Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 21:03:31 (8875)

2004-05-24 21:03:31# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[21:03]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Farsælt samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur leitt íslensku þjóðina gegnum eitt mesta samfellda hagvaxtartímabil lýðveldisins. Sterk efnahagsstjórn samfara umfangsmikilli uppbyggingu velferðarþjónustunnar er aðalsmerki stjórnarsamstarfsins. Hvað sem líður fullyrðingum stjórnarandstöðunnar um annað leikur ekki vafi á því að ríkisstjórnin mun tryggja áframhaldandi framfarir, frekari uppbyggingu velferðarkerfisins og standa vörð um stöðugleika í efnahagslífinu íslensku þjóðinni til hagsbóta.

Á því ári sem ríkisstjórnin hefur setið hefur hún komið mörgum góðum verkum fram. Greiðslur vegna örorkubóta hafa aukist verulega. Á árinu 2000 runnu 5,4 milljarðar til örorkulífeyrisþega en í ár verða milljarðarnir 10,3. Í ár tvöfaldaðist örorkulífeyrir þeirra sem yngstir eru.

Atvinnuleysisbætur hafa hækkað um 14,6% á árinu og hafa ekki hækkað annað eins í að minnsta kosti á annan áratug. Á síðustu mánuðum hefur fækkað á biðlistum eftir skurðaðgerðum hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi um 27% eða 800 manns. Nú bíða 47 einstaklingar eftir hjartaþræðingu en á sama tíma í fyrra 149 manns. Biðtími nú svarar til einnar viku í stað tveggja mánaða á sama tíma í fyrra.

Hér er aðeins fátt eitt talið af þeim fjölmörgu verkefnum sem ríkisstjórnin vinnur að, verkefnum sem bæta lífið í landinu, jafna og bæta kjör fólksins og treysta undirstöðu samfélagsins alls. Á því ári sem liðið er af starfstíma ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið að áhrifamiklum breytingum á nokkrum meginviðfangsefnum félagsmálaráðuneytisins. Ég nefni fyrst húsnæðismálin. Áfram verður byggt á öflugu húsnæðislánakerfi innan vébanda Íbúðalánasjóðs. Sjóðnum verður eftir sem áður ætlað að tryggja aðgang að hagkvæmum lánum til húsnæðiskaupa. Sú ákvörðun að þróa húsnæðislánakerfið frá kerfi sem byggir á skuldabréfaskiptum með tilheyrandi hættu á afföllum eins og dæmin sanna til þess að byggja á beinum peningalánum mun líklega leiða til lækkunar vaxta til íbúðalána. Ávöxtunarkrafa hús- og húsnæðisbréfa hefur myndað vaxtagólf á íslenskum fjármálamarkaði og munu breytingarnar því væntanlega auka samkeppnishæfni Íslands með almennri vaxtalækkun í landinu fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta. Er þá til nokkurs unnið.

Þá liggur það fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að hámarkslán og lánshlutfall hækki í allt að 90% af verðgildi íbúðarhúsnæðis að ákveðnu hámarki. Er nú beðið niðurstöðu athugunar ESA á rekstri húsnæðislánakerfisins og fyrirhugaðra breytinga á því. Vænti ég þess að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp þess efnis næsta haust og reikna með að það njóti víðtæks stuðnings þingmanna úr flestum ef ekki öllum flokkum.

Hæstv. forseti. Nauðsynlegt er að landið allt sé raunhæfur valkostur fólks til búsetu, atvinnu og menntunar. Til þess þarf að stækka og efla sveitarfélögin og gera þau þannig hæfari til að taka að sér aukin og krefjandi verkefni, ekki síst á sviði velferðarþjónustu. Um leið þarf verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga að vera skýr og tekjustofnar þeirra að vera í samræmi við lögbundin og eðlileg verkefni sveitarfélaganna.

Frá liðnu hausti hefur félagsmálaráðuneytið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga unnið að endurskoðun verkaskiptingarinnar. Nú hefur verkefnisstjórn skilað tillögum þar að lútandi og eru þær til umfjöllunar í ríkisstjórn. Hefur þar verið ákveðið að vinna að verk-, tíma- og kostnaðaráætlun vegna þeirra helstu. Má þar nefna málaflokk fatlaðra, vissa þætti heilbrigðis- og öldrunarþjónustu, verkefni svæðisvinnumiðlana, opinber eftirlitsverkefni og fleira.

Málefni fatlaðra hafa sannarlega sett mark sitt á starf félagsmálaráðuneytisins á því ári sem liðið er af kjörtímabilinu. Evrópuári fatlaðra er nýlega lokið og var það formlega kvatt af nærri 500 manns á glæsilegri ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík á vordögum. Okkur miðar vel í þjónustunni við fatlaða. Fyrir fáeinum árum var það svo að biðlistar eftir búsetuúrræðunum fyrir fatlaða voru svo langir að ekki sá fyrir enda þeirra. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að eyða þessum biðlistum hefur verið lyft grettistaki. Á síðustu þremur árum hefur fjöldi sambýla risið og annars konar búsetuúrræðum fyrir fatlaða hefur sömuleiðis fjölgað. Það sama er uppi á teningnum á þessu ári og ég bind vonir við að svo verði einnig á því næsta. Gangi það eftir hefur biðlistum eftir sérhæfðri búsetu verið eytt í lok ársins 2005.

Sömuleiðis er unnið að því þessa dagana að setja fram hugmyndir um lausnir í umönnun og búsetu geðfatlaðra. Ég vonast til að innan skamms liggi fyrir raunhæf áætlun til nokkurra ára.

Íslendingar eru með ríkustu þjóðum heims og það er skylda okkar að tryggja þeim löndum okkar sem búa við fötlun aðstæður í samræmi við það sem best gerist. Um það hljótum við öll að geta sameinast.

Þeir kjarasamningar sem þegar hafa verið gerðir á almennum vinnumarkaði gilda almennt til fjögurra ára. Í byrjun mars gerði ríkisstjórnin samkomulag við samtök á vinnumarkaði til að liðka fyrir um gerð samninganna, meðal annars um lækkun tryggingagjalds, verulega hækkun framlaga í starfsmenntasjóði og mestu einstöku hækkun atvinnuleysisbóta í áraraðir. Fram undan er áríðandi vinna við endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir.

Atvinnuleysi hér á landi hefur illu heilli tekið á sig breytta mynd. Langtímaatvinnuleysi hefur aukist auk þess sem atvinnuleysi meðal ungs fólks og menntafólks er áberandi. Mikilvægt er að fara yfir þessa stöðu, læra af reynslunni og finna leiðir til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Góðir Íslendingar. Fram undan eru bjartir tímar. Það er enn uppgangur í íslensku samfélagi, uppgangur sem hefur verið nánast samfelldur síðan ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks rauf kyrrstöðuna um miðjan síðasta áratug. Þessir flokkar hafa borið gæfu til að ná lendingu við umfjöllun um mörg stærstu mál samtímans. Í slíku samstarfi reynir oft á og það á báða bóga. Rétt eins og í samskiptum allra þeirra sem vilja láta eitthvað eftir sig liggja hvessir með köflum og menn takast á. Stundum fæ ég mitt fram. Stundum gef ég eftir. Þannig er það í lífinu og þannig er það í stjórnmálunum. --- Góðar stundir.