Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:17:39 (8720)

2004-05-19 21:17:39# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:17]

Gunnar Örlygsson:

Frú forseti. Það frv. sem hér er til umræðu í þriðja sinn hefur enn og aftur tekið breytingum. Enn og aftur hefur hæstv. utanrrh. lýst því yfir að hann sé sáttur við enn eina breytinguna. Ég vil, frú forseti, koma því að í ræðu minni hver verkþáttur Framsfl. hefur verið í málinu. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson upplýsti þjóðina um áhyggjur sínar af því verklagi sem komið hefur verið á innan stjórnarflokkanna. Ég gat ekki betur skilið mál hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar en að Framsfl. hefði aldrei lagt fram samþykktir eða ályktanir, hvorki í miðstjórn né á landsfundum, um ákveðnar reglur er varða fjölbreytni í dagskrá fjölmiðlafyrirtækja né fjölbreytni á eignarhaldi í fjölmiðlum. Hann telur það aðfinnsluvert að málið hafi ekki verið tekið upp á þingflokksfundi Framsfl. heldur hafi formaður flokksins, hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, upp á sitt einsdæmi lagt loforð sitt við frv. hæstv. forsrh. án þess að til þingflokksfundar hafi verið boðað. Því miður er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sá eini úr röðum hv. þm. Framsfl. sem hefur opinberlega komið fram og gagnrýnt vinnubrögð formanns síns.

Frú forseti. Það er aðfinnsluverð og í raun hættuleg þróun þegar ofríki formanna þingflokka er með slíkum hætti sem staðfestist í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Lýðræðisleg umfjöllun innan beggja stjórnarflokkanna er með öðrum orðum fótum troðin. Þessum fullyrðingum mínum er ekki hægt að vísa til föðurhúsanna en eins og alþjóð veit fóru þeir hinir sömu, hæstv. formenn Framsfl. og Sjálfstfl., sínu fram með nákvæmlega sama hætti þegar þeir samþykktu íslenska þjóð á lista hinna staðföstu þjóða sem stóðu að stríðsinnrásinni í Írak á síðasta ári.

Frú forseti. Í því frv. sem hér er til umræðu fara stjórnarliðar með offorsi að einni atvinnugrein í landinu. Fyrr í kvöld flutti hv. þm. Samf., Ásgeir Friðgeirsson, að mínu mati tímamótaræðu og kannski þá bestu sem flutt hefur verið um þetta mál frá því að frv. kom á dagskrá þingsins fyrir nokkrum dögum. (RG: Rétt.) Hv. þm. nálgaðist viðfangsefnið af yfirvegun og skynsemi fagmannsins. Hann varpaði fram nýjum upplýsingum er varða hinar miklu hættur ef frv. nær fram að ganga. Þingmaðurinn vitnaði í útlistun tímaritsins Frjálsrar verslunar á 90 íslenskum fyrirtækjum en listinn upplýsir um þau fyrirtæki sem högnuðust mest á síðasta ári hér á landi. 60 fyrirtæki af þeim 90 sem útlistuð voru eru á einn eða annan hátt markaðsráðandi eða tengjast markaðsráðandi fyrirtækjum. Í samkeppnislögum er minnst á sameiginlega markaðsráðandi stöðu en undir slíka greiningu falla fyrirtæki sem örfá ráða yfir markaðnum á landsvísu, með öðrum orðum fyrirtæki eins og viðskiptabankarnir, tryggingafyrirtækin, olíufyrirtækin o.s.frv. Hin fyrirtækin 30 sem ekki teljast til markaðsráðandi fyrirtækja eru flest hver sjávarútvegsfyrirtæki. Fyrirtæki eins og Grandi, Samherji, Haraldur Böðvarsson, Síldarvinnslan og fjölmörg fleiri fyrirtæki sem ráða yfir sameiginlegri auðlind þjóðarinnar eru þau líklegustu og kannski þau einu sem hugsanlega hafa fjárhagslegan styrk til að fjárfesta í fyrirtækinu Norðurljósum ef frv. nær fram að ganga.

Frú forseti. Sjávarútvegsstefna stjórnarflokkanna hefur lengi vel hvorki hugnast stjórnarandstöðunni né meiri hluta þjóðarinnar. Ég efast stórlega um að meiri hluti þjóðarinnar vilji að íslenskir sjávarútvegsrisar verði hér markaðsráðandi í íslenskum fjölmiðlum en þeir virðast vera þeir einu, einu fyrirtækin, frú forseti, sem hér eftir munu hafa fjárhagslega burði til að fjárfesta í fyrirtækinu Norðurljósum ef þessi lög ná fram að ganga.

Í fyrri ræðum mínum um sama mál, frú forseti, og jafnframt í störfum mínum sem áheyrnarfulltrúi í efh.- og viðskn. Alþingis hef ég ítrekað talað um mikilvægi Kauphallarinnar í þessu máli. Það liggur í augum uppi að fyrirtæki sem kemst á skrá í Kauphöll Íslands þarf að fylgja mjög ströngum upplýsingaskilyrðum til almennings. Gagnsæi er algert. Reikningar eru lagðir fram ársfjórðungslega. Eignarhald er kristaltært og öllum almenningi kunnugt. Jafnframt tryggir skráning í Kauphöll Íslands fyrirtækjum dreifða eignaraðild. Öll helstu markmið fjölmiðlanefndar hæstv. menntmrh. endurspegla þau áhrif sem skráning fjölmiðlafyrirtækis í Kauphöll Íslands mundi ná fram. Í þessu ljósi vil ég minnast á yfirlýst markmið forsvarsmanna fyrirtækisins Norðurljósa um skráningu félagsins í Kauphöll Íslands seint á næsta ári. Á fundi efh.- og viðskn. Alþingis staðfesti forstjóri Kauphallar Íslands, Þórður Friðjónsson, með leyfi forseta, að undirbúningsfundur væri að baki milli Norðurljósa og Kauphallarinnar um væntanlega skráningu fyrirtækisins á markað. Frv. hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar og fylgisveina hans tryggir að sá draumur verði ekki að veruleika. Frv. tryggir að góð markmið í skýrslu hæstv. menntmrh. muni ekki ná fram að ganga.

Frú forseti. Það er skylda hinna þjóðkjörnu fulltrúa sem hér starfa að undirbúa þingmál sín af yfirvegun og skynsemi. Þetta frv. er illa farið og illa unnið. Í frv. er hvorki tekið tillit til smæðar hins íslenska markaðar né atvinnuöryggis hundruða Íslendinga. Frv. tekur ekki tillit til nauðsynlegrar þróunar í fjölmiðlagreininni þar sem atvinnuumhverfinu eru settar slíkar skorður að takmarkaður áhugi áreiðanlegra fjárfesta verður ekki lengur fyrir hendi. Það leiðir til dapurrar samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla við að framleiða innlent dagskrárefni sem jafnan hugar að mikilvægi menningar og arfleifð lands okkar.

Frumvarpið er ekki sett fram af yfirvegun eða skynsemi, frú forseti. Hæstv. ráðherra Davíð Oddsson hefur því miður látið heiftina ráða í þessu máli.

Frú forseti. Ég vil taka fram að ég efast ekki um mikilvægi þess að umræðan fái áfram að ganga. Hér á fundum hafa hv. þm. stjórnarandstöðunnar ítrekað reifað mikilvægi þess að þetta mál verði rætt frekar og sumarið tekið í það. Hér hafa komið ný sjónarmið sem varpa nýju ljósi á málið í heild sinni. Því meira sem málið er reifað þrátt fyrir brtt. stjórnarliða kemur ærlega og betur í ljós hversu mikill vandi stjórnarliða er orðinn í þessu máli. Það sýndi sig áðan þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson átti í stökustu vandræðum í andsvörum við stjórnarandstöðuþingmenn.

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að vitna í framhaldsnefndarálit frá minni hluta allshn., með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn lýsir yfir vanþóknun á fullkomnum viljaskorti meiri hlutans til að skoða efnisþætti málsins til hlítar og bendir á að fyrir liggja rökstudd álit fjölmargra sérfræðinga þess efnis að veruleg áhöld séu um að málið standist stjórnarskrána en enginn hefur enn treyst sér til að fullyrða hið öndverða.

Í umsögnum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og minni hluta menntamálanefndar koma fram efasemdir um að frumvarpið nái markmiðum sínum. Vandræðagangurinn við málið er fordæmalaus. Með breytingartillögum meiri hlutans að þessu sinni er fjórða útfærsla málsins í meðförum ríkisstjórnarinnar að líta dagsins ljós. Það endurspeglar hve málið var illa ígrundað og óvandað í upphafi eins og minni hlutinn hefur margsinnis bent á. Ríkisstjórnin er í verulegum erfiðleikum með málið og nú á að gera enn eina tilraunina til að bjarga því sem bjargað verður. Þrátt fyrir látlausar tilraunir til að betrumbæta þessa hrákasmíð mun það ekki bera árangur því enn er frumvarpið þannig úr garði gert að veruleg hætta er á að það gangi gegn yfirlýstum markmiðum sínum og dragi úr fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði í stað þess að auka hana. Þá hafa ummæli einstakra ráðherra og stjórnarliða þess efnis að umfjöllun og fréttaflutningur tiltekinna fjölmiðla sé þeim til sérstakrar skapraunar skotið stoðum undir þá ályktun að frumvarpið feli í sér atlögu að tilteknum fjölmiðlum. Lögin verði því í raun sértæk og feli í sér aðför að tjáningarfrelsinu.

Frumvarpið var meingallað og illa ígrundað í upphafi. Hvorki málsmeðferðin né breytingartillögur meiri hlutans nægja til að gera frumvarpið þannig úr garði að það geti orðið grundvöllur góðrar lagasetningar sem tryggi lýðræði, fjölbreytni og sjálfstæði í fjölmiðlun.``

Frú forseti. Ég vil halda áfram að lesa upp úr framhaldsnefndaráliti minni hluta allshn. Þar er m.a. að finna umsögn frá meiri hluta efh.- og viðskn., en meiri hluti efh.- og viðskn. í þessu tilviki er stjórnarandstaðan á þingi. Í því ljósi má kannski kasta því fram að það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fá að starfa í efh.- og viðskn. að þessu leytinu til því þar hefur lýðræðið fengið að ráða. Mörg slæm mál stjórnarliða hafa fengið þá meðferð innan nefndarinnar að ekki hefur hlotist skaði af. Umsögn meiri hluta efh.- og viðskn. er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða af umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar er að mati meiri hluta nefndarinnar sú að frumvarp til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum muni þrengja mjög að rekstrarskilyrðum starfandi fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði. Það er því líklegt til að ganga gegn yfirlýstum markmiðum þess um að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Málið er augljóslega vanbúið og ekki tækt til afgreiðslu á þeim skamma tíma sem þinginu er ætlaður til að fjalla um frumvarpið. Þá er það alvarlegt umhugsunarefni að á fundum nefndarinnar voru lögð fram gögn sem benda til að hugsanlega stríði frumvarpið gegn ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Samtök banka og sparisjóða töldu að lögfesting frumvarpsins mundi leiða til þess að fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði gætu að öllum líkindum ekki skráð sig hjá Kauphöllinni. Samtökin lýstu jafnframt þeirri skoðun að slík lög mundu leiða til þess að bankar og fjármálastofnanir gætu ekki lagt til tímabundna aukningu á eigin fé fjölmiðla sem augljóslega takmarkar verulega möguleika fjölmiðlafyrirtækja til að endurskipuleggja rekstur sinn á tímum erfiðleika.``

Frú forseti. Í umsögn minni hluta efh.- og viðskn. um sama mál til allshn. segir, með leyfi forseta:

,,Í máli forstjóra Kauphallarinnar fyrir nefndinni kom fram að efnisatriði frumvarpsins kæmu ekki í veg fyrir að fjölmiðlafyrirtæki yrði skráð á markað hjá Kauphöllinni, en hann benti á að hömlur á eignarhaldi kynnu að gera slík fyrirtæki síður fýsileg sem fjárfestingarkost.``

Hér erum við komin að kjarna málsins og þeirri hættu sem frv. hæstv. forsrh. býður upp á. Ég spurði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson í andsvörum áðan hvaða fyrirtæki hann teldi líkleg til þess að fjárfesta í fyrirtækinu Norðurljósum ef þessi lög næðu fram að ganga. Það er vitað að fyrirtækið skuldar fimm milljarða íslenskra króna og vaxtabyrðin ein og sér er 300 millj. kr. Það liggur því í augum uppi að mjög burðug fyrirtæki þurfa að koma að rekstri slíks fyrirtækis sem kjölfestufjárfestar ef eitthvað á að ná fram að ganga. Þá hefur komið í ljós að stærstu fyrirtækjum landsins eru skorður settar við að koma að fyrirtækinu sem kjölfestufjárfestar.

Látum aðeins hugann reika og hugsum fram í tímann --- ef þetta frv. nær óbreytt fram að ganga, hvað blasir við fyrirtækinu Norðurljósum í þeim efnum þar sem 700 manns starfa, frú forseti? Það sem blasir við því er að selja þarf hluti í fyrirtækinu til annarra fyrirtækja á Íslandi. Enn hefur enginn stjórnarliði svarað þeirri spurningu minni hvaða fyrirtæki komi til greina. Ástæðan fyrir því að þeir geta ekki svarað spurningunni er að mjög líklega verður ekki eitt einasta fyrirtæki tilbúið að ganga í þennan rekstur vegna þeirra skorða sem settar eru inn í atvinnugreinina í frv. hæstv. forsrh. Það býður óneitanlega upp á þá hættu að fyrirtækið fari í gjaldþrot.

Ef fyrirtækið fer í gjaldþrot er um leið komin fábreytni á fjölmiðlamarkaði. Þá er komin fram staða sem ekkert okkar vill horfa upp á, þ.e. að 700 einstaklingar í Reykjavík missi atvinnu sína og fari á atvinnuleysisbætur.

Frú forseti. Enn og aftur ítreka ég andstöðu mína við frv. hæstv. forsrh. og óska þess að hv. þingmenn stjórnarliðsins sjái að sér á síðustu metrunum í meðförum þessa máls.