Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 12:14:17 (8740)

2004-05-21 12:14:17# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á þeirri töf sem varð á að ég kæmi í ræðustól eftir að mér var gefið orðið en ég tek eftir því að á mælendaskránni eins og hún lítur út núna er ákaflega merkilegt að gerast enn einu sinni, stjórnarþingmenn eru að taka sig út af mælendaskrá. Flóttinn er hafinn rétt einu sinni. (RG: Um leið og ...) Ég skil mjög vel, virðulegi forseti, að stjórnarþingmenn treysti sér ekki að koma í ræðustól og reyna að rökstyðja þetta mál. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sem hér situr og sem jafnframt á sæti í allshn. var fyrir 10 mínútum eða svo næsti hv. þm. á mælendaskrá Alþingis. Þess vegna leyfði ég mér að hlaupa yfir á skrifstofu mína til að ná í gögn og taka það sem ég vildi hafa með mér í ræðustól en svo kemur skyndilega hringing frá Alþingi þar sem tilkynnt er að ég sé næstur í ræðustól vegna þess að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir er búin að taka sig af mælendaskránni. (ArnbS: Greiða fyrir þingstörfum.) Það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir að hv. þingmenn, sérstaklega þingmenn Sjálfstfl., láti hver á fætur öðrum taka sig út af mælendaskrá vegna þess að á fundi þingflokka með forseta á miðvikudaginn þar sem farið var yfir stöðu mála var töluvert löng mælendaskrá og þá kom það fram líka hjá forseta þingsins, hv. þm. Halldóri Blöndal, að þingmenn stjórnarflokkanna, sérstaklega Sjálfstfl., ætluðu líka að tala mikið við 3. umr. Við fögnuðum því að sjálfsögðu, þeir aðilar sem þarna voru á fundi, að fá þingmenn Sjálfstfl. í pontu. Ég kem að Framsfl., B-deildinni, á eftir ef ég man það þá, maður er farinn að gleyma þeim flokki. Þarna kom það skýrt fram úr munni hæstv. forseta þingsins að þingmenn Sjálfstfl. ætluðu að tala mikið við 3. umr. Þá skilur maður það auðvitað þannig að þeir séu ekki í málþófi heldur ætli að færa rök fyrir þessu vitleysisfrumvarpi sem hér verið að reyna að keyra í gegnum þingið.

[12:15]

Hvað skeður svo, virðulegi forseti? Flótti er brostinn í liðið. Stjórnarliðar hverfa. Það er ekki bara hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, sem átti að vera næst á mælendaskrá eins og ég gat um áðan sem hefði átt að standa í ræðupúlti Alþingis nú, heldur einnig hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannsson. Öll eru þau komin út af mælendaskrá.

Virðulegi forseti. Ég tek skýrt fram að ég skil þessa hv. þm. mjög vel. Þau treysta sér ekki lengur til að koma í ræðustól Alþingis og reyna að færa rök fyrir þessu vitleysisfrumvarpi sem ég vil kalla svo. Ég hef einhvers staðar sagt að í þau fimm ár sem ég hef setið á Alþingi held ég að ég hafi aldrei séð jafnilla unnið og vitlaust frv. koma fram á Alþingi eins og nú er.

(Forseti (SP): Forseti vill benda hv. þingmanni á það út af orðum hans að undanfarna daga á hinu háa Alþingi hafa verið allnokkur brögð að því að hv. þingmenn hafi farið inn og út af mælendaskrá, jafnt frá stjórnarflokkum sem stjórnarandstöðuflokkum.) (Gripið fram í: Nei, ekki jafnt.)

Ég hygg, virðulegi forseti, að þetta sé ekki alveg rétt. Ég hugsa að það sé ekki jafnt á með það vegna þess að undanfarna daga og við 2. umr. tókum við auðvitað eftir því að þau undur og stórmerki gerðust stundum að einn og einn stjórnarþingmaður var á mælendaskrá. Við tókum líka eftir því að þeir voru að hoppa niður eftir skránni og stundum út af henni, líkt og er að gerast núna. Ég hygg að það sé ekki rétt að jafnt sé á komið, a.m.k. ekki hvað fjöldann varðar.

Eins og ég segi er þetta athyglisvert, sérstaklega miðað við þau ummæli forseta Alþingis sem komu fram á fundi með formönnum þingflokka á miðvikudaginn var. Þetta var táknrænt fyrir þetta vandræðamál stjórnarflokkanna og af því að ég nefni stjórnarflokkana kemur upp í huga minn garmurinn hann Ketill, hinn flokkurinn í ríkisstjórninni, Framsfl. sem ég hef stundum leyft mér að kalla B-deild Sjálfstfl., a.m.k. eins og hann starfar í dag, vegna þess að framsóknarmenn eru hér á harðahlaupum frá þessu máli, láta ekki sjá sig í umræðu og forðast að taka þátt í ræðum vegna þess að þá geta aðrir þingmenn farið í andsvör við hv. þingmenn og spurt þá út úr og reynt að fá einhverja skýringu á því hvers vegna Framsfl. er svona undarlega eftirlátssamur og lætur hreinlega troða öllu ofan í kok sitt hvað þetta mál varðar.

Ég ætla þess vegna, virðulegi forseti, að fara örstutt yfir ræðu sem hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., þessarar B-deildar Sjálfstfl., flutti þegar hann kom loksins í ræðustól á miðvikudaginn var og tók þátt í umræðu þótt stutt væri. Hæstv. utanrrh. fór nokkrum orðum um stjórnarskrána okkar og taldi hana ekki mjög nákvæmt plagg, lýsti henni þannig, og fræg eru þau ummæli hæstv. utanrrh. að hann sé núna, eftir þessa fjórðu breytingu á frv., öruggari --- ég vek athygli á því, hæstv. forseti, öruggari --- gagnvart stjórnarskránni. Hann er ekki öruggur, hann er öruggari. Þetta minnti mig á smábörn fiktandi með eldspýtur. Hann var eins og smákrakki, hæstv. utanrrh. hér, að fikta með eldspýtur þar sem börn eiga ekki að vera með slíkt og getur valdið stórbruna.

Hæstv. utanrrh. var sem sagt í ræðustól Alþingis að ræða um frv. Meiri hluti allshn. hefur gert allt sem í hans valdi stendur til að kalla inn ýmsa sérfræðinga á lokastigum til að fara yfir stjórnarskrárþátt málsins og annað slíkt en því hefur beinlínis verið hafnað eða komið í veg fyrir það. Svo kemur hæstv. utanrrh., væntanlegur forsrh., sem maður fer auðvitað að setja spurningarmerki við þótt 15. september sé að nálgast, og lýsir því yfir að hann sé öruggari um stjórnarskrána gagnvart þessu máli en áður. Þvílíkt fikt. Þetta er enn eitt dæmið um vandræðaganginn, flaustursleg vinnubrögð og það hvernig þessu máli er troðið í gegnum Alþingi. Ég kem að því síðar þegar ég fer yfir það mál hvernig það lítur út fyrir þann sem hér stendur. Hæstv. utanrrh. talaði sem sagt svo um stjórnarskrána að þar væru mikilvægar leiðbeiningar.

Virðulegi forseti. Sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur fengið á sig nokkra dóma frá Hæstarétti þar sem lög héðan frá Alþingi eru dæmd brotleg við stjórnarskrá. Frægast er sennilega öryrkjamálið þar sem ríkisstjórnin fékk það í hausinn sem hún ætlaði að gera þar. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, aðeins fara yfir mál sem var á hinu háa Alþingi rétt fyrir jól, þegar við vorum að afgreiða fjárlög. Þá lagði ríkisstjórnin fram frv. sem átti að skerða vaxtabætur með afturvirkum íþyngjandi hætti. Það mál kom að sjálfsögðu til efh.- og viðskn. þar sem ég sat sem varamaður eins af fulltrúum okkar Samf. í efh.- og viðskn., akkúrat á þeim fundi, og ég minnist þess þegar við, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og sá sem hér stendur, tókum smáumræðu um frv. Mér er það ákaflega minnisstætt hvernig stjórnarliðið þumbaðist gegn því að ræða þetta, taldi enga þörf á að ræða frekar um hvort þetta bryti í bága við stjórnarskrá gagnvart afturvirkni og taldi yfir höfuð bara hálfasnalegt af þingmönnum Samf. í þessari nefnd að benda á þessi atriði. Þá var það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., kom mér eiginlega mest á óvart og ég verð að segja eins og er að hann óx mjög í áliti mínu akkúrat á þeim fundi. Við höfðum verið að takast á um ýmis önnur mál þar á undan og rætt þau sem ég ætla ekki að ræða um hér. Þá sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal: Ef einhver vafi er á því að frv. brjóti eitthvert ákvæði stjórnarskrárinnar skal stjórnarskrá lýðveldisins Íslands njóta vafans.

Það tók að vísu dálítið langan tíma fyrir okkur þingmenn að fá það samþykkt í nefndinni. Það þurfti m.a. að ræða milli funda og hringja upp í fjmrn. til að fá leyfi fyrir því hvort það mætti skoða þessi atriði um afturvirknina, um hugsanleg brot á stjórnarskránni, hvort það fengist leyfi fyrir því hjá þeim hæstv. ráðherra, fjmrh., varaformanni Sjálfstfl., sem kom inn með þetta frv. Í nefndinni gengu nokkrar dagskrártillögur fram og til baka og enduðu með því, merkilegt nokk, virðulegi forseti, að stjórnarmeirihlutinn féllst á þá kröfu okkar samfylkingarmanna í þessari nefnd undir forustu Össurar Skarphéðinssonar að leita lögfræðilegs álits á þessu atriði. Til þess voru fengnir aðilar eins og Skúli Magnússon og Eiríkur Tómasson.

Hvað gerðist? Jú, það kom í ljós að Skúli og Eiríkur töldu að það væri hárrétt hjá þingmönnum Samf. að þetta ákvæði eins og það var þar sett upp væri brot á stjórnarskránni. Hvað gerðist þá, virðulegi forseti? Jú, merkilegt nokk, fjmrn. féllst á að láta breyta ákvæðinu.

Þetta nefni ég, virðulegi forseti, vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að þetta fikt sé dregið inn, þessi ögrun við stjórnarskrána í mörgum illa unnum málum eins og því máli sem við erum að ræða og að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., skuli svo leyfa sér að koma í ræðustól og segja að hann telji sig núna vera öruggari. Hann er ekki öruggur með stjórnarskrána, hann er öruggari. Ég ætla, virðulegi forseti, vegna þess að það er ákaflega mikilvægt inn í þetta fikt að lesa aðeins upp úr nefndaráliti hv. þingmanna Samf. sem voru í efh.- og viðskn. þegar þetta mál var rætt. Þegar þessir miklu lögspekingar komu fram með sín gögn sáu allir hv. þm. í nefndinni á hvaða vegferð þeir voru. Lögspekingarnir komu vitinu fyrir fjmrn. sem ætlaði að neita því á fundum áður að fjalla um þetta mál. Með leyfi forseta vil ég lesa aðeins upp úr þessu nefndaráliti og upp úr því lögfræðiáliti sem hér hefur komið fram vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að það sé tekið inn í þessa umræðu ef það gæti orðið einhverjum hv. stjórnarþingmönnum, og þá sérstaklega úr B-deildinni, Framsfl., víti til varnaðar. Þeir gætu séð að sér áður en þeir koma í þingsal til 3. umr. og lokaatkvæðagreiðslu um þetta mál sem við erum að ræða og sagt hingað og ekki lengra, líkt og gerðist í efh.- og viðskn. sem ég geri hér að umtalsefni. Ég geri ekki ráð fyrir því, virðulegi forseti, að þeir hv. þm. Sjálfstfl. muni vilja hlusta á þetta, skoða það eða taka þessi aðvörunarorð til sín vegna þess að það er öðruvísi með Sjálfstfl. þegar hæstv. forsrh. talar, formaður Sjálfstfl. Hann gefur tilskipun til fótgönguliðanna í þingflokki Sjálfstfl., þeirra hv. þm., og þannig skal fara, aldrei líta til baka, ekki líta til vinstri eða hægri heldur taka það sem fram er reitt, keyra það áfram hvað sem það kostar, jafnvel þó að menn hafi efasemdir í huga sínum gagnvart ýmsum atriðum eins og þarna kom fram. Ég hygg að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi jafnvel fengið skammir frá forustu Sjálfstfl. vegna þessa máls í efh.- og viðskn. rétt fyrir jól sem ég hef gert að umtalsefni. Með leyfi forseta ætla ég þá að hefja lesturinn úr þessu nefndaráliti. Ég vona að ég þurfi ekki að fara mjög langt í því til að rökstyðja það að láta það koma hérna fram svo að þingmenn, eins og ég segi, geti heyrt hvað þarna fer fram. Það er sem sagt verið að fjalla um þetta vaxtabótamál:

[12:30]

,,Í umfjöllun nefndarinnar um málið bentu fulltrúar Samfylkingarinnar á að afar líklegt væri að skerðing vaxtabótanna, sem ...``

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmann á að biðja um leyfi forseta áður hann les upp úr þessu áliti.)

Ég tel mig hafa verið búinn að því, hæstv. forseti. Ef flett væri til baka og hlustað á það sem ég var að fjalla um er það en ég skal gera það enn einu sinni að biðja um leyfi hæstv. forseta til að lesa úr þessu nefndaráliti vegna vaxtabótamálsins, með leyfi forseta:

,,Í umfjöllun nefndarinnar um málið bentu fulltrúar Samfylkingarinnar á að afar líklegt væri að skerðing vaxtabótanna, sem væri íþyngjandi afturvirk skerðing, stæðist ekki stjórnarskrána. Það hefur nú komið á daginn. Fjármálaráðuneytið óskaði eftir áliti Skúla Magnússonar dósents við lagadeild Háskóla Íslands um þetta álitaefni. Hans niðurstaða var að hætta væri á því að dómstólar teldu skerðinguna andstæða 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Eiríkur Tómasson prófessor sem vann álit fyrir efnahags- og viðskiptanefnd um málið komst að þeirri niðurstöðu að það bryti væntanlega í bága við stjórnarskrána að framkvæma afturvirka skerðingu á vaxtabótum með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Enn eina ferðina er ríkisstjórnin uppvís að því að ætla að leiða í lög ákvæði --- nú fyrir skulduga einstaklinga --- sem líklegt er að brjóti stjórnarskrána. Ríkisstjórnin hefur því enn ekki lært sína lexíu þótt hún hafi á stuttum tíma ítrekað fengið úrskurð dómstóla um stjórnarskrárbrot --- nú síðast í októbermánuði vegna brota á 77. gr. stjórnarskrárinnar gagnvart öryrkjum. Þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að hinni umdeildu skerðingarreglu gagnvart öryrkjum yrði ekki beitt afturvirkt þar sem bótaþegar ættu kröfuréttindi til bóta í samræmi við reglur sem í gildi voru á þeim tíma þegar réttur til bóta stofnaðist og að þau kröfuréttindi nytu verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.``

Síðan segir í þessu nefndaráliti, ég hoppa yfir smákafla, með leyfi forseta:

,,Eiríkur Tómasson prófessor gaf nefndinni álit sitt á þessari breyttu tillögu ríkisstjórnarinnar. Niðurstaða hans var sú að líkur væru á því að íslenskir dómstólar mundu komast að þeirri niðurstöðu að ráðgerð skerðing vaxtabóta á árinu 2003, með því að skerða vaxtabætur afturvirkt um 10% hjá öllum þeim sem rétt eiga á bótunum samkvæmt núgildandi lögum, væri stjórnskipulega gild.``

Þarna er sem sagt verið að fjalla um það eftir að stjórnarmeirihlutinn breytti því skerðingarákvæði sem þeir ætluðu að gera til að ná í þessar, að mig minnir, 600 millj. sem átti að skerða vaxtabætur um.

,,Í lok álitsins kemur þó fram eftirfarandi: Þó er ekki unnt að útiloka að dómstólarnir telji að með þeim hætti að skerða vaxtabætur afturvirkt með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir, sé svo vegið að réttaröryggi þeirra, sem fyrir skerðingunni verða, að hún brjóti í bága við stjórnarskrána. 1. minni hluti tekur undir þetta, enda ljóst að réttaröryggi fær sífellt aukið vægi í dómum Hæstaréttar. Þrátt fyrir að Skúli Magnússon dósent hafi ekki fjallað um nýju útfærsluna í sínu áliti kom þó fram hjá honum á fundi nefndarinnar að þótt líklegt væri að hún stæðist væri ekki hægt að útiloka að sú tillaga gengi gegn stjórnarskránni.``

Síðar segir í nefndarálitinu:

,,Aðspurður sagði Eiríkur að þingmenn ættu ekki að standa að lagasetningu ef vafi léki á að hún stæðist stjórnarskrána.`` --- Ég tel rétt að lesa þetta aftur með tilliti til þess hver maðurinn er, Eiríkur Tómasson sem er framsóknarmaður og hefur oft ráðlagt Framsfl. og verið í þeim flokki lengi, ég veit ekki hvort hann er það lengur, en aðspurður ,,sagði Eiríkur að þingmenn ættu ekki að standa að lagasetningu ef vafi léki á að hún stæðist stjórnarskrána.``

Þetta kemur upp í huga minn, virðulegur forseti, þegar ég fer aftur í að vitna í það sem hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., sagði á miðvikudaginn þegar hann lýsti því að hann væri öruggari gagnvart stjórnarskránni. Áfram ætla ég að fá að lesa úr þessu áliti, örstuttan kafla í viðbót um rétt þeirra sem hafa unnið til vaxtabóta. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegur forseti, að þegar skattar hafa verið lagðir á í þessu landi á næstunni, fólk fær seðlana sína og skerðingar á vaxtabætur get ég ekki ímyndað mér annað en að einhver af þeim sem fær þessar skertu bætur muni fara í mál við ríkið og krefjast réttar síns. Með leyfi forseta vil ég lesa aðeins lengra úr þessu nefndaráliti minni hlutans:

,,Í áliti Skúla Magnússonar kemur fram að mat á því hvort ná megi markmiðum frumvarpsins með öðrum og minna íþyngjandi hætti sé að meginstefnu til á forræði löggjafans. Líta verði líka til þess hvort skerðingar séu almennar, þ.e. hvort þær komi jafnt niður á mönnum og hvort þær varði þá mikla eða litla fjárhagslega hagsmuni. Þrátt fyrir þetta er athyglisvert að í áliti Skúla kemur fram að skerðingin á greiðslum fyrir árið 2003 sé til þess fallin að skerða fyrirvaralaust fjárhagslega hagsmuni heimilanna, enda hafi íbúðareigendur ekki haft möguleika á því að haga fjármálum sínum til samræmis við nýjar reglur. Í áliti hans kemur einnig fram að í byrjun desember 2003 muni þau atvik vera að miklu leyti komin fram sem ráða fjárhæð vaxtabóta. Orðrétt segir síðan: ,,Er það álit mitt að rétthafar vaxtabóta megi almennt treysta því að þeir fái greiddar vaxtabætur fyrir þann tíma ársins sem liðinn er samkvæmt þeim reglum sem hafa verið í gildi á árinu.````

Síðan er fjallað um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og það að við álagningu núna sé þetta afturvirkt íþyngjandi ákvæði vegna þess að fólk hafi eignast þennan rétt.

Kem ég þá aftur að ræðu hæstv. utanrrh., hugsanlega væntanlegs forsrh., þar sem hann var að ræða um fjölmiðlafrumvarpið. Hann taldi það einnig fullkomlega eðlilegt að eitt fyrirtæki ætti ekki bæði blað og sjónvarp. Hann mælti þannig gegn þessum krossáhrifum sem mér finnst að mjög margir flokksmenn hans séu ósáttir við og þar gætu verið íþyngjandi eða skerðandi ákvæði gagnvart þeim.

Síðan þegar kom að því í ræðu hæstv. utanrrh. að þetta beindist ekki að einu fyrirtæki fannst mér fyrst hæstv. utanrrh. lenda í vandræðum með að útskýra mál sitt. Komið hafa fram hjá m.a. krónprinsi Framsfl., hæstv. félmrh., sem veifaði Dagblaðinu eða öðrum blöðum vangaveltur um að einhverjir ákveðnir miðlar væru í herferð gegn tilteknum ráðherrum. Hann nefndi forsrh. og annað slíkt. Við vitum hvernig hæstv. fjmrh. talaði um þetta, það var talað um sjúklegar árásir að mig minnir. Kemur svo ekki hæstv. utanrrh. og reynir að telja okkur trú um að þetta beinist ekki gegn einu fyrirtæki. Virðulegur forseti. Auðvitað beinist frv. fyrst og fremst að einu fyrirtæki, þ.e. Norðurljósum. Það er svo augljóst atriði.

Hæstv. utanrrh. hélt áfram og sagði að fjölmiðlar, og átti þá við fjölmiðla Norðurljósa, gengju út á það að hræða fólk, hræða starfsmenn Norðurljósa. Ja, þvílíkt og annað eins álit sem þarna kemur fram. Vitanlega er fólk hrætt um vinnu sína, eins og hér hefur komið fram, bæði í tölvupóstum til þingmanna og annarra frá starfsmönnum þessa fyrirtækis. Ég skil það mjög vel. Ég hef oft komið upp í ræðustól Alþingis og haft áhyggjur af vinnu fjölmargra aðila vítt og breitt um landsbyggðina. Það hefur ekkert verið á það hlustað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hér er fólk mjög hrætt um vinnu sína á höfuðborgarsvæðinu. Ég kann ekki að segja hvað starfsmenn Norðurljósa eru margir en þessar áhyggjur fólks gagnvart því hvernig frv. beinist að þessu eina fyrirtæki komu fram og aðgerðirnar munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir það fyrirtæki mjög fljótt, jafnvel þó að þessu ákvæði hafi verið seinkað til 1. júní 2006. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ályktað um þetta mál eins og kom m.a. fram í samþykkt borgarstjórnar frá 18. þessa mánaðar. Þar voru samþykktir gerðar vegna þess að borgarstjórn Reykjavíkur hefur áhyggjur af þessum atvinnumálum, ef svo má segja, rekstrargrunni þessa fyrirtækis, starfsöryggi þessara starfsmanna sem flestir búa vafalaust í Reykjavík. Ég vil, með leyfi forseta, lesa þessa ályktun:

,,Borgarstjórn Reykjavíkur lýsir þungum áhyggjum sínum vegna þessa frumvarps um fjölmiðla sem liggur fyrir Alþingi. Fram hafa komið rökstuddar ábendingar um að samþykkt frumvarpsins í óbreyttri mynd geti leitt til atvinnumissis hundruða borgarbúa og skertrar afkomu enn fleiri. Borgarstjórn skorar því á Alþingi og sérstaklega þingmenn Reykvíkinga að koma í veg fyrir samþykkt frumvarpsins.``

Mér finnst þetta mjög eðlilegt af borgarstjórn Reykjavíkur og fagna því að hún skuli álykta eins og hér er gert og hafa áhyggjur af atvinnumálum í Reykjavík alveg eins og fjölmargar sveitarstjórnir vítt og breitt um landið hafa verið að gera, þ.e. ályktanir þótt það sé ekki út af rekstri fjölmiðlafyrirtækis. Aðrar sveitarstjórnir hafa ályktað út af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og ýmissa fyrirtækja sem eiga mjög í vök að verjast, sem eru að draga saman, jafnvel að hætta, og fjölmargir landsbyggðarbúar eru að missa atvinnu sína. Nú kom að því að borgarstjórn Reykjavíkur þurfti að álykta. Hverjir sitja svo í borgarstjórn Reykjavíkur, þeirri sem samþykkti þetta? Eru þar ekki tveir framsóknarmenn? Oddviti framsóknarmanna í Reykjavík, Alfreð Þorsteinsson, kom fram í fjölmiðla með ástæður fyrir því að þetta var samþykkt og rökstuddi það mjög vel. Mér fannst það mjög merkilegt. En er Framsfl. að láta teyma sig áfram í þessu máli af Sjálfstfl., beint út í þetta fen sem verið er að teyma þá út í og fara þetta algjörlega, að manni virðist, með opin augun. Það er alveg með ólíkindum hvernig það er.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að lesa meira úr þessari samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur en hún er hér og getur vel verið að hún hafi verið lesin upp öll. Ég vona það a.m.k. vegna þess að hún á erindi inn í þingtíðindi.

Áður en ég hverf frá þessari dæmalausu ræðu Halldórs Ásgrímssonar sem stóð í raun og veru allt of stutt --- svo var hann ekki tilbúinn að rökstyðja mikið málin --- vil ég geta þess að hann talaði um að Norðurljós gætu leitað réttar síns. Er þar ekki komin staðfesting á því að þetta beinist nær eingöngu að einu fyrirtæki? Hann fjallaði um að þeir hefðu góðan tíma til að gera það vegna þess að lögin sem verið er að keyra í gegn núna og liggur svo voðalega mikið á að klára eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. júní 2006. Hann sagði að líka gætu Norðurljós leitað réttar síns gagnvart EES-samningnum.

Hæstv. utanrrh. sagðist vera öruggari gagnvart stjórnarskránni. Hér talar hann um að Norðurljós geti leitað réttar síns, að þeir hafi góðan tíma og geti líka leitað réttar síns gagnvart EES. Það á sem sagt að kýla fyrst og klappa svo á eftir eða gefa mönnum tækifæri til að leita réttar síns. Væri ekki betra, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn gæfi sér betri tíma í þetta mál, léti skoða það, færi vel yfir það og gæti þá komið örugg til leiks með það frv. sem þá kæmi fram? Svo átti fjölmiðlanefndin að starfa áfram, mikil ósköp, m.a. um Ríkisútvarp, efla það, og hann sagði að þessu væri ekki endanlega lokið með þessu frv. Rétt til að rétta þeim eitthvað kom svo nefnd sem á að klára 1. september um hringamyndun í íslensku viðskiptalífi, fjalla um samþjöppun, minni samkeppni og allt það. Ég ætla ekki að eyða tíma í það nú, virðulegi forseti, en það er auðvitað hárrétt sem hér hefur verið sagt.

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram sem er auðvitað mjög alvarlegt mál að frv., sem er skraddarasaumað sérstaklega utan um eitt fyrirtæki og mun beinast mest að því, muni trufla ýmislegt í endurfjármögnun þess sem átt hefur sér stað. Auðvitað vita allir Íslendingar að Norðurljós hafa átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum sem hafa staðið lengi. Það hefur verið erfitt að fá inn hlutafé, erfitt að breyta lánum o.s.frv. Við sáum það á dramatískan hátt þegar Jón Ólafsson, að sagt var, kvaddi Ísland og fór í einkaþotu sinni frá Íslandi, nýbúinn að selja Norðurljósin. Aðilar hafa komið að Norðurljósum sem eiga mikla peninga og hafa lagt fé í hina fjárhagslegu endurskipulagningu fyrirtækisins. Það eru aðilar sem fara ekki hátt á vinsældalista nokkurra aðila innan hæstv. ríkisstjórnar. Þar voru líka fleiri. Mér er t.d. ákaflega minnisstætt þegar Kári Stefánsson, sá ágæti maður, forstjóri þess mikla og góða fyrirtækis, Íslenskrar erfðagreiningar, var sagður hafa lagt fram mikla peninga til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Ég man ekki hverjir voru fleiri en margir peningamenn, eins og við segjum, voru tilbúnir að setja eitthvað af peningum sínum inn í þetta fyrirtæki í fjárhagslega endurskipulagningu. Það er auðvitað mjög gott þegar svo er, að peningar komi inn sem hlutafé. Jafnframt var því lýst hvernig farið yrði í fjárhagslega endurskipulagningu og það hefur komið fram í nefndaráliti efh.- og viðskn., meiri hluta hennar þar sem þingmenn stjórnarandstöðu plús hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson mynda meiri hluta í efh.- og viðskn. í þessu máli, og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi er í minni hluta í efh.- og viðskn. Það mun auðvitað rugla og gera erfiðara það vinnuplan sem þetta fyrirtæki hefur verið í í fjárhagslegri endurskipulagningu við að tryggja rekstrargrundvöll sinn, tryggja starfsmönnum sínum áframhaldandi vinnu, eflast og halda áfram.

[12:45]

Frumvarpið er auðvitað inngrip í þetta mál. Eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á strax við fyrsta flutning þess komu menn fram með frv. sem var geggjað þá, og bent var á ótal atriði sem stjórnarmeirihlutinn hefur svo verið rekinn til að breyta. Það ruglar alla þá áætlun sem þetta fyrirtæki hefur verið að gera gagnvart lánastofnunum sínum. Ég ætla ekki að fjalla um hvernig fyrirtækið var rekið áður, hvað það skuldaði mikið og hvað það var búið að kaupa af fyrirtækjum úti í bæ o.s.frv. eða fyrir hvaða verð. Ég hef engin tækifæri til að leggja mat á það vegna þess að ég hef þær tölur ekki. En fyrirtækið var mjög skuldsett og auðvitað blasti það við á tímabili að það færi hreinlega beint á höfuðið. Það skyldi þó ekki vera svo, virðulegur forseti, að einhverjir hafi reiðst og orðið óánægðir við að það tókst að fá aðila inn í fyrirtækið og það fór ekki á hausinn. Spyr sá sem ekki veit, en auðvitað kemur það upp í huga manns.

Auðvitað mun frv. gera það að verkum að engum manni dettur í hug eða þorir að leggja peninga í þetta fyrirtæki þótt mönnum fyndist það fýsilegur fjárfestingarkostur á komandi dögum, vikum eða mánuðum með þetta frv. yfir sér sem getur breytt því öllu. Það hefur komið fram í efh.- og viðskn. að þetta mundi torvelda fyrirtækinu áform sín um að skrá fyrirtækið í Kauphöll. Ætli margir einstaklingar vilji leggja fé, hætta fjármunum sínum inn í þetta fyrirtæki með þetta yfir sér?

Virðulegi forseti. Ég man ekki nákvæmlega hvað þarf marga hluthafa til að fá skráningu í Kauphöll en það eru 100--300 ef ég man rétt. Þetta mun auðvitað breyta því dæmi og gera þessi áform erfiðari. Jafnframt koma upp í huga minn fjárhagslegir erfiðleikar Dagblaðsins sem leiddu til þess, ef ég man rétt, að það fyrirtæki fór á höfuðið. Landsbankinn sem stærsti eigandi kröfu í það fyrirtæki leysti það til sín og seldi það Fréttablaðinu eða Frétt ehf. eða hvað það heitir. Þá sá maður líka í fjölmiðlum, í blöðum, að annað fyrirtæki var að reyna að kaupa Dagblaðið, þ.e. Árvakur, Morgunblaðið. Nú veit ég ekkert hvað Morgunblaðið eða Árvakur hafa ætlað að gera með það að kaupa Dagblaðið, kannski að fara að gefa út blað í hádeginu, Mogginn kemur á morgnana og Dagblaðið í hádeginu, ég veit ekkert um það. Í raun og veru varðar mig heldur ekkert um það. Ef Árvakur hefði talið fýsilegan kost að kaupa þrotabú Dagblaðsins, endurreisa það og fara að gefa út hefði það verið hið besta mál. Gott ef þeir hefðu talið vera einhvern bisness í því og til góðs fyrir umræðuna í þjóðfélaginu um landsmál, opna og fjölbreytta fjölmiðlun. En það var ekki svo. Árvakur fékk ekki að kaupa Dagblaðið vegna þess að vafalaust hefur Landsbankinn fengið betra boð frá þeim sem keypti. Landsbankinn hefur væntanlega hugsað um það eitt að minnka og lágmarka sem mest sitt tap sem yrði þá fært á afskriftareikning við síðustu áramót. Við sáum svo hvernig það fór.

Þetta leiðir hugann að því, virðulegi forseti, að þau áform hæstv. ríkisstjórnar að selja Landssíma Íslands sem hefur verið lengi á dagskrá klúðraðist heldur betur á sínum tíma. Ríkisstjórnin varð að hætta við það, og ég segi sem betur fer vegna þess að tímapunkturinn sem átti að selja Landssímann var orðinn hálfgerður brunaútsölutími á hlutabréfamarkaði. Það var eftir að verðbréf féllu mjög og sérstaklega í símafyrirtækjum. Sú sala stoppaði því. Sá sem hér stendur er sammála því að selja eigi samkeppnishluta Landssímans en auðvitað á ekki að gera það fyrr en virkilega gott verð fæst fyrir.

Það hefur komið upp í huga minn, og það hefur hv. þm. Einar Karl Haraldsson gert að umræðuefni í ræðustól Alþingis, hvort þetta inngrip í ferlið, þessi sértæka aðgerð til að koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, geti leitt til þess að lækka verð eða jafnvel verðfella, ég vil kannski ekki segja að verðfella, lækka mjög söluverð Landssímans þegar menn geta selt hann. Getur verið að skilaboðin út í þjóðfélagið, út í heiminn, til þeirra sem eru að hugsa um og geta hugsað sér að kaupa Landssíma Íslands séu þau að ríkisstjórn Íslands sé ekki treystandi fyrir rekstrarumhverfi Símans, eitthvað geti gerst ef einhver tiltekinn aðili sem á kannski eitthvert símafyrirtæki fyrir eða eignarhald í öðru símafyrirtæki verði allt í einu kominn með allt of markaðsráðandi stöðu á markaðnum og eigi þá á hættu að fram komi skyndilega eitthvert frv. sem breyti þessum forsendum? Hver er þá hættan á því að við Íslendingar töpum mörgum milljörðum króna á væntanlegri sölu Landssímans, ef hún gengur eftir, við þetta frv. og þau skilaboð sem eru send út til viðskiptalífsins? Ég óttast að þeir séu töluvert margir, því miður. Ég óttast það.

Virðulegi forseti. Vandræðagangur hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli, málatilbúnaður, flaustursleg vinnubrögð, flýtirinn sem átti að vera að því er svo alveg sérkapítuli eða atriði sem vert er að gera að umtalsefni í lok ræðu minnar.

Þessi fjölmiðlanefnd sem átti að skila af sér á einhverjum tilteknum degi skilaði seint og um síðir þessari skýrslu. Mér skilst svo á formanni nefndarinnar að hún hafi ekki haft tíma til að skoða EES-rétt o.fl. vegna þess að það lá svo mikið á að leggja frv. fram þrátt fyrir að dagsetningar breyttust. Síðan gerðist það víst að ríkisstjórnin fékk skýrsluna og hélt henni leyndri, bara fyrir sig, í einhverja daga eða vikur. Loksins kom hún fram og var rædd á hinu háa Alþingi en ég get ekki fjallað um það vegna þess að ég var utan þings þegar þetta var, var með varamann inni fyrir mig. Þessi vinnubrögð voru flaustursleg. Eftir að hún varð til gerðist það einhvern veginn að einn þáttur var tekinn út úr og í kringum hann búið til frv. í einum grænum. Það er frv. með þeim breytingum sem síðan hafa komið eftir það sem við erum að ræða nú og hafa staðið svo miklar deilur um, þetta sértæka frv. með öllum þeim óvissuþáttum sem ég hef m.a. gert að umræðuefni og vitnað til orða hæstv. utanrrh., formanns Framsfl. Þetta kemur mér svo fyrir sjónir, virðulegi forseti, sem Sjálfstfl. hafi lagt á það ofuráherslu að þessi lög yrði að samþykkja og hreint og beint troða ofan í kokið á Framsfl. Við höfum auðvitað séð það, virðulegi forseti, að í þessu stjórnarsamstarfi er kok Framsfl. mjög stórt og mikið. (Gripið fram í: Og vítt.) Og vítt. Þeir hafa þurft að gleypa mikið í þessu stjórnarsamstarfi og ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að telja upp öll þau dæmi. Það væri sennilega fljótlegra til að stytta ræðu mína (Gripið fram í: Þetta er málþóf.) að ræða um að við gætum fengið einhver mál sem hefur ekki verið ýtt svo í gegnum Framsfl. Hver er sú staða mála til að keyra þetta í gegn núna, koma með þetta svona seint fram þegar starfsáætlun Alþingis var eiginlega að ljúka, miðað við 7. maí þegar þing átti að hætta? (Gripið fram í: Er ekki þingmaðurinn kominn í sumarfrí?) Nei, nei, nei, hv. þm. sem hér stendur er tilbúinn til að vera í allt sumar og hefur lýst því yfir við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að mér fyndist eðlilegt að þingið ræddi þetta mál fram til 15. september nk.

En ég var að ræða um það að þessi mikli flýtir, þessi hamagangur við að koma þessu fram, umræða um það hvað Framsókn er efins í þessu máli, kemur mér svona fyrir sjónir: Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. setjast niður. Hæstv. utanrrh., væntanlegum forsrh. landsins, er sýnt þetta frv. og það er lögð áhersla á að keyra það í gegn sem allra fyrst. Mér er það ákaflega minnisstætt, virðulegi forseti, vegna þess að ég var þá kominn aftur til þings og lenti inni á fundi formanna þingflokka með forseta Alþingis þar sem allt var til, það var hægt að semja um alla þætti gagnvart þessu máli í byrjun, bara ef stjórnarandstaðan legði eitt fram, þ.e. hvenær gæti umræðan hætt. Ég sagði það á hinum fræga útbýtingarfundi þegar málið var tekið út úr allshn. og komið hingað til 2. umr. að það skyldi þó ekki hafa átt að vera þannig að keyra ætti málið í gegn, stjórnarliðar hefðu verið þau börn að átta sig ekki á því að ekki yrði tekið á þessu máli, haldið að það væri hægt að keyra það í gegn og handhafar forsetavaldsins áttu að skrifa undir lögin að nóttu til í skjóli myrkurs á meðan hæstv. forseti landsins var erlendis í brúðkaupi. Það skyldi þó ekki vera?

Hver er staða Framsfl. vegna tilskipana sjálfstæðismanna? Hún er þessi: Frv. er sýnt, brtt. eru sýndar, staða Framsfl. er aumkunarverð. Hæstv. utanrrh. sem á að taka við forsætisráðherrastólnum 15. september, ef það þá gengur eftir, er sýnt þetta, hann kemur inn í sinn 12 manna þingflokk og sýnir þar sex ráðherrum frv. Þessir sex ráðherrar vita að formaður Framsfl. þarf að slá einn ráðherra af á næstunni, fyrir 15. september, af því að flokkurinn missir eitt ráðuneytið. Þarna sitja sex þægir ráðherrar, taka við öllum tilskipunum og segja ekki múkk, segja ekki orð, vegna þess að það kann þá að styggja formanninn. Viðkomandi ráðherra gæti þá orðið einn af þeim sem dettur út þegar þarf að fækka í ráðherraliði Framsfl. Þetta er alveg helmingur þingflokks framsóknarmanna.

Svo koma þrír hv. þm. í viðbót sem minnast þess þegar Halldór Ásgrímsson sagði að það gæti komið til frekari uppstokkunar, ekki bara að einn detti út heldur gæti komið til frekari uppstokkunar. Að mínu mati eru þar þrír hv. þm. sem bíða eins og barn sem á afmæli á næstunni spennt að sjá hvað það fær í afmælisgjöf. Hvað verður pakkinn stór? Verður það harður pakki eða mjúkur pakki? Þessir hv. þrír þingmenn sem bíða eftir því að formaður Framsfl. fari algerlega uppstokkunarleiðina bíða, eru á biðilsbuxunum --- ég segi nú ekki að þeir nagi neglurnar, heldur bíða spenntir eftir að sjá hvað skeður við uppstokkunina. Er ég kandídat í ráðherrastól við frekari uppstokkun eða ekki?

(Forseti (JóhS): Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hann treysti sér til að ljúka máli sínu á 1--2 mínútum eða hvort hann vilji fresta ræðu sinni þar til eftir matarhlé.)

Nei. Ég er kominn að lokum ræðunnar og á 2--3 mínútur eftir.

Þessir hv. þrír þingmenn eru líka mjög þægir við allar þessar tilskipanir úr forsrn. Þá eru komnir níu. Síðan hefur það komið fram, virðulegi forseti, að það er einn --- ég ætla ekki að segja svartur svanur í hópnum --- þingmaður óþekkur, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem hefur sérstöðu í þessu máli og lætur ekki troða ofan í kokið á sér svona frv. eins og hér, heldur hefur styrk til að standa gegn þeim, segja meiningu sína og fara eftir skoðun sinni. Það er auðvitað virðingarvert. Hinir tveir ungu þingmenn Framsfl. bætast svo inn í þennan hóp og þá eru upp taldir þessir 12 þingmenn sem sitja í þingflokki Framsfl. sem bíða eftir deginum mikla, bíða eftir stólaskiptunum 15. september. Á ég möguleika á að fá stól? Er einhver hætta á því að ég detti úr einum stólnum o.s.frv.?

Svo blandast inn í þetta, og það verða lokaorð mín, á dramatískan hátt fyrirhugað frv. ríkisstjórnarinnar um skattalækkun í landinu sem lofað var fyrir kosningar og hefur verið svikið fram að þessu vegna þess að ekkert hafa komið annað en skattahækkanir. Við sáum ekki alls fyrir löngu viðtal við hæstv. fjmrh. Geir Haarde niðri í Kringlu þar sem hann var spurður út í skattalækkunarfrumvarpið. Hann taldi jafnvel líkur á því að það færi að koma fram, skattalækkunarfrumvarpið. Tveimur dögum seinna kemur fram í viðtali við formann Framsfl., væntanlegan forsrh. í ríkisstjórn Íslands, að hann telji minni líkur á, a.m.k. ekki miklar líkur, að skattalækkunarfrumvarpið komi fram á þessu þingi. Í millitíðinni er sest niður út af fjölmiðlafrumvarpinu. Það skyldi þó ekki vera, virðulegi forseti, að Framsfl. hafi þurft að sætta sig við að áfram verði þessu frv. troðið ofan í kokið á þeim og troðið í gegnum þingið með stuðningi Framsfl. gegn því að skattalækkunarfrumvarpið komi ekki fram fyrr en í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar. Umræðan þagnaði a.m.k. mjög um skattalækkunarfrumvarpið eftir þetta. Svo dúkkaði hún samt aftur upp. Það var þegar Morgunblaðið setti á forsíðu frétt um för hæstv. forsrh. á Bessastaði og í lokin á henni kom umræða um skattalækkunarfrumvarpið. Og nú er það komið fram, virðulegi forseti, að sennilega verður skattalækkunarfrumvarpið kynnt á Alþingi en ekki samþykkt vegna þess að, eins og þar stendur, það er ríkisstjórnar Halldórs Ásgrímssonar að koma með það frv. og það verður samþykkt í þeirri tíð.

Þetta er smálýsing, virðulegi forseti, á því máli eins og það blasir við mér, þessi hrossakaup milli Sjálfstfl. og Framsfl. Lokaorð mín skulu vera þessi: Mikið óskaplega er það aumt fyrir þá hv. þm. Framsfl. sem sitja þar í þingflokknum og ráðherra á ráðherrabekk Framsóknar að sitja í þessari stöðu og láta troða þessu öllu ofan í sig, bara vegna þess að formaður þeirra er að bíða eftir forsætisráðherrastólnum sem hann á að fá 15. september ef ekkert kusk kemur á hvítflibba framsóknarmanna fram að þeim tíma.