Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:02:58 (8632)

2004-05-19 10:02:58# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak á útmánuðum síðasta árs var ólögmætt árásarstríð samkvæmt þjóðarétti. Fullyrt var af árásaraðilanum að heiminum stafaði ógn af gereyðingarvopnum Íraka og að óhjákvæmilegt væri að grípa til aðgerða.

Þegar í ljós kom að ekki var stuðningur við árás á Írak í öryggisráði SÞ féllu Bandaríkjamenn og Bretar frá því að leita þar eftir samþykki og gripu til einhliða aðgerða. Þegar hér var komið sögu, rétt við upphaf þessa ólögmæta árásarstríðs í marsmánuði 2003, gerðist sá dapurlegi atburður að hæstv. forsrh. og utanrrh., Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, ákváðu upp á sitt einsdæmi, án lögboðins samráðs við utanrmn. Alþingis að setja Ísland á lista yfir þær þjóðir sem styddu aðgerðirnar. Allir þekkja hörmungarnar sem á eftir hafa fylgt.

Komið hefur í ljós og sannast að beitt var blekkingum og hreinum lygum til að réttlæta innrásina. Mannfall óbreyttra borgara í Írak er nú talið talsvert á annan tug þúsunda og mikill fjöldi er slasaður, heimilislaus, atvinnuleysi gríðarlegt og sár neyð. Fjöldi írakskra hermanna sem fallið hafa er óviss en skiptir fleiri þúsundum.

Yfir þúsund hermenn eru fallnir af herjum innrásarliðsins, þar af nálægt 600 Bandaríkjamenn, eftir að Bush lýsti því yfir að stríðinu væri lokið. Landið rambar á barmi borgarastyrjaldar og ástandið í þessum heimshluta er ótryggara en nokkru sinni fyrr.

Í ljós hefur komið að ákvæði Genfarsáttmálans, hverra löngu tímabærri þýðingu á íslensku hæstv. utanrrh. fagnaði á dögunum, eru gróflega brotin með skipulögðum pyndingum hersetuliðsins í Írak. Sams konar brot hafa verið framin í stórum stíl að hluta til á ábyrgð sömu aðila í Afganistan og allir þekkja hin hneykslanlegu mannréttindabrot í bandarísku herstöðinni við Gvantanamóflóa á Kúbu.

Sem aðili að bæði stofnsáttmála SÞ og Genfarsáttmálanum berum við Íslendingar mikla ábyrgð, ekki aðeins á því að virða sjálf ákvæðin heldur ber okkur einnig að gera okkar til þess að aðrir geri það. Þegar svo bætist við að Ísland á beina aðild að málinu vegna stuðningsyfirlýsingar forsrh. og utanrrh. eru spurningarnar sem vakna um lagalega, pólitíska og siðferðilega ábyrgð okkar áleitnar.

Erlendis fer nú fram mikil umræða. Víða eru rannsóknarnefndir sem kryfja til mergjar aðdraganda stríðsins og ábyrgð einstakra aðila að störfum. Í Danmörku hefur þegar einn ráðherra sagt af sér vegna málsins. Stjórnvöld í Sviss hafa kallað á sinn fund sendiherra Bandaríkjanna og Breta og borið fram formleg mótmæli vegna brota á Genfarsáttmálanum.

Ört fækkar nú í vinahópi Bush og Blairs. Aznar er fallinn á Spáni, Miller í Póllandi, danski varnarmálaráðherrann búinn að segja af sér, John Howard á í vök að verjast í Ástralíu og sjálfir standa þeir höllum fæti, Bush og Blair.

Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að gera þessi mál upp á Íslandi og því hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. utanrrh. sem sjálfar segja heilmikið um eðli málsins:

1. Hafa íslensk stjórnvöld komið á framfæri með formlegum hætti mótmælum vegna illrar meðferðar og pyndinga hernámsliðsins í Írak á föngum svo sem í formi orðsendingar til bandarískra og breskra stjórnvalda eða með því að kalla sendiherra þessara ríkja fyrir?

2. Hefur ríkisstjórnin endurskoðað stuðning sinn við Íraksstríðið í ljósi þess að beitt var blekkingum til að afla hernaðinum stuðnings? Engin gereyðingarvopn hafa fundist, engin tengsl við al Kaída frá því fyrir innrásina hafa sannast, mannfall meðal óbreyttra borgara og hermanna er gríðarlegt, landið rambar á barmi borgarastyrjaldar og ástandið er ótryggara í þessum heimshluta en nokkru sinni fyrr. Gefur þetta ekki allt tilefni til þess að menn endurskoði afstöðu sína?

3. Telur utanrrh. ekki ástæðu til að fram fari óháð rannsókn af Íslands hálfu á lögbrotunum sem fólgin voru í innrásinni í Írak, fólgin eru í illri meðferð á stríðsföngum og fleiru sem þessum atburðum tengist til að greina lagalega, pólitíska og siðferðilega ábyrgð íslenskra stjórnvalda vegna stuðnings þeirra við stríðið?

4. Hafa hæstv. utanrrh. og forsrh. hugleitt þann möguleika að biðja íslensku og íröksku þjóðirnar afsökunar á ákvörðun sinni um stuðning við Íraksstríðið?