Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:58:45 (8768)

2004-05-21 17:58:45# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Við erum komin að 3. umr. um hið makalausa fjölmiðlafrv. ríkisstjórnarinnar. Á þessum degi hafa vissulega farið fram mjög gagnlegar umræður um málið og málefnalegar og sannast í hverri ræðunni á fætur annarri að ræðurnar eru málefnalegar. Verið er að ræða um viðfangsefnið, þetta makalausa fjölmiðlafrv. ríkisstjórnarinnar, en ekki um eitthvað allt annað eins og stjórnarliðar hafa verið að halda fram enda vilja þeir helst enga umræðu um frv. eins og við höfum orðið vitni að. Bara á þessum degi hafa þeir sem á annað borð þorðu að setja sig á mælendaskrá guggnað og hlaupið út af mælendaskránni þegar var að koma að þeim í umræðunni. Ég sé ekki að neinn hv. stjórnarliði hafi sett sig á mælendaskrá í dag nema mér til undrunar sá ég að hv. þm. Gunnar Birgisson var kominn á mælendaskrá. Sjálfsagt er það vegna þess að þingmaðurinn er orðinn vonlaus um að hafa fram það frv. sem hann hefur kallað eftir, sem eru skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.

[18:00]

Ég held að það sé ekki ofsagt, virðulegi forseti, að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða hafa einkennst af ofbeldi og vanvirðingu við lýðræðið. Víst er að svona vinnubrögð væru hvergi liðin í öðru lýðræðisríki. Það er alltaf að sannast betur eftir því sem þessum umræðum vindur fram og stjórnarliðar breyta frv. meira að hér er á ferðinni atlaga að einu fyrirtæki. Hér er grímulaus tilraun til að knésetja fyrirtæki og stefna m.a. í hættu atvinnuöryggi fjölda fólks. Ástæðan virðist sú að fyrirtækið virðist ekki þóknast einum manni. Hann hefur sannarlega sýnt hvernig hægt er að misbeita valdi, virðulegi forseti, enda er hér ekkert annað á ferðinni en valdníðsla. Það er átakanlegt að sjá hvernig hæstv. forsrh. er með eitt tiltekið fyrirtæki á heilanum, beitir afli sínu og valdi til að knésetja það og leggur það bókstaflega í einelti.

Hæstv. forsrh. hefur, virðulegi forseti, orðið sér til rækilegrar skammar í þessu máli. Hann hefur lagst svo lágt að ráðast á forseta lýðveldisins, ekki aðeins embættinu sjálfu heldur forsetanum persónulega. Hann hefur brigslað honum um að ætla að ganga annarlegra erinda og ásakar hann um vanhæfi, sem rækilega hefur verið hrakið af lögspekingum eins og Sigurði Líndal prófessor og Gunnari Helga Kristinssyni prófessor. Hæstv. forsh. gekk svo fram af ýmsum framsóknarmönnum, sem hingað til hafa beygt sig í duftið fyrir ráðherra þegar hann gefur út tilskipanir sínar, að haft eftir einum þingmanni Framsfl. í dagblaði að ummæli forsrh. um forsetann væru ósmekkleg, ómálefnaleg og á lágu plani. Annar þingmaður Framsfl. sagði að forsrh. hefði í þessu makalausa sjónvarpsviðtali í raun viðurkennt að lagasetning um eignarhald á fjölmiðlum snerti bara Norðurljós og taldi hæstv. forsrh. hafa farið yfir öll mörk í ummælum sínum um forsetann og fjölskyldu hans.

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt að forsætisráðherra þjóðarinnar skuli ber að slíku. Það er alvarlegt, virðulegi forseti, og umhugsunarvert að landinu virðist orðið stjórnað með tilskipunum tveggja stjórnmálaforingja. Þeir tveir hafa frá upphafi ráðslagað um frv. þetta og meðferð þess. Þeir hafa knúið breytingar í gegnum þingflokka sína, augljóslega á móti vilja margra stjórnarliða.

Virðulegi forseti. Stjórnarherrarnir hlusta ekki á aðra. Þessir tveir herramenn virðast ráða og valdhrokinn ræður. Valdníðslan er orðin svo mikil að þeir telja sig ekki þurfa að hlusta á gagnrýni eða athugasemdir annarra, hvorki í þinghúsinu eða utan þess. Á útifundi á Austurvelli í vikunni var einmitt samþykkt mjög athyglisverð ályktun. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í gömlu ættjarðarkvæði er talað um ,,þúsund radda brag``. Í virku lýðræði þurfa þúsundir radda að heyrast og leiðtogarnir verða að hlusta. Við krefjumst þess að stjórnvöld vakni af dásvefni valdhrokans og fari að hlusta á raddir þegna sinna. Við krefjumst þess að raunverulegar umræður fari fram áður en ákvarðanir eru teknar. Við krefjumst gagnsæis og höfnum leynimakki. Við krefjumst þess að lýðræðið virki!``

Á þessi skilaboð ættu valdhafarnir að hlusta en geta ekki. Það er eitt sem þeir ekki kunna, að hlusta.

Það hefur verið athyglisvert að upplifa síðustu daga, virðulegi forseti. Við fáum á hverjum degi að heyra ályktanir frá framsóknarmönnum um allt land, í ýmsum framsóknarfélögum, sem mótmæla þeirri atlögu að lýðræðinu sem þeirra stjórnmálaflokkur, Framsfl., stendur fyrir. Við höfum jafnframt fengið inn í þingsali ályktanir meiri hluta borgarstjórnar sem lýsir þungum áhyggjum sínum. Komið hefur fram í fjölmiðlum að oddviti framsóknarmanna í Reykjavíkurlistanum, Alfreð Þorsteinsson, segist hafa fundið fyrir mikilli óánægju meðal framsóknarmanna með fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Í Morgunblaðinu segir, með leyfi forseta:

,,Sjálfur telur hann að frumvarpið geti stefnt atvinnuöryggi fjölda fólks sem vinnur að fjölmiðlun í Reykjavík í töluverða hættu og lýsti þeirri skoðun sinni á aukafundi borgarstjórnar í gærkvöld.``

Síðar í sömu frétt Morgunblaðsins kemur fram, með leyfi forseta:

,,Ég hef, bæði í samtölum við flokksmenn í Reykjavík og víðar, fundið fyrir mikilli óánægju með þetta frumvarp,`` sagði Alfreð í samtali við Morgunblaðið. ,,Ég bendi líka á að það hafa þónokkur framsóknarfélög, bæði í nágrenni Reykjavíkur og úti á landi, ályktað gegn því, ásamt Sambandi ungra framsóknarmanna og ungum framsóknarmönnum í Reykjavík.``

Það er ljóst, herra forseti, að framsóknarmenn um allt land hafa lýst óánægju sinni. Sá eini sem stendur í lappirnar í þingflokknum virðist hins vegar vera hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Það er sorglegt til þess að vitað hvernig límið í ráðherrastólunum virkar. Hæstv. utanrrh. virðist hafa tögl og hagldir á öllu sínu liði nema hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem fylgir samvisku sinni. En þetta lætur hæstv. utanrrh. sig hafa vegna forsætisráðherrastóls sem hann á von á í haust.

Það er reyndar spurning með meiri hlutann. Eftir því sem dagarnir líða verða fleiri þingmenn í stjórnarliðinu órólegir. Hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur t.d. aftur og aftur verið á mælendaskrá en alltaf guggnað og hlaupið af mælendaskránni. Það er alveg ljóst að þetta frv. og ákvæði þess ganga gegn samvisku hennar. Hún þorir hins vegar ekki að koma í ræðustól, hæstv. forseti, og lýsa því. Ég er sannfærð um að það er rétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði í viðtali, enda þekkir hann vel til innan flokksins og innan búðar í þingflokknum, um að hann væri sannfærður um að þetta frv. mundi falla ef þingmenn í Framsfl. greiddu atkvæði í samræmi við samvisku sína.

Maður verður að vona, virðulegi forseti, að þetta frv. komist aldrei til framkvæmda. Vonandi verður komin til valda, þegar þetta lagafrv. ætti að koma til framkvæmda, ríkisstjórn sem virðir lýðræðið og leitar samráðs við alla aðila málsins þannig að sátt geti tekist um starfsumhverfið sem fjölmiðlum landsins er búið og tök verði á að breyta þessu frv. og fella niður ákvæði þess sem ganga gegn tjáningarfrelsinu, gegn lýðræði, atvinnufrelsi, jafnræðisreglum og stjórnarskránni.

Það er athyglisvert að meira að segja annar oddviti stjórnarflokkanna sem stendur að þessu máli er ekki öruggur um að frv. standist að ákvæði stjórnarskrárinnar. Það væri fróðlegt, herra forseti, að fara yfir feril frv. í því samhengi. Það kom ekki fram fyrr en við síðustu brtt. sem stjórnarflokkarnir gera á þessu frv., sem hafa a.m.k. verið gerðar í þremur lotum. Það er ekki fyrr en í síðustu lotu að það kemur fram hjá hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni að eftir þriðju breytinguna á frv. telji hann sig öruggari um að ákvæði frv. standist stjórnarskrána. Hæstv. ráðherra er hins vegar sannarlega ekki alveg sannfærður um það. Stjórnarskráin, virðulegi forseti, á að njóta vafans ef vafi leikur á. Það er sannarlega meira en vafi í hugum okkar stjórnarandstæðinga og í huga hæstv. utanrrh. er jafnframt vafi um að málið standist eins og fram hefur komið.

Það er athyglisvert að skoða hvernig frv. hefur breyst í meðförum stjórnarliða. Frv. kemur fyrst frá ríkisstjórninni 25. apríl. Þá mátti fyrirtæki í öðrum rekstri ekki fá útvarpsleyfi. Markaðsráðandi fyrirtæki mátti ekki eiga í ljósvakamiðli og enginn mátti eiga meira en 25% í ljósvakamiðli. Engin eignartengsl máttu vera milli ljósvakamiðla og prentmiðla og lögin áttu að öðlast gildi þá þegar. Útvarpsleyfi átti að afturkalla jafnóðum og þau rynnu út og í síðasta lagi innan tveggja ára frá gildistöku laganna. Þetta sýnir, virðulegi forseti, hve langt þessir herramenn voru tilbúnir að ganga, allt til að þóknast þeim vilja forsrh. að knésetja tiltekið fyrirtæki.

Vissulega hefur frv. lagast aðeins í meðförum þingsins. Það er alveg ljóst að enn þá, þrátt fyrir þær breytingar sem hafa verið gerðar og að frv. hafi tvívegis verið breytt þá standast þær ekki stjórnarskrá. Frv. gengur enn þá gegn atvinnufrelsi, eignarréttarákvæðum, tjáningarfrelsi og alþjóðlegum skuldbindingum þrátt fyrir að þessar breytingar hafi verið gerðar. Þar vísa ég til ummæla eins hæstaréttarlögmanns og Sigurðar Líndals prófessors. Í fréttum á Stöð 2 18. maí síðastliðinn kom m.a. fram, að miklar efasemdir væru meðal lögfræðinga um að fjölmiðlafrumvarpið, í nýjustu útgáfu, stæðist tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Sigurður Líndal lagaprófessor var sagður efast um að lögin stæðust jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í ljósi yfirlýsinga sem hafa fallið um Baug. Orðrétt sagði Sigurður Líndal prófessor í þessari frétt, með leyfi forseta:

,,Það er þetta með markaðsráðandi fyrirtæki, að það megi ekki eiga nema 5% í fyrirtæki, og eins með dagblöð, að eigandi dagblaðs megi ekki eiga ljósvakamiðil. Það sem ég finn að þessu er þetta: Ef fjölmiðlafyrirtæki eru settar mjög þröngar skorður um að afla fjár til rekstrar þá sýnist mér að það kynni að bitna á tjáningarfrelsi.``

Jakob Möller hæstaréttarlögmaður talar um að sú breyting sem hafi verið gerð sé þýðingarlítil fegrunaraðgerð. Hann telur að það að segja að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu megi ekki eiga nema 5%, fyrirtæki sem gefur út dagblað megi ekki eiga sjónvarp, fyrirtæki sem hefur að meginmarkmiði annan atvinnurekstur en útvarps- og sjónvarpsrekstur megi ekki eiga o.s.frv., sé brot á 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Hann telur jafnframt að með frv. sé tekin áhætta gagnvart fleiri ákvæðum.

Það er ljóst að virðulegir lögspekingar segja að þrátt fyrir þær breytingar sem hafa verið gerðar séu miklar efasemdir um að frv. standist ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og það lítur út núna við 3. umr. Víst er, virðulegur forseti, að ákvæði frv. ganga enn þá gegn ákvæðum samkeppnislega. Það er alveg ljóst þegar maður les ákvæði Samkeppnisstofnunar að samkeppnislögin eru þverbrotin.

Í umsögn Samkeppnisstofnunar er kafli um bann við að fyrirtæki tengdu útgefanda dagblaðs sé veitt útvarpsleyfi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í frv. er hins vegar algjörlega tekið fyrir það að fyrirtæki sem á eða eignast einhvern hlut í dagblaði geti átt hlut í fyrirtæki sem hefur útvarpsleyfi. Samkeppnisstofnun fær ekki séð að svo afdráttarlaus aðgreining eignarhalds á útgáfu dagblaðs annars vegar og fyrirtækis sem er með útvarpsleyfi hins vegar sé nauðsynleg til að tryggja markmið frv. Ná megi markmiðinu með vægari hömlum svo sem því að óheimilt sé að veita útvarpsfyrirtæki útvarpsleyfi sem lýtur virkum yfirráðum aðila sem hefur jafnframt virk yfirráð í útgefanda dagblaðs. Með óbreyttu orðalagi felast í ákvæði frv. aðgangshindranir að markaði sem að mati Samkeppnisstofnunar fara gegn markmiðum samkeppnislaga.``

[18:15]

Vitna mætti í fleiri atriði í ágætri umsögn Samkeppnisstofnunar sem sýna að ákvæði frv. ganga gegn samkeppnislögum. Hér segir t.d., með leyfi forseta:

,,Að mati Samkeppnisstofnunar er ljóst að það getur haft jákvæð áhrif á samkeppni á fjölmiðlamarkaði ef markaðsráðandi fyrirtæki í óskyldum rekstri t.d. tekur þátt í stofnun nýs keppinautar í útvarpsrekstri. Jafnframt getur fjárfesting markaðsráðandi fyrirtækja í útvarpsrekstri styrkt þau í samkeppni við önnur fyrirtæki á þeim markaði, ekki síst gagnvart Ríkisútvarpi sem í krafti m.a. lögbundinna tekjustofna hefur óhjákvæmilega mjög styrka stöðu. Verði ákvæði þetta að lögum mun það vinna gegn innkomu nýrra keppinauta inn á markaðinn og takmarka samkeppni. Fer það því gegn markmiði samkeppnislaga.``

Það er nauðsynlegt að halda þessu til haga, virðulegi forseti. Nú stendur yfir 3. umr. og við tökumst á um þriðju tilraun ríkisstjórnarinnar til að breyta þessu frv. En þau stangast enn verulega á við samkeppnislög. Í umsögn Samkeppnisstofnunar kemur líka fram hvernig ákvæði frv., þvert á það sem stjórnarliðar segja, ganga gegn því yfirlýsta markmiði ríkisstjórnarinnar að tryggja fjölbreytni. Þvert á móti hefur ítrekað verið farið yfir það við þessa umræðu að þetta frv. mun fyrst og fremst leiða til fábreytni á fjölmiðlamarkaði.

Nú er verið að gera breytingar á frv., þ.e. ákvæðið um að fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu megi ekki eiga meira en 5% í ljósvakamiðli ef það velti meira en 2 milljörðum kr. á ári. Virðulegi forseti, það er ekki einasta heimskulegt ákvæði heldur sér hver heilvita maður að svona ákvæði gengur gegn atvinnufrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. Hvað segir Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður um þetta ákvæði, virðulegi forseti? Hann telur að fyrirtæki sem gengur vel í rekstri og stendur í fjölmiðlarekstri verði refsað ef því gengur of vel samkvæmt fjölmiðlafrumvarpinu. Það þarf að selja hlut sinn í ljósvakamiðlunum fari ársveltan yfir 2 milljarða kr. án þess að ráða söluverðinu. Hæstaréttarlögmaðurinn segir þetta mjög óvanalegt. En sé ársvelta yfir 2 milljörðum kr. má fyrirtækið ekki eiga nema 5% í ljósvakamiðli.

Virðulegi forseti. Það er Sjálfstfl., sem kennir sig við frelsi í atvinnulífinu, sem stendur að slíku ákvæði. Fyrirtæki sem vex og dafnar gæti allt í einu þurft að losa sig við útvarps- eða sjónvarpsstöð af því að rekstur þess hafi gengið of vel, herra forseti. Það snýr allt á haus í frv., virðulegi forseti.

Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður telur að þetta ákvæði frv. gæti hæglega dregið úr áhuga margra fyrirtækja á að fjárfesta í fjölmiðlum auk þess sem það gæti haft lögfræðilegar flækjur í för með sér. Hann segir að fari veltan upp fyrir 2 milljarða kr. þá missi fyrirtækið hæfi til að eiga í ljósvakamiðlinum og verði annaðhvort að laga sig að skilyrðunum eða selja. Hann telur ekki líklegt að fyrirtækið lagi sig að skilyrðunum með því að minnka veltuna. Það gefur augaleið að þá þarf að selja og útvarpsréttarnefnd getur skikkað viðkomandi aðila að selja sinn hlut á einum mánuði. Takist það ekki er gert ráð fyrir því að viðskrh. fái til sín söluumboð og feli verðbréfafyrirtæki að selja hlutinn.

Virðulegi forseti. Þetta verður stöðugt meiri skrípaleikur eftir því sem menn kafa betur ofan í þetta makalausa frv. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Efh.- og viðskn. fór vel yfir málið eins og þingmenn þekkja. Hið sögulega gerðist í efh.- og viðskn., að það myndaðist meiri hluti í þessu máli sem skilaði meirihlutaáliti til allshn. Þann meiri hluta skipaði ásamt fulltrúum stjórnarandstöðunnar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Ég tel ekki ástæðu til að tefja tímann með því að fara ítarlega í þá umsögn. Kjarni hennar var að frv. mundi þrengja mjög að rekstrarskilyrðum starfandi fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði og atvinna fjölmargra starfsmanna í greininni væri sett í uppnám. Fram kom að skuldastaða Norðurljósa væri tæpir 6 milljarðar og þar af um 3 milljarðar af skuldinni án veða. Þar af eiga lífeyrissjóðirnir um 1 milljarð kr. Jafnframt er bent á að Samkeppnisstofnun hafi lýst þeirri skoðun við nefndina að þrátt fyrir brtt. stríddi frv. enn gegn markmiðum samkeppnislaga. Meiri hluti efh.- og viðskn. lagði því til að Alþingi frestaði afgreiðslu frv. og sumarið nýtt til að vinna málið betur í samráði við sérfræðinga og það lagt fyrir Alþingi að nýju í haust.

Maður skilur ekki, virðulegi forseti, hvers vegna ekki er hægt að ganga að því að láta þetta frv. bíða haustsins, menn setjist yfir það og reyni að ná einhverjum sáttum um hvernig menn vilja sjá starfsumhverfi fjölmiðlafyrirtækja.

Ég tel ekki ástæðu til að lesa upp umsögn Samtaka banka- og verðbréfafyrirtækja en vek athygli á því sem þeir segja, þ.e. að þær hindranir sem yrðu settar með ákvæðum þessa frv. á fjölmiðlafyrirtæki mundu útiloka möguleika fjölmiðlafyrirtækis á að fá aðstoð lánastofnana þannig að erfitt yrði fyrir slík fyrirtæki að feta sig út úr erfiðleikatímabilum. Hindranirnar eru svo miklar að ýmsar tálmanir eru jafnframt fyrir því að fjölmiðlafyrirtæki geti skráð sig í Kauphöllinni. Það kom fram hjá fulltrúa Verðbréfastofu, sem mætti á fund efh.- og viðskn., að ákvæði frv. muni útiloka stóran hóp fjárfesta frá fjárfestingu í fjölmiðlafyrirtækjum. Upp voru taldir stærstu aðilarnir á markaðnum sem ekki gætu fjárfest í fjölmiðlafyrirtækjum. Hvað mun það þýða, virðulegi forseti? Gæti það þýtt að með tímanum mundum við aðeins sitja uppi með sterka fjölmiðla á markaði, mögulega aðeins RÚV og Morgunblaðið? Ég spyr, virðulegi forseti, hvert við stefnum með slíku ákvæði.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, sem er alvarlegt umhugsunarefni og hefur komið fram eftir að þessar síðustu brtt. voru kunngerðar, það sem fram kom í frétt 18. maí í sjónvarpinu. Í þeirri frétt sagði að Baugur stefndi að því að draga úr umsvifum hér á landi því fyrirtækið teldi viðskiptaumhverfið fjandsamlegt en stefndi að því að efla fjölmiðlasamsteypuna Norðurljós í trausti þess að fjölmiðlafrumvarpið standist ekki fyrir dómstólunum. Þá var vitnað í stjórnarformann Norðurljósa sem sagði að fyrirtækið mundi eftir sem áður höfða mál yrði frv. að lögum þar sem það teldi það ganga gegn stjórnarskránni og alþjóðlegum samningum. Síðan sagði að Baugur hefði mótað þá stefnu að draga úr umsvifum sínum hér á landi og daginn áður selt stóran hlut í Flugleiðum. Síðan var í fréttinni orðrétt haft eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni, með leyfi forseta, að félagið hyggist auka áherslu sína erlendis ,,á kostnað innlendrar fjárfestingar.`` Skarphéðinn var spurður hvers vegna og hann sagði skoðun félagsins þá að vinveittara umhverfi væri í útlöndum fyrir þetta félag sem leiddi til þess að menn færðu umsvifin milli landa.

Það er sem sagt verið að stuðla að því, virðulegi forseti, að fyrirtækið leiti með fjárfestingar sínar til útlanda. Við getum velt fyrir okkur hvaða áhrif það hefur á efnahagsumhverfi okkar og starfsöryggi launafólks.

Það hefur vakið athygli, virðulegi forseti, í þessari umræðu að hæstv. fjmrh. hefur ekkert látið sjá sig. Ég spyr: Er hæstv. fjmrh. í húsinu?

(Forseti (JBjart): Hæstv. fjmrh. er ekki í húsinu.)

Nei, ekki fremur en venjulega. Stjórnarliðar láta helst ekki sjá sig í húsinu af ótta við að verða kallaðir upp af stjórnarandstæðingum sem vilja fá svör við ýmsum spurningum. Ég hefði t.d. viljað spyrja hæstv. fjmrh. út í skaðabótakröfur sem eru yfirvofandi. Norðurljós hafa gefið til kynna að skaðabótakröfur og tjón hluthafa, nái þessi ákvæði fram, geti orðið 2--3 milljarðar kr. Það kom fram hjá fulltrúa fjmrn. að jafnvel þótt nokkuð víst þyki að ríkið verði skaðabótaskylt vegna ákvæða frv. þá hafi ekkert verið skoðað í fjmrn. hvort reikningurinn af þessu glæfraspili ríkisstjórnarinnar verði sendur skattgreiðendum.

Virðulegi forseti. Ég mun fljótlega ljúka máli mínu en það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að atvinnulífið og fjármálamarkaðurinn einkennast af ört vaxandi fákeppni og samþjöppun valds og fjármagns sem leitt hefur til ýmiss konar bandalags og samráðs gegn neytendum. En hafa stjórnvöld haft áhyggjur af því og hvernig hefur verið brugðist við því gegnum árin? Hefur Samkeppnisstofnun verið efld? Nei, henni hefur verið haldið í spennitreyju fjársveltis með þeim afleiðingum að rannsóknir, t.d. á tryggingafélögunum, taka mörg ár. Samkeppnisyfirvöld treysta sér ekki til að sekta tryggingafélögin vegna þess langa tíma sem rannsóknin hefur tekið. Hæstv. viðskrh. svaraði mér því í vikunni að hún hefði enga skoðun á þessu máli og taldi sig hafa eflt Samkeppnisstofnun. Hvernig gerði hún það? Með því að fjárframlög til stofnunarinnar höfðu hækkað úr 118 millj. á árinu 2000 í 157 millj. á þessu ári, sem rétt dugar fyrir launa- og verðlagsbreytingum. Lítil breyting hefur orðið á starfsaðstöðu og starfsumhverfi Samkeppnisstofnunar þótt sífellt séu sett á stofnunina fleiri verkefni. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra kallaði á að Alþingi mundi enn frekar styrkja Samkeppnisstofnun en þessi sami ráðherra stóð að því við fjárlagaafgreiðsluna síðustu að fella tillögu um 30 millj. kr. aukið framlag til Samkeppnisstofnunar sem við, fulltrúar Samf. á Alþingi, fluttum. Það er allur vilji hæstv. viðskrh. og ég kannast ekki við að hún hafi séð ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu. Er það ekki rétt, virðulegi forseti?

Það er brýnt að stjórnvöld bregðist við óeðlilegri samþjöppun valds og fjármagns í þjóðfélaginu sem ógnar samkeppni og býr til fákeppni en það á að gera með því að efla eftirlitsstofnanir og auka gegnsæi á markaðnum, herða almennar leikreglur og efla af myndarskap eftirlitsstofnun eins og Samkeppnisstofnun. En það þarf að gera af yfirvegun og skynsemi og það verður best gert, virðulegi forseti, með lýðræðislegum vinnubrögðum en ekki valdstjórn.

Ég vil draga það fram í lokin, virðulegi forseti, að meðferð þessa frv. er lýsandi dæmi um hve brýnt er að koma á almennum rétti fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þjóðin geti sjálf brugðist við þegar valdhafar ganga gegn vilja þjóðarinnar eins og gerst hefur í þessu máli.

Ég vitna til nýlegrar skoðanakönnunar sem birtist í morgun þar sem fram kemur, virðulegi forseti, að sjö af hverjum tíu vilja þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu máli. Um 71% þjóðarinnar vill að forseti Íslands neiti að skrifa undir fjölmiðlalögin. Það er mikilvægt að sjö af hverjum tíu vilja þjóðaratkvæðagreiðslu og ef frv. okkar í Samf. sem hefur verið flutt á 7--8 þingum hefði fengið skoðun, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem heimilaði þjóðaratkvæðagreiðslu, þá gæti fólkið sjálft tekið málið í sínar hendur. Í frv. sem við höfðum flutt í 7--8 skipti á þinginu er gert ráð fyrir ákvæði sem yrði svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Fimmtungur kosningarbærra manna í landinu getur krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrumvarp sem Alþingi hefur samþykkt. Krafan, studd undirskriftum fimmtungs kosningarbærra manna, skal berast forseta lýðveldisins eigi síðar en 30 dögum eftir samþykkt lagafrumvarps á Alþingi. Undirskriftasöfnun og krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu frestar ekki gildistöku laga. Efnt skal til þjóðaratkvæðagreiðslu eigi síðar en 45 dögum eftir að forseti hefur úrskurðað um lögmæti kröfunnar. Til að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar séu bindandi þarf meira en helmingur þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslu að greiða atkvæði gegn gildi laganna, þó þannig að ávallt greiði fimmtungur kosningarbærra manna atkvæði gegn gildi laganna. Nánari reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. um kynningu á lögunum sem greiða skal atkvæði um, skulu settar í lög.``

Hér vitna ég, virðulegi forseti, í lagafrv. sem við höfum ítrekað reynt að koma í gegnum þingið. Ef frv. hefði orðið að lögum og fengið efnislega umræðu í þinginu, sem það hefur aldrei fengið í þingsölum eða í þingnefnd, þá hefði fólkið sjálft réttinn, gæti tekið málið í sínar hendur, 40 þúsund Íslendingar 18 ára og eldri gætu samkvæmt þessu frv. farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um það umdeilda mál sem hér um ræðir. Fólkið hefði málin í sínum höndum. Slík ákvæði hefðu betur verið sett í stjórnarskrá eins og við höfum krafist. Það er merkilegt, virðulegi forseti, að sjö af hverjum tíu vilja þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfir 40% þeirra sem spurðir eru vilja þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sýnir, virðulegi forseti, hvers konar valdníðsla þetta frv. er sem á að keyra í gegn.

Ég er sannfærð um það, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að málið hefði ekki meiri hluta í þinginu ef stjórnarliðar myndu fylgja sannfæringu sinni en vera ekki eins og druslur og hlíta bara vilja foringjanna og tilskipanna þeirra út og suður um þjóðfélagið. Þeir vilja láta alla innan þings og utan þings standa og sitja eins og þeir sjálfir kjósa. Ég fordæmi þessi vinnubrögð, virðulegi forseti.

Ég er sannfærð um að verði skipt um ríkisstjórn, sem vonandi verður sem fyrst, muni þetta frv., ef að lögum verður, aldrei komast til framkvæmda. Við viljum að við taki stjórn sem hefur uppi lýðræðisleg vinnubrögð og hefur samráð við þá aðila sem við eiga að búa og skoðun hafa á því hvernig rekstrarumhverfi fjölmiðlafyrirtækja eigi að vera. Það skulu vera mín lokaorð, virðulegi forseti. Ég fordæmi ríkisstjórnina harðlega í þessu máli og þá tvo oddvita ríkisstjórnar sem beita valdníðslu til að knýja frv. í gegn.