Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:54:29 (8917)

2004-05-25 11:54:29# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Frv. þetta má segja að sé niðurstaða nefndar fjmrh. sem var sett á laggirnar í mars 2001, ef ég man rétt, og hafði það að markmiði að efla enn frekar stöðu verðbréfa Íbúðalánasjóðs á markaði. Við fórum vel yfir þetta mál í félmn. fyrir nokkrum vikum og þá mátum við það svo að við hefðum tiltölulega skamman tíma því ætlunin var að þinginu lyki 7. maí, eins og vel er þekkt. Ég held hins vegar að nefndin hafi náð að fara ágætlega yfir málið. Ég veit ekki hvort það er hefð að gera það hér en ég vildi nota tækifærið og þakka nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Ég verð að segja það nákvæmlega eins og er að mér þótti sérstaklega framganga stjórnarandstöðunnar vera til mikillar fyrirmyndar í nefndinni.

Nú er það ekki svo að allir hafi verið á eitt sáttir um málið og að ekki hafi verið velt neinum steinum hvað það varðar. Því fór víðs fjarri. Hins vegar voru menn einbeittir í því í nefndinni að reyna að vinna málið hratt og örugglega en þó þannig að farið væri yfir alla þætti. Ég tel líka að það hafi verið mikill styrkur fyrir nefndina að hafa fyrrverandi félmrh., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, innan borðs. Það var mikill styrkur þegar við fórum yfir þessa þætti. Eins og menn þekkja er hv. þm. einbeitt í stjórnarandstöðu sinni en þó alltaf málefnaleg og var hún það svo sannarlega innan nefndarinnar. Ég tel að það hafi verið mjög mikill styrkur í þessu starfi og ég vona að félagar hennar í Samf. láti hana ekki gjalda þess að sá sem hér stendur hrósi henni sérstaklega en það er alveg full ástæða til. Nóg um það.

Þetta er frv. félmrh. um þessa breytingu. Markmiðið er mjög einfalt, að koma með hagkvæmari húsnæðislán fyrir íbúðakaupendur með ódýrari fjármögnunum á almennum lánamarkaði. Með nokkurri einföldun þýðir þetta að menn eru að tala um að lækka ávöxtunarkröfu fjárfesta á bréfum sem bera uppi húsnæðiskerfið. Með öðrum orðum er markmiðið með þessu hreint og klárt að lækka vexti og auðvelda mönnum húsnæðiskaup. Með nokkurri einföldun þýðir þetta að verið er að einfalda kerfið sem er til staðar, hanna staðlaðri og seljanlegri bréf þannig að þau verði auðseljanlegri á markaði. Það þýðir vonandi, ef markmiðið nær fram að ganga, sem ég hef fulla trú á, fleiri kaupendur, bæði innlenda og erlenda, og þar af leiðandi lægri ávöxtunarkröfu af þeirra hálfu sem þýðir vonandi í nútíð og framtíð lægri vexti.

Eins og ég sagði er þetta frv. félmrh. byggt á tillögum nefndar fjmrh. frá 28. mars 2001. Niðurstaða þeirrar nefndar sem fór yfir núverandi kerfi er að það hafi að stærstum hluta reynst vel. Það var án nokkurs vafa mjög góð breyting þegar hún kom fram á sínum tíma. Þrátt fyrir það eru ákveðnir ágallar á þessu eins og menn þekkja. Þeir helstu eru að viðskiptavinir bera ákveðna vaxtaáhættu sem alla jafna gengur undir hugtakinu afföll. Það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá því að kerfið er flókið fyrir íbúðakaupendur og sömuleiðis flókið fyrir fjárfesta. Það þýðir hærri vexti. Húsbréfin hafa ekki náð þeim kjörum miðað við stærð og gerð ríkistryggðra bréfa. Þess vegna er farið út í þær breytingar sem hér verður í fljótu bragði farið yfir og koma fram í frv. Þær eru þær helstar, eins og ég sagði, að markmiðið er einföldun. Í stað húsbréfa koma peningalán eins og við þekkjum í almennum lánaviðskiptum. Íbúðalánasjóður mun gefa út eina tegund verðbréfa í stað tveggja áður og kjör lánanna miðast við fjármagnskostnað Íbúðalánasjóðs í heild. Þar er annars vegar um að ræða vaxtakjör sem ráðast af niðurstöðu útboðs íbúðabréfa og hins vegar fjármagnskjör vegna uppgreiðslu lána Íbúðalánasjóðs. Vaxtaákvörðunin mun byggjast á vegnu meðaltali þessara tveggja þátta. Að auki kemur álag sem sjóðurinn bætir við líkt og nú tíðkast við peningalán Íbúðalánasjóðs og sölu hans á húsnæðisbréfum.

[12:00]

Þetta nýja fyrirkomulag gerir þannig ráð fyrir að vextir á útlánum Íbúðalánasjóðs verði ákveðnir eftir hvert útboð og verði þar af leiðandi mismunandi á milli tímabila. Íbúðalánasjóður mun ekki hafa almenna heimild til innköllunar á íbúðabréfum á móti uppgreiddum lánum nema í neyðartilfellum og þar er gert ráð fyrir að ráðherra þurfi að koma til. Er þetta gert til að gera hin nýju íbúðabréf aðgengilegri á markaði. Áhættudreifingin, áhættustýringin og áhættan verður í rauninni á hendi Íbúðalánasjóðs og hann mun hafa heimild til að eiga viðskipti með verðbréf og beita hefðbundnum aðferðum við áhættustýringu með það fyrir augum að dreifa áhættu sjóðsins. Er það nokkurt nýmæli og hljómar kannski sem mikið áhættumál fyrir Íbúðalánasjóð en hann hefur á undanförnum mánuðum verið að undirbúa sig fyrir slíkt. Bara svo því sé til haga haldið er hér um að ræða þrátt fyrir allt mun einfaldari áhættu en við t.d. þekkjum í hefðbundnum bankaviðskiptum. Ef við berum Íbúðalánasjóð saman við hina hefðbundnu viðskiptabanka sem við þekkjum á hinum íslenska markaði erum við að ræða um mun einfaldari áhættustýringu þar sem hér er um að ræða íbúðalánaviðskipti. Hinir hefðbundnu viðskiptabankar eru hins vegar á svo mörgum öðrum sviðum og þurfa að líta til miklu fleiri þátta.

Gert er ráð fyrir að skipta út þessum nýju bréfum fyrir hin gömlu með skiptiútboðum. Það er lagt alveg sérstaklega upp með að þar verði um að ræða góða samvinnu við aðila á markaði og hefur nefndin verið fullvissuð um að mikil vinna hafi verið lögð í það. Miðað við það sem við höfum heyrt og þær umsagnir sem við höfum fengið eigum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af öðru en að það muni ganga vel fyrir sig.

Meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um nokkrar breytingar. Sömuleiðis kemur fram í nefndaráliti að Fjármálaeftirlitið fagni þeirri breytingu að Íbúðalánasjóður sé gerður að eftirlitsskyldum aðila en samkvæmt gildandi lögum er aðeins húsbréfadeild eftirlitsskyld. Meiri hlutinn tekur undir þetta og mælist til þess að þegar verði hafin vinna við að setja niður nánari reglur um hvað það er sem hafa skuli eftirlit með í starfsemi sjóðsins. Meiri hlutinn telur æskilegt að slíkar reglur verði settar í lög frekar en að aðeins sé mælt fyrir um slíkt með stjórnvaldsfyrirmælum og má þá hafa hliðsjón af þeim lagareglum sem gilda um eftirlit með öðrum fjármálafyrirtækjum á markaði. Þarna tekur meiri hluti nefndarinnar undir umsögn Fjármálaeftirlitsins og mælumst við til þess að fljótlega verði farið í að binda þessa eftirlitsskyldu og skilgreiningu á henni í lög í stað þess að hafa það í reglugerð þrátt fyrir að hvorki Fjármálaeftirlitið né meiri hluti nefndarinnar hafi gert neina athugasemd við að það sé gert á þessum tímapunkti.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frv. og þær koma fram í meirihlutaálitinu sem ég vil lesa upp, með leyfi forseta:

,,1. Lagt er til að á 5. gr. verði gerð breyting sem miðar að því að Íbúðalánasjóður semji við aðila á fjármálamarkaði, svo sem lánastofnanir eða aðra aðila, um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra.`` --- Þetta er í rauninni sambærilegt við það sem gerist nú í dag. Í frv. var gert ráð fyrir breytingu á orðalagi hvað þetta varðar en meiri hlutinn vill hafa þetta með sambærilegum hætti og er í dag.

,,2. Gerð er tillaga um að ákvæði um upphafsdag vaxta í 10. gr. taki mið af því að ávallt tekur nokkra daga að afla undirskrifta á ÍLS-veðbréf og fá því þinglýst. Eðlilegt þykir að miða við að þetta ferli taki að jafnaði fimm virka daga og að fyrsti vaxtadagur miðist við lok þess tíma.

3. Lagt er til að dagsetningu í ákvæði til bráðabirgða I verði breytt og hún færð nær þeim degi þegar telja má líklegt að tekist hafi að birta frumvarpið sem lög verði það samþykkt.``

Að lokum til að setja þetta í eitthvert samhengi og til útskýringar á því af hverju þetta sé nauðsynlegt og æskilegt ætla ég, með leyfi forseta, að vitna í ágætisumfjöllun Viðskiptablaðs Morgunblaðsins um verðtryggð skuldabréf fimmtudaginn 6. maí 2004. Blaðamaður Morgunblaðsins, Haraldur Johannessen, fjallar þar um alþjóðlegan verðbréfamarkað og horfurnar fyrir íslensk bréf. Þetta er um margt athyglisverð úttekt og kemur þar fram að íslenski skuldabréfamarkaðurinn sé sjöundi stærsti skuldabréfamarkaður í heimi. Þetta er eitt af því sem við erum stór í, okkar litla þjóð. Þar vitnar hann mjög í og tekur upp úr úttekt á mánaðarútgáfu Barclays Capital. Ég ætla að lesa örstutt upp úr niðurlagi þessarar úttektar og byrja, með leyfi forseta, á millifyrirsögn sem segir ,,Íslensku bréfin ákjósanleg``:

,,Í mánaðarútgáfu Barclays Capital sem minnst var á hér að ofan kemur fram að nýfengin tenging Íslands við uppgjörs- og vörslufyrirtækið Clearstream og fyrirhuguð breyting á skuldabréfamarkaðnum í sumar veiti kjörið tækifæri til fjárfestinga. Áður hafi útlendingar þurft að setja upp reikninga hjá innlendum bönkum sem hafi haft mun meiri kostnað í för með sér og hafi fælt flesta erlenda fjárfesta frá því að velta markaðnum fyrir sér í alvöru. Möguleikinn til að fjárfesta miðað við 4% raunvexti þegar mikilvægar umbætur og aukinn seljanleiki séu fram undan sé eftirsóknarverður fyrir stofnanafjárfesta og muni líklega vega þyngra en efasemdir um að fjárfesta í fremur lítið seljanlegri mynt. Talið er sérstaklega jákvætt að losna við útdráttinn, þ.e. endurkaup bréfanna, og að flokkunum muni fækka úr 38 í 4. Barclays Capital telur litla ástæðu til að ætla að ávöxtunarkrafan muni ekki lækka enn meira en orðið er.``

Önnur millifyrirsögn kemur í framhaldinu, ,,Markaður og eftirmarkaður``:

,,Fyrir fáeinum árum var alþjóðlegur markaður með verðtryggð skuldabréf aðeins lítill markaðsafkimi sem afar fáir veittu athygli. Við þetta bættist að eftirmarkaður með bréfin var nánast ekki til, en með eftirmarkaði er átt við sölu bréfanna áfram eftir að þau hafa verið keypt í fyrsta sinn. Þetta hefur hvort tveggja breyst mikið og á örskömmum tíma hefur markaður með þessi bréf vaxið það mikið að hægt er að tala um fullburða markað þó að hann sé --- enn sem komið er að minnsta kosti --- aðeins brot af hefðbundna skuldabréfamarkaðnum. Horfur um sölu á íslenskum verðtryggðum skuldabréfum eru því góðar og fátt sem bendir til að Íslendingar þurfi að hafa áhyggjur af því að erlendir fjárfestar missi áhuga á bréfunum á næstunni.``

Ég held að þetta sé ágætisvitnisburður um að hér séum við að stíga rétt skref. Ef maður ætti að draga saman í stuttu máli um hvað þetta mál er gengur það í rauninni fyrst og fremst út á það að einfalda það kerfi sem er til staðar. Svo að því sé til haga haldið hefur það reynst vel og ég held að án nokkurs vafa hafi verið tekið gott skref á sínum tíma. Þetta á að verða einfaldara núna samt, m.a. fyrir fjárfesta. Þá líta menn eðli málsins samkvæmt ekki síður til erlendra fjárfesta. Það að fleiri erlendir fjárfestar sjái sér hag í að fjárfesta í þessum bréfum þýðir meiri líkur á vaxtalækkunum.

Á sama hátt er kerfið einfaldara og auðskiljanlegra fyrir viðskiptavini, fyrir þá aðila sem kaupa sér húsnæði. Það hlýtur að vera markmið okkar allra og það að við getum hugsanlega fengið fleiri fjárfesta að þessu með staðlaðri bréfum og því sem ég kalla svona almennt meira ,,liquid``, svo ég sletti, með leyfi forseta, ætti að verða til þess að við næðum því markmiði að lækka vexti og bæta þar af leiðandi kjör þess fólks sem er að fjárfesta í húsnæði hér á landi. Þetta mun þýða aukna ábyrgð á Íbúðalánasjóð og ég held að við höfum farið mjög vel yfir það í nefndinni hvernig Íbúðalánasjóður hyggist koma til móts við þær auknu kröfur sem til sjóðsins eru gerðar. Við höfum verið fullvissuð um að hann sé vel í stakk búinn til að mæta þessari auknu ábyrgð og að til staðar séu þær neyðarráðstafanir ef þannig má að orði komast sem vonandi þurfa aldrei að koma til en eru til staðar ef sú staða kæmi upp að við þyrftum að bregðast við. Í stuttu máli er hér um að ræða einföldun fyrir fjárfesta, fyrir viðskiptavini, og aðgerðir sem miða að því að bæta kjör þeirra sem kaupa sér húsnæði hér á landi. Það hlýtur að vera markmið okkar allra.