Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:36:57 (8791)

2004-05-21 23:36:57# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:36]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er farið að halla í miðnætti á þessum föstudegi og enn liggur ekkert fyrir, a.m.k. vita hv. þingmenn ekkert um það, hve lengi á að halda áfram þessum fundi. Ég held að það væri mjög gott ef hægt væri að fá um það einhverjar upplýsingar.

Boðað hefur verið til fundar í landbn. kl. 9 í fyrramálið og liggur fyrir að þingstörf hefjast snemma. Ég held að það sé rétt að vekja athygli á því, af því að fundur stendur fram undir miðnætti á föstudegi, að samkvæmt áætlun þingsins eru ekki fyrirhuguð þingstörf næstu fjóra mánuði. Við erum því ekki mjög aðkreppt í tíma. Það er í raun ekkert sem krefst þess að við högum þingstörfum með þeim hætti að þau standi fram á miðnætti á föstudagskvöldi. Við höfum nægan tíma og getum vel nýtt þá rúmu fjóra mánuði, sem fyrirhugað er að þingstörf fari ekki fram, á annan hátt. Ég vildi því beina til hæstv. forseta spurningu um hver áætlunin er með þennan fund og hvort hæstv. forseti sé mér ekki sammála um að Alþingi sé ekki svo aðkreppt í tíma að nauðsynlegt sé að haga störfum þess eins og verið hefur. Væri ekki rétt að fara að ljúka þessu og taka síðan til hendinni í fyrramálið? Ég tel að það væri betri bragur á þinginu með því móti enda er engin pressa á okkur. Við höfum fjóra mánuði til að vinna úr þessu.

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á þessu og kalla eftir viðbrögðum forseta. Hvernig sér hæstv. forseti næstu klukkutíma í þingstörfum?