Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 20:02:49 (8867)

2004-05-24 20:02:49# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[20:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Aukið frelsi, bætt efnahagsstjórn, pólitískur stöðugleiki og fleiri þættir hafa á undanförnum árum leitt til þess að Ísland hefur fest sig í sessi sem fyrirmyndarríki á mörgum sviðum samkvæmt fjölda alþjóðlegra mælikvarða. Eru þá ekki aðeins metnar þjóðartekjur á mann, sem eru með þeim allra hæstu í heimi, menntunarstig, samkeppnishæfni, geta til að standa undir erlendum skuldum, lífeyrismál og fleira af fjárhagslegum toga, heldur einnig lagt mat á þætti eins og stöðugleika í stjórnarfari, gagnsæi í stjórnsýslu, hvort pólitísk spilling sé útbreidd og fleira er varðar grunngerð lýðræðisskipulagsins.

Á öllum þessum mælikvörðum er Ísland í hópi fremstu ríkja og hefur á undanförnum árum alls staðar bætt stöðu sína og eru það engar ýkjur að ýmsar þjóðir taka okkur sér til fyrirmyndar um margt.

Það ástand sem verið hefur hér á Alþingi undanfarnar vikur og það málþóf sem stjórnarandstaðan hefur haldið uppi vegna andstöðu sinnar við eitt tiltekið þingmál hefur hins vegar sett nokkurn blett á virðingu Alþingis bæði innan lands og út á við.

Sama er að segja um kröfur hóps manna um að forseti Íslands, sem er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum samkvæmt stjórnarskránni og sitja ber á friðarstóli að störfum sínum, eigi nú að ganga gegn þingræðisreglunni og segja Alþingi stríð á hendur með því að synja frv. undirritunar sem lýðræðislegur meiri hluti þingsins hefur að réttum lögum samþykkt. Slíkir atburðir sem enginn sér fyrir endann á yrðu án efa verulegur álitshnekkir fyrir land og þjóð, fyrir utan hinar stjórnarfarslegu afleiðingar.

Herra forseti. Fyrir um þremur áratugum hófu ungir menn innan Sjálfstfl. baráttu fyrir því að afnema einkaleyfi ríkisins til reksturs útvarps og sjónvarps. Sú barátta gekk ekki þrautalaust fyrir sig enda hömuðust ótrúlegustu menn úr öðrum flokkum hart gegn þessum hugmyndum.

Guðmundur H. Garðarsson, þáverandi alþingismaður, flutti fyrstur frv. um frjálst útvarp á Alþingi á áttunda áratugnum. Slíkt þingmál var þó ekki samþykkt fyrr en vorið 1985, ekki síst fyrir harðfylgi Ragnhildar Helgadóttur, þáverandi menntamálaráðherra. Árið eftir tóku fyrstu frjálsu útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar til starfa.

Flestir hafa gleymt því hve torsótt var að fá útvarpsrekstur gefinn frjálsan enda slíkar stöðvar fyrir löngu orðnar sjálfsagður hluti af daglegu lífi almennings í landinu. Okkur sem þátt tókum í þessari baráttu á sínum tíma datt þá ekki í hug að þróunin gæti orðið sú að nauðsynlegt kynni að verða að hamla gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði með sérstökum reglum. Í upphafi var vandinn miklu frekar sá að tryggja hinum nýju ljósvakamiðlum eðlilegan samkeppnisgrundvöll gagnvart hinu volduga Ríkisútvarpi. Okkur hugkvæmdist ekki þá að slíkir fjölmiðlar gætu orðið liður í óeðlilegri valdasamþjöppun sem hluti af markaðsráðandi samsteypum sem kynnu að beita þeim fyrir vagn sinn á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Því miður er sú hætta nú fyrir hendi og ekki hjá því komist að lögfesta slíkar reglur líkt og gert hefur verið í flestum nálægum löndum. Hefði mönnum almennt komið til hugar á þeim tíma, þegar lögin voru sett, að slíkt ástand kynni að skapast, er ekki vafi á að slíkar reglur hefðu þá verið settar og öllum þótt það sjálfsagt. Eftir á hyggja hefði auðvitað verið best að afgreiða þetta atriði þegar í upphafi.

Það er vegna þeirrar stöðu sem nú er upp komin að ríkisstjórnin lagði fram frv. sitt um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum sem afgreitt var í dag sem lög frá Alþingi. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þessu frv. hafa verið óskiljanleg eins og sést hefur af vinnubrögðum þingmanna hennar undanfarna daga. Heiftarleg andstaða þessara flokka við frv. er þeim mun sérkennilegri þegar hafðar eru í huga fyrri tillögur þessara aðila og málflutningur einstakra þingmanna fyrr og síðar um þessi mál. Hefur þetta verið rækilega rifjað upp í umræðum undanfarinna daga.

Hvernig geta þingmenn Samfylkingarinnar þóst vera talsmenn heilbrigðrar samkeppni sem byggir m.a. á löggjöf gegn einokun, hringamyndun og misbeitingu markaðsráðandi stöðu en lagst síðan gegn eðlilegri umgjörð um þessa mikilvægu starfsemi, sem ekki er aðeins atvinnurekstur heldur jafnframt og ekki síður farvegur fyrir frjálsa tjáningu og skoðanaskipti og þar með sérstaklega viðkvæm fyrir misnotkun? Stjórnarandstöðuflokkarnir, Samfylkingin sérstaklega og formaður hennar sem hér talaði áðan, hafa gersamlega glatað trúverðugleika sínum í þessu máli hvað sem líður hinni frjálslyndu félagshyggju.

Hitt er annað mál að allt frá því að útvarpsrekstur var gefinn frjáls hefur ekki tekist að búa þessum rekstri þannig umhverfi að bæði hann og Ríkisútvarpið fái þrifist og dafnað saman með eðlilegum hætti. Næsta verkefni á þessu sviði hlýtur að vera að skilgreina þetta umhverfi upp á nýtt. Gera verður Ríkisútvarpinu kleift að standa hallalaust undir skyldum sínum, sem jafnframt verður að endurskilgreina og draga úr en einnig búa þannig um hnútana að einkaaðilar geti staðið að arðbærum útvarps- og sjónvarpsrekstri án óeðlilegra tengsla við stórar fyrirtækjasamsteypur í öðrum atvinnugreinum. Ég er ekki í vafa um að í landinu eru ýmsir fjárfestar sem vilja vera með í slíku.

Góðir tilheyrendur. Við megum ekki vera svo upptekin af einu stóru deilumáli, sem vissulega hefur þó grundvallarþýðingu, að við missum sjónar á öðrum þáttum þjóðlífsins. Ég nefndi áðan stöðu Íslands á nokkrum alþjóðlegum mælikvörðum. Horfur í efnahagsmálum hér á landi eru nú betri en víðast hvar annars staðar. Nú liggja fyrir spár um efnahagsþróun hér á landi allt til ársins 2010. Ef þær ganga eftir þarf ekki að kvíða framvindunni. Við þurfum aðeins að gæta okkar á því að fara ekki of geyst í sakirnar, fara ekki fram úr sjálfum okkur í framkvæmdagleðinni.

Fjármálaráðuneytið spáir því að hagvöxtur verði með mesta móti út spátímabilið. Þetta mun þýða að áfram verður gott atvinnuástand, kaupmáttur mun halda áfram að aukast ár frá ári eins og undanfarinn áratug og góðar horfur eru á stöðugleika í verðlagsmálum og á vinnumarkaði.

Mikilvæg forsenda alls þessa er að sjálfsögðu aðhaldssöm og hagsýn stefna í ríkisfjármálum og skilvirk peningamálastefna af hálfu Seðlabankans.

Í framhaldi af góðum árangri í ríkisfjármálum undanfarin ár er ljóst að verulegt svigrúm er til að skila almenningi hluta þess ávinnings sem náðst hefur með verulegri lækkun skatta eins og við sjálfstæðismenn héldum fram þegar fyrir ári síðan. Hin nýja þjóðhagsspá staðfestir það. Ríkisstjórnarflokkarnir vinna nú að lokagerð tillagna um skattalækkanir og verður vonandi hægt að kynna Alþingi þau áform á næstu dögum.

Herra forseti. Í upphafi mánaðarins urðu þau merku tíðindi að níu ríki Mið- og Austur-Evrópu fengu fulla aðild að Evrópusambandinu. Ég var staddur í Póllandi þegar þetta gerðist og sá þar að gleði almennings var einlæg alveg eins og þegar Pólverjar fengu aðild að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin að þessum tveimur bandalögum lýðræðisríkja, NATO og ESB, er þessum þjóðum gríðarlega mikilvæg pólitísk viðurkenning og verður þeim vonandi einnig efnahagsleg lyftistöng. Við Íslendingar samgleðjumst að sjálfsögðu þessum þjóðum sem á sínum tíma áttu samúð okkar alla á meðan þær bjuggu við ok kommúnismans sem varð þess valdandi að þær drógust langt aftur úr öðrum Evrópuþjóðum í lífskjörum.

Einhverjir spyrja: Er ekki sjálfsagt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið fyrst baltnesku löndin þrjú hafa gert það auk allra hinna? Er ekki ómögulegt fyrir okkur að vera utan við fyrst svo margir eru komnir inn fyrir? Svarið við því er nei. Það er ekkert sérstakt samband þarna á milli. Okkur ber eftir sem áður að meta stöðu okkar sjálfstætt út frá hagsmunum okkar. Kalt hagsmunamat sýnir enn að innan Evrópusambandsins er ekki eftir neinu að slægjast fyrir Íslendinga sem við höfum ekki þegar í hendi, annaðhvort vegna samningsins um EES eða annarra þátta. Fyrir hin nýju aðildarlönd gegnir einfaldlega allt öðru máli.

Vitaskuld verðum við Íslendingar ævinlega að skoða stöðu okkar í síbreytilegum heimi og meta hana með tilliti til hagsmuna okkar bæði austan hafs og vestan. Íslandi hefur á lýðveldistímanum tekist að afla sér trausts og virðingar á alþjóðavettvangi þótt við séum ekki sú rödd sem hæst heyrist. Kjarninn í utanríkisstefnu okkar hefur verið að standa vörð um hagsmuni okkar á hinum ýmsu sviðum en taka jafnframt afstöðu til helstu deilumála líðandi stundar á alþjóðavettvangi með ábyrgum en jafnframt afgerandi hætti ef svo ber undir. Þannig verður það að sjálfsögðu áfram að vera.

Ég vil bæta því við, vegna ummæla síðasta ræðumanns, að pyndingar bandarískra hermanna á föngum í Írak eru að sjálfsögðu svívirðilegar og íslensk stjórnvöld og við öll höfum fordæmt þær harðlega.

Herra forseti. Fyrr á árinu fögnuðum við Íslendingar aldarafmæli heimastjórnar í landinu. Ótrúlegar breytingar og framfarir hafa orðið á þessum 100 árum en síðustu 13 árin eru eitthvert mesta framfaraskeiðið á þessu tímabili. Frelsisvæðingin hefur leyst mikla krafta úr læðingi og hvert sem litið er sjáum við merki um gróandina í þjóðlífinu, í skólunum, í atvinnulífinu, í útrásarfyrirtækjunum, í menningarmálunum o.s.frv. Við eigum áfram fjölda tækifæra til að bæta lífskjörin í landinu og styrkja stöðu okkar meðal þjóðanna, bara ef við höldum rétt á spöðunum. Við getum því, góðir tilheyrendur, horft bjartsýn til framtíðar. --- Ég þakka áheyrnina, góðar stundir og gleðilegt sumar.