Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:04:25 (8747)

2004-05-21 14:04:25# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að árétta þetta ákall hv. 7. þm. Suðurk. Hvar er hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem á að bera ábyrgð á innlendri dagskrárgerð sem nú liggur niðri vegna fjárskorts að verulegu leyti? Hvar er hæstv. viðsk.- og iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir þegar vegið er að einni af mikilvægustu atvinnugreinum samtímans og framtíðarinnar, fjölmiðluninni sjálfri?

Auðvitað er það rétt hjá hv. 7. þm. Suðurk. að hér er verið að vega að sjálfum grundvelli þessara fyrirtækja, frjálsu fjölmiðlanna, með því að gera 2/3 hlutum stærstu fyrirtækja landsins ómögulegt að fjárfesta í þeim. Auðvitað er það vegna þess að hæstv. ríkisstjórnin ætlar að afhenda valdið á fjölmiðlamarkaði í hinni frjálsu fjölmiðlun vildarvinum sínum, sægreifunum, þannig að hægt sé að hafa hæfileg áhrif á ritstjórnarstefnuna eins og þeim er svo tamt að tala um í ræðustólnum á Alþingi að menn hafi. Ítrekað talar hæstv. ríkisstjórn um að þessi lög þurfi að setja vegna þess að fjölmiðlarnir hafi svo vondar skoðanir. Þeir hljóta þá að ætla að laga þær. Ég hygg þó að þeim verði ekki kápan úr því klæðinu, kannski ekki síst vegna þess að sem betur fer eru íslenskir blaða- og fjölmiðlamenn sterkari og öflugri og faglegri en svo að þá sé hægt að kúska til að skrifa í þágu einhverra sægreifa.