjá fyrir sér að fámennari og dreifbýlli hrepparnir sameinist í minni einingar og líta þá kannski frekar til þess að stóru sveitarfélögin á undirlendinu sameinist. Að sjálfsögðu er mikið til í þessu öllu og þarf að ræða það og skoða frá öllum hliðum og það er það sem ég er að hvetja menn til að gera, að skoða alla kosti sameiningar, líka sameiningarhugmyndirnar um stóru sveitarfélögin sem eru raunverulegt afl og atgervi til mótvægis eða til hliðar við stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og bjóða upp á raunverulega valkosti fyrir þá sem vilja búa í stórum og öflugum sveitarfélögum sem geta boðið íbúum sínum upp á margvíslega og öfluga þjónustu.

Við ræddum líka við 1. umr. mikilvægi þess að nefndin um átak til eflingar á sveitarstjórnarstiginu leggi ríka áherslu á það við ríkisvaldið þegar hún skilar tillögum sínum að menn fari gaumgæfilega ofan í mikilvægi þess að efla íbúalýðræði, efla beint lýðræði og sérstaklega á sveitarstjórnarstiginu þar sem auðvelt er að færa rök fyrir því að milliliðalausa lýðræðið eigi sérstaklega heima. Þar er nærþjónustan og þar er auðvelt að boða til atkvæðagreiðslu um hin ýmsu meginmál hvers sveitarfélags fyrir sig, hvort sem um er að ræða skólamál eða aðra grundvallarþjónustu fyrir íbúana og vil ég nota tækifærið í ræðustól Alþingis til að skora sérstaklega á nefndina, þessa verkefnisstjórn sem er ágætt að nefna hér og í eiga sæti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og þingmennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir og Hjálmar Árnason, sem er formaður verkefnisstjórnar, og Róbert Ragnarsson stjórnmálafræðingur sem hefur verið ráðinn verkefnisstjóri í þessum undirnefndum.

Ég ætla að nota tækifærið til að skora á þá sem hafa þetta verkefni með höndum og hafa verið til þess valdir að beita sér mjög fyrir því að fram komi spennandi og róttækar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga sem taka virkilega til ýmissa kosta ekki bara hinna smærri, svo og að menn gangi djarft fram í því að skilgreina hvaða verkefni menn vilja sjá á allra næstu árum að verði færð til sveitarfélaganna frá ríkinu í krafti þeirrar sameiningar sem fyrir dyrum stendur og tekjustofnatilfærslu og tekjustofnaleiðréttingu. Þetta eru allt grundvallarmál í íslenskum samfélagsverkefnum og eitt af meginviðfangsefnum Alþingis þessi missirin er verkefna- og tekjutilfærsla milli ríkis og sveitarfélaga. Ég tel mjög áríðandi að við það tækifæri sem blasir við okkur vorið 2005 og fyrir næstu almennu sveitarstjórnarkosningar árið 2006 gangi menn til leiks með fullburða og róttækar hugmyndir í þessa veru þannig að engum blandist hugur um að árangurinn af starfinu verði með þeim hætti að sveitarfélögin verði færri, þau verði stærri og þar af leiðandi til muna öflugri en þau mörg hver eru í dag þó svo að misjafnar ástæður liggi að sjálfsögðu að baki fjárhagslegri stöðu einstakra sveitarfélaga og engin leið að ræða það undir einum hatti, enda eru þau á annað hundrað talsins. Það er engin leið að ræða það með einhverjum alhæfingum, þar býr margt að baki. Sums staðar var ranglega gefið við verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnar ónógir, annars staðar búa aðrar ástæður að baki.

Það frv. sem hér liggur fyrir er að sjálfsögðu hið ágætasta mál og til þess gert að liðka fyrir málum en beinir sjónum okkar eðlilega og að sjálfsögðu að stöðu sveitarstjórnarstigsins almennt og þeirri framtíðarsýn sem við hljótum að nota tækifærið til að viðra hér og beina orðum og áskorunum til átaksnefndarinnar um eflingu sveitarstjórnarstigsins þannig að hún megi koma fram með sem bestar og stærstar hugmyndir í þeim málum. Að mínu mati hefur allt of lítil umræða farið fram um þau á seinni árum í samfélaginu, hún er að sjálfsögðu sílifandi meðal stjórnmálamanna og innan einstakra sveitarstjórna, engum blandast hugur um það en það er gaman að sjá, eins og ég nefndi áðan, þegar sameiningarumræðan og umræðan um stöðu sveitarstjórnanna tekur flugið í samfélaginu, lifnar þar við sjálfsprottin hjá heimamönnum, hjá sveitarstjórnarmönnum, hjá forustumönnum heima í héraði, hjá héraðsfréttablöðunum þar sem grasrótarumræðan út um allt land liggur. Þaðan þarf þessi umræða að spretta, þaðan þurfa hugmyndirnar að koma og þaðan þurfa kröfurnar að koma. Þar þarf rökræðan um kosti og galla einstakra tillagna að fara fram á nægjanlegum tíma þannig að þegar fólk gengur að kjörborðinu og kýs um einstaka sameiningarkosti séu menn búnir að rökræða þá út frá öllum hliðum á málefnalegan og uppbyggilegan hátt þannig að kosningarnar verði til þess að menn kjósi það umhverfi og þann stærðarramma sem verður og heldur á næstu árum en endi ekki með þeim hætti að menn þurfi fljótlega aftur að taka upp sameininguna og leita nýrra leiða, skoða aðra kosti, menn hafi orðið af tækifærum, vegna þess að við sameiningu sveitarfélaga felast veruleg tækifæri, bæði fyrir einstök sveitarfélög, svo og fyrir byggðirnar, fyrir hinar dreifðu byggðir sem standa margar mjög höllum fæti vegna ólíkra og ýmissa þátta. Þá felast í sameiningu sveitarfélaganna að mínu mati ofboðslega stór tækifæri fyrir sveitarfélögin og því er svo mikilvægt að umræðan eigi sér bæði vandaðan aðdraganda og fari í vandaðan feril þar sem menn vegast á með rökum, leiða málin til lykta og útkoman verði þannig að sveitarfélögin um allt land og ekki síst hinar dreifðu byggðir standi miklu sterkari eftir, miklu tilbúnari til að axla ábyrgð, til að axla verkefni og til að efla og bæta þjónustuna við íbúa sína þannig að það verði aðlaðandi kostur fyrir unga fólkið að setjast að ekki síður í hinum dreifðu byggðum eins og í byggðunum á suðvesturhorninu sem hafa íbúafjölgunina, kraftinn og þjónustugetuna.

Ef við viljum að fólk hafi eðlilegt val á milli landsbyggðar og höfuðborgar þá tel ég að því vali liggi algerlega til grundvallar um langa hríð að við sameinum sveitarfélögin og eflum þau til dáða þannig að þau geti boðið upp á raunverulega valkosti við sveitarfélögin sunnan lands, sveitarfélögin vestan lands, sveitarfélögin á suðvesturhorninu þar sem er íbúafjölgun, þar sem er kraftur og uppbygging og ekki sá hrunadans margra hinna dreifðu byggða að fólki fækki á listanum yfir íbúa sveitarfélaganna milli ára, ömurleg þróun, verðgildi eigna lítið, ótti í brjósti íbúanna um framtíð sinna byggða, allt sem rekur á eftir fólki að fara meðan eitthvað er að hafa af eigum sínum. Þeirri þróun þurfum við að snúa við, herra forseti, og ég held að þeim viðsnúningi liggi algerlega til grundvallar að við komum þannig út úr sameiningarkosningunum í maí 2005 að við séum með mun færri sveitarfélög, miklu stærri og sterkari, sem gefa íbúum sínum kost á því að verða mótvægi við þær byggðir sem standa vel í dag og sem við öll eða langflest viljum sjá gerast á næstu árum.