Úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 11:09:11 (8727)

2004-05-21 11:09:11# 130. lþ. 121.91 fundur 586#B úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[11:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á þær ræður sem hér voru fluttar á undan þeirri síðustu. Ég heyrði ekki nokkurn mann veitast að Hæstarétti, ekki nokkurn einasta. Menn hörmuðu það aðeins að efnisdómur hefði ekki fengist. Ég veit ekki hvers vegna þessi ræða var flutt. Það var enginn sem kom með þá fullyrðingu sem hv. þm. hélt hér fram.

Hann virðist ekki hafa átt annað erindi hingað en að reyna að koma höggi á ríkislögreglustjóraembættið. Hann átti ekki neitt annað erindi en að reyna að koma höggi á það. Ekki veit ég hvers vegna eða hvað fyrir hv. þingmanni vakir. Það hefur ekkert komið fram um að þessi rannsókn hafi ekki verið unnin af miklum heilindum og af miklu afli af hálfu ríkislögreglustjóraembættisins.

Á hinn bóginn er það ákvörðun Hæstaréttar að úrskurða hvaða þættir verða að vera til staðar svo að leggja megi efnisdóm á mál. Það er um þetta sem málið snýst. Enginn hér, og alls ekki sá ræðumaður sem hóf umræðuna, hefur veist að Hæstarétti með nokkrum hætti. Þetta var alveg furðulegt innlegg hjá hv. þingmanni, eingöngu sett upp til að geta komið höggi á ríkislögreglustjóraembættið. Það er mjög óviðfelldið.