Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:34:45 (8600)

2004-05-18 17:34:45# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar að nægjanlegir fjármunir hefðu fylgt yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Það eru ný tíðindi fyrir mig og mig langaði að spyrja hvað hann hefði fyrir sér í því. Er það tilfinning eða hefur einhver skýrsla komið út varðandi það málefni? (EMS: Já, það er það.) Ég spyr vegna þess að það kom fram á borgarafundi í Skagafirði ekki fyrir löngu að það væri ekki búið að gera úttekt á þessu ákveðna málefni. Þess vegna væri ágætt að fá það fram.

Síðan er það annað. Mér finnst eins og þeir sem vilja sameina sveitarfélög úti á landi horfi til þess að það muni leysa að miklu leyti vanda landsbyggðarinnar og skapa mikla hagræðingu. Ég er ekki alveg á því að það mundi endilega leysa allan vanda. Ég held að vandinn snúist oftar en ekki um atvinnuvegina á landsbyggðinni, að þeir standi illa, og menn séu kannski að fara í sameiningarumræður til að forðast það að ræða raunverulega þann vanda sem snýr að atvinnuvegunum. Er ekki ákveðin hætta í því að fara út í þá miklu sameiningarumræðu í stað þess að einbeita sér að rót vandans sem eru atvinnuvegirnir og reyna að leysa þau mál og fjölga atvinnutækifærum og minnka höft íbúa til þess m.a. að fá að stunda sjóinn?