Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 14:35:36 (8922)

2004-05-25 14:35:36# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, RG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ekki undarlegt að húsnæðismálin höfði til okkar þingmanna og að um þau þurfi að fjalla frá ólíkum hliðum. Húsnæðismál eru í flestum tilfellum helsti útgjaldapóstur fjölskyldna, einn þýðingarmesti liðurinn í lífskjörum fólks og það er eitt helsta öryggismál fjölskyldna að eiga öruggt skjól og helst að eiga þak yfir höfuðið. Löggjafinn er afskaplega mikill örlagavaldur í lífi fjölskyldunnar því að það er hann sem ræður hvernig húsnæðismálunum er skipað, hvernig tekið er tillit til mismunandi möguleika fólks og mismunandi kjara og auðvitað framfylgir löggjafinn stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem er við völd hverju sinni.

Það er hárrétt sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór svo vel yfir áðan að mjög hefur skort á að ríkisstjórnin skoði, þegar hún gerir breytingar, með hvaða hætti breytingarnar eða stjórnvaldsaðgerðir bitna á ólíkum fjölskylduhópum. Þetta er mesti ljóður á ráði ríkisstjórnarinnar þau ár sem hún hefur verið við völd. Það hefur aftur og aftur verið komið með frumvörp eða gerðar grundvallarbreytingar við fjárlagagerð án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvernig þetta hittir ólíka hópa fyrir, hvort aðrar breytingar séu í farvatninu á öðrum sviðum í öðru ráðuneyti sem hitta sama hópinn fyrir og þess vegna getur það allt eins gerst að nokkrar stjórnvaldsaðgerðir undir forræði þriggja, fjögurra ólíkra ráðherra hitti sama hópinn illa fyrir en sömu aðgerðir lyfta öðrum hópi kannski óþarflega. Við erum mjög aftarlega á merinni með þetta hér á Íslandi. Þegar þingsályktun um fjölskyldustefnu var samþykkt hér í þinginu á sínum tíma var einmitt mjög mikil umræða um að breyta þessu og reyna að horfa heildstætt á hlutina. Þar var sérstaklega ætlast til þess að fjölskylduráðið yrði mótandi.

Ég tek hattinn ofan fyrir fjölskylduráðinu miðað við hvað þar hefur verið reynt að gera að gera á þessum árum, miðað við að það hefur engan fastan fjárhagsgrundvöll. Fjölskylduráðinu var ætlað viðamikið hlutverk í þeirri fjölskyldustefnu sem var samþykkt hér á Alþingi 1996 og búin var að vera til umræðu á tveimur, þremur þingum, Því var ætlað viðamikið hlutverk í samvinnu við ríkisstjórn hverju sinni og það átti að stofna fjölskyldusjóð þar sem væri fé til að vinna úttektir, vinna rannsóknir, nákvæmlega á því sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir gerði hér að umtalsefni og þekkir mjög vel. Hún hefur talað fyrir því, m.a. í kosningabaráttu, hversu mikilvægt sé að staða ungra fjölskyldna sé skoðuð og möguleikar ungra fjölskyldna. Þetta var nákvæmlega hlutverkið sem fjölskylduráði var m.a. ætlað, að skoða hvað þurfi til að koma og hvernig stjórnvaldsaðgerðir snerta m.a. ungar fjölskyldur.

Hér á dögunum var dreift til okkar skýrslu forsrh. um fátækt á Íslandi. Ég ætla ekki að gera skýrsluna að umtalsefni sem slíka. Hins vegar ætla ég að benda á ákveðin atriði úr henni sem snerta mjög málið sem hér er tekið fyrir. Á bls. 9 er fjallað um húsnæðismál og greiðsluvanda heimilanna. Þar segir:

,,Húsnæðiskostnaður vegur þungt í útgjöldum flestra heimila ...``, með leyfi forseta ætla ég að lesa örfáar línur upp úr þessu, ,,... og ekki síst hjá þeim sem höllustum fæti standa.``

Síðan er fjallað um það í skýrslunni hvaða úrræði sveitarfélögin bjóða upp á í húsnæðismálum, hvaða úrræði sveitarfélögin hafa fyrir þá sem höllum fæti standa. Það er líka athyglisvert hvernig ríkisstjórnin hefur hægt og sígandi ýtt verkefnum og þunganum af úrræðum fyrir þá sem höllum fæti standa yfir á sveitarfélögin og fríað sig af því að bera ábyrgð á þeim hópi.

Í kaflanum um húsnæðismál nokkru síðar í skýrslunni segir að það sé ,,... ekki síður fólk með millitekjur sem hefur orðið fyrir tekjulækkun sem sækir um greiðsluerfiðleikaaðstoð ...`` Þá er fjallað alhliða um húsnæðismálin. Talað er um að æ fleiri leiti eftir aðstoð þrátt fyrir að hlutfall lána í vanskilum sé í lágmarki. Í skýrslunni gera menn því skóna að ætla megi að færri en áður séu í vanskilum en fleiri leiti aðstoðar út af húsnæðismálum. Þetta eru mjög sérstakar upplýsingar sem eiga auðvitað heima í almennri húsnæðisumræðu vegna þess að hér er bæði fjallað um þá sem höllum fæti standa og almenning.

Ég sat yfir umræðu þegar skýrslan kom á borðið til mín og bjóst þá einmitt við að húsnæðismálið kæmi á dagskrá og skoðaði hana þess vegna nokkuð út frá húsnæðisþættinum. Það er út af fyrir sig mjög sérstakt í fátækraskýrslunni, og e.t.v. í samræmi við það sjónarmið sem birtist okkur stöðugt hjá ríkisstjórninni, að í 3. kafla, sem heitir ,,Leiðir til úrbóta``, má segja að öllum úrræðum sé vísað til sveitarstjórnanna. Það er mjög sérstakt, með tilliti til þess að í húsnæðiskaflanum er talað um hvað húsnæðiskostnaðurinn vegi þungt í útgjöldum hefðbundinnar fjölskyldu og þeirra sem höllum fæti standa, að þarna skuli ekki vera orð um leiðir til úrbóta í húsnæðismálum. Ekki orð um leiðir til úrbóta í húsnæðismálum þrátt fyrir þetta vægi. Hins vegar segir um skattana í kaflanum ,,Leiðir til úrbóta`` að ,,... almennt virðist ljóst að breytingar á skattkerfinu séu ekki vænlegar til að breyta kjörum þeirra verst settu í þjóðfélaginu.`` Það gera hins vegar húsaleigubætur og barnabætur.

Ég fór því að skoða, hæstv. forseti, töflurnar sem er að finna hér yfir tekjubil íslenskra fjölskyldna. Þá finnst mér koma mjög merkilegir hlutir í ljós sem mér finnst að eigi að hafa að leiðarljósi þegar húsnæðismálin eru skoðuð og hvað eigi að vera í boði varðandi húsnæðismál fjölskyldnanna í landinu. Ég sakna þess að gera eigi breytingar á almenna húsnæðiskerfinu án þess að nokkuð liggi fyrir um hvernig eigi að taka alhliða á húsnæðismálum, sérstaklega með tilliti til þeirra sem minna hafa milli handanna.

Hvað kemur þá í ljós þegar töflurnar um heildartekjur einstaklinga eru skoðaðar? Ég er ekki viss um að fólk hafi gert sér grein fyrir því hvernig það mál er vaxið. Ef litið er á heildartekjur einstaklinga 20 ára og eldri árið 2002 er þeim skipt í 10 hópa og jafnmargir í hverri tíund, þarna eru 7.392 einstaklingar í tíund. Fólkið í fjórum tekjulægstu hópunum, nærri 30 þúsund manns, er með milljón eða minna í tekjur. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að inni í þessu er nokkuð stór hópur námsmanna en þarna er líka stór hópur láglaunafólks. Þarna er fólk sem flosnar upp úr skóla, fólk sem er með lægstu launin á vinnumarkaði, fólk sem lendir jafnvel í því að stofna fjölskyldu án þess að vera í stakk búið til þess. Fólkið í fjórum af tíu hópum, 7.392 einstaklingar í hverjum hóp, samtals nærri 30 þúsund, er með 1.016 þús. kr. eða minna í tekjur.

[14:45]

Ef maður skoðar heildartekjur einstæðra foreldra 20 ára og eldri og tekur sömu fjóra hópana, þá eru um 3.596 einstaklingar með minna en 1.200 þús. kr. á mánuði. Það er ekki nálægt því eins stór hópur, en þetta er samt hátt á fjórða þúsund manns með forræði barna sem á að lifa af þessum tekjum og er háð því að eiga möguleika á þokkalegu húsnæði á þokkalegum kjörum --- og við erum ekkert farin að fjalla um það enn þá hjá þessari blessuðu ríkisstjórn. Þegar við skoðum svo heildartekjur hjóna eða sambýlisfólks 20 ára og eldri og tökum aftur þessar tíundir, þar eru 5.136 hjón eða pör í sambúð í hverri tíund, þá kemur í ljós að um 20.500 pör í þessum hópi eru samtals með 4 millj. kr. eða minna í tekjur. Fólk á vinnumarkaði sem er samtals í einu, einu og hálfu, tveimur störfum, eða annað vinnur en hitt er heima með börn sem er nú orðið fátíðara. Þetta eru um 20.500 manns, eða 41 þúsund einstaklingar þar sem hjón eða sambýlisfólk er samtals með undir 4 millj. kr. á mánuði. Þetta segir okkur gífurlega mikið um hvernig staða fólks er og hversu stórir hóparnir eru sem þurfa á því að halda að við búum til löggjöf og smíðum aðstæður í velferðarsamfélaginu sem gera öllum, líka þessum stóru hópum sem ég hef nefnt, mögulegt að búa við mannsæmandi kjör.

Þess vegna, virðulegi forseti, er svo mikilvægt að þjóðin búi við stöðugleika í húsnæðismálum. Sérstaklega hvað lánamálin varðar en líka og ekki síður lánakjörin og það er einnig mjög mikilvægt hvernig húsnæðisframboðið er; húsnæðisframboð, húsnæðiskjör, lánamál almennt og sértæk lánamál. Þess vegna legg ég mjög mikla áherslu á að ráðherra flýti því að nefnd sem mér skilst að hann hafi sett á laggirnar í fyrrasumar skili af sér, vegna þess að störf nefndarinnar varða kjör og möguleika þessara stóru hópa sem ég vísaði til og getið er um í skýrslu forsrh. um fátækt á Íslandi. Ég undirstrika að þá bendi ég ekki eingöngu á þennan fátækasta hóp sem skilgreindur er heldur einmitt almenninginn sem er á lægstu laununum í þessu landi, þennan hefðbundna almenning sem er talað um eins og fólk sem allt hafi það mjög gott og hafi nóg að bíta og brenna.

Svo get ég ekki, virðulegi forseti, annað en rifjað upp stöðuna frá 1984 af því að ég er að tala um stöðugleika í húsnæðismálum og stöðugleika í lánamálum. Auðvitað var mjög erfitt að alltaf var verið að stokka upp kerfið. Fólk var orðið þannig að þegar ný lög komu um húsnæðislánakerfið hugsaði það: Nú þarf endilega að drífa í að fá lán áður en allt breytist, áður en allt fer í klessu. Þannig var t.d. mjög ömurlegt að horfa upp á svokallað biðraðakerfi og ófremdarástandið sem spannst úr því. Það vantaði ekki að menn væru með góðar hugmyndir og góðar óskir. En ætli það sé nú ekki þannig að það er eins og svo oft hafi ekki verið skoðað nægilega vel hvað breytingar mundu hafa í för með sér. Þegar kerfi var komið á fór fólk bara í röðina. Þegar dragast fór að lánin yrðu veitt, þá greip hálfgerð múgæsing um sig og fólk hugsaði: Það er nú best að fara í röðina til öryggis ef ég skyldi nú skipta um húsnæði eða ef við skyldum hafa efni á því að kaupa húsnæði á næstu tveimur, þremur árum, þá er nú betra að vera í röðinni því að annars kemst maður aldrei að þegar maður ætlar að fara að kaupa.

Á þeim tíma var aðeins lánaður tiltekinn hluti af því sem fólk þurfi sem var að fjárfesta í húsnæði og oft var fólk búið að kaupa með von um að fyrr kæmi að láninu. Það þekktu allir þetta kerfi, að hlaupa á milli banka, takmörkuð fyrirgreiðsla á hverjum stað, fólk með víxla og lán út um allt, hlaupandi úr vinnunni, fór úr vinnu til þess að borga einn víxilinn með öðrum, endalaus ráðþrot, þreyta og spenna í fjölskyldunni, til þess að reyna að ná endum saman um það sem átti kannski að vera einfalt en reyndist svo þungt og erfitt. Þá var erfitt að fá lán og það var svo mikil fyrirhöfn, eins og ég reyni að lýsa hér, og það var dýrt. Það var dýrt vegna þess að skammtímalánin voru dýr. Það var dýrt vegna þess að það bitnaði oft á vinnutímanum og það tók sinn tíma að sitja á skrifstofum bankastjóranna, vegna þess að þá þurfti að sitja á biðstofum bankastjóra upp á von og óvon um að fá lán til að bjarga næsta hjalla.

Þess vegna var alveg ljóst að þegar ný ríkisstjórn kom að þessum málum 1987 varð að gera grundvallarbreytingar og það varð að finna leiðir miðað við efnahagsaðstæður þá. Miðað við þær efnahagsaðstæður varð að finna viðunandi leiðir til að búa til kerfi sem gæti lifað með þjóðinni. Jóhanna Sigurðardóttir sem þá var félmrh. setti á stofn faghóp sem fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og fyrrverandi ráðherra, Kjartan Jóhannsson, leiddi. Hann og þessi hópur skoðuðu mjög margar leiðir og einnig hvaða leiðir voru farnar annars staðar á Norðurlöndunum. Það var ekki kastað til þessa höndunum og það var virkilega leitað leiða sem gætu fallið að fjármálakerfi okkar og efnahagsaðstæðum. Niðurstaðan var húsbréfakerfið sem var í raun og veru mjög farsæl leið. Hún byggðist á því að fólk gæti gert sín kaup þegar það hentaði, að það gæti farið í húsnæðisskipti þegar það hentaði og það þyrfti ekki að reyna að búa til eitthvað, setja sig á biðlista eitthvað fram í tímann upp á von og óvon, heldur gæti fólk fengið lán á einum stað, 70% af lánsþörfinni, og þyrfti ekki að fara í þessi endalausu hlaup á milli bankastjóra og biðstofa.

Ég kom nálægt þessu máli, sumum nefndastörfunum og var formaður Húsnæðisstjórnar ríkisins þegar þetta kerfi var tekið í notkun. Ég get alveg sagt eins og er að fólk hélt að það þyrfti að flýta sér. ,,Þetta stendur örugglega ekki lengi að geta fengið 70% lán núna þegar mér hentar, þetta getur ekki staðið lengi. Það er best að drífa sig í þetta meðan pening er að fá.``

Þannig var ástandið í kringum það þegar húsbréfakerfið var sett á laggirnar. Það verður að segjast eins og er að það var mjög erfitt að koma þessu til skila til fólks: ,,Ekki fara út í húsnæðiskaup eða húsnæðisbreytingar þegar mikil þensla er í kerfinu, af því að afföllin sýna þenslu, og þér liggur ekkert á; gerðu þetta bara þegar dregur úr þenslunni, skiptir engu máli þótt þú bíðir aðeins, ekki hlaupa af því að þú heldur að þú fáir peninga núna, ekki seinna. Þetta verður hér. Þetta verður kyrrt.``

Ég fullyrði það fullum fetum, virðulegi forseti, að þessi hugsun átti stærstan þátt í því hversu mikil afföll urðu á tímabili í húsbréfakerfinu. Ég kynntist því við miklar viðræður við ólíklegasta fólk, við að reyna að útskýra hvað væri innbyggt í kerfið og fólkið sagði: ,,Hvað getur maður treyst þessu? Það er um að gera að gera þetta núna. Það er mest um vert að fá 70% af lánunum og allt á sama stað og geta gert áætlun fram í tímann.``

Þetta var grundvallarhugsunin þegar húsbréfakerfið var smíðað. Því var ætlað að lifa til frambúðar. Því var ætlað að fjármagna stærsta hlutann af húsnæðinu eða íbúðinni og byggðist á því að fólk gæti ráðið við mismuninn og þyrfti ekki að gera kaupin eða fara í framkvæmdirnar nema þegar ekki væri of mikil spenna á markaðnum. Þannig að það má líka segja að fjárhagslega eða efnahagslega hafi svona kerfi verið gott fyrir landið og fyrir ríkisstjórnina. Svo fremi að það væri hægt að koma því til skila til fólks að þetta hlypi ekkert frá því.

Það var einmitt þegar fólk var búið að átta sig á því að þetta væri ekki eins og öll hin húsnæðiskerfin sem hafa sprungið, bara orð, farin upp í reyk fyrir framan það, þetta var bara til staðar, að draga fór úr afföllunum og fólk fór að laga sig að markaðnum. Ekki skal ég segja til um það hvort hægt hefði verið að fara í enn betri kynningu. Þetta var bara þannig að fólk hafði brennt sig til margra ára á vondum leiðum í húsnæðismálum, á takmörkuðu fjárframboði, á erfiðleikum við að afla fjár, afla lánsfjár. Þetta átti allt sinn þátt í því að það tók sinn tíma að koma kerfinu í jafnvægi.

Það má líka segja að á þeim tíma hafi verið orðið innbyggt í þjóðarsálina að fleyta sér, að nýta þjónustuna meðan hún gæfist, og að hvort sem er væri aldrei hægt að treysta þessum stjórnmálamönnum, þeir mundu gera einhverjar breytingar þannig að það væri jafngott að grípa gæsina meðan hún gæfist.

Mér fannst því mjög skynsamlegt, virðulegi forseti, þegar Páll Pétursson, þáv. hæstv. félmrh., ákvað á sínum tíma að viðhalda húsbréfakerfinu, sem þá var komið í mjög gott jafnvægi. Páll var nú kannski ekki allra og kom allra síst með mikil lofsyrði um fyrirrennara sína, en mér fannst gott þegar hann hélt því fram hér í ræðustól að þetta væri gott kerfi, það væri engin ástæða til að breyta því og hann ætlaði sér að viðhalda því.

Það má líka segja að þegar þetta kerfi fór að festa sig í sessi hafi það gjörbreytt viðhorfi fólks til fjárfestinga. Það var alveg nýtt að geta ákveðið að byggja og kaupa þegar fólki hentaði og fólk gat gert áætlanir fram í tímann og ákveðið hvað það gerði að ári og þurfti ekki að fara í hentistefnupólitíkina sem hafði viðgengist fram að því.

Ég gerði afföllin að umtalsefni og að það hafi verið erfitt fyrir kerfið og erfitt fyrir alla þegar afföllin voru sem mest. Það hefur komið mjög vel fram í þessari umræðu að þótt það verði að sjálfsögðu ekki afföll eins og við þekkjum þau úr húsbréfakerfinu, þá er algjörlega óvíst hver vaxtaáhættan verður fyrir Íbúðalánasjóð og vaxtakjörin munu ráðast í útboði. Auk þess er um að ræða vaxtaálag. Þetta setur því lánskjörin líka í óvissu og það er ómögulegt að segja hvernig Íbúðalánasjóði gengur að beita vaxtaálaginu og hvernig staðan verður á lánamarkaði frá einum tíma til annars. Þessu er ætlað að verða stýritæki, sem þýðir að húsnæðislánin og lánakjörin þar eiga aldrei að vera óheppileg fyrir stjórnvöld miðað við þá lána- og efnahagsstefnu sem þau hafa sett á hverjum tíma. Vextir geta orðið mjög breytilegir á milli útboða þannig að við verðum að gera okkur grein fyrir því að líkt og það var óvissuþáttur í húsbréfakerfinu, þá er jafnframt mikill óvissuþáttur í þessu kerfi.

Auðvitað hljótum við öll að vona, eins og þá, að ekki þurfi að óttast og búast við því versta. En gerum okkur grein fyrir því þegar við erum að tala um svona mikilvægan þátt eins og húsnæðislánin og stöðugleika á lánamarkaði og húsnæðismarkaði að við erum ekki heldur að koma með lausnina þar sem allt verður öruggt og fast í hendi. Það eru miklir óvissuþættir um mismunandi lánskjör, um mismunandi verð íbúða eins og Jóhanna Sigurðardóttir hefur rakið mjög vel í þessari umræðu, m.a. hversu dýrt lánið verður og það geta orðið ólík vaxtakjör á eins íbúðum, þess vegna í eins húsi. Það sér enginn fyrir óánægjuna og svekkelsið sem á eftir að verða hjá fólki sem býr kannski í nákvæmlega eins húsnæði með ólík lán sem hafa áhrif á verðið. Ég þekki slík dæmi t.d. af íbúðum sem voru byggðar við Álfatún í Kópavogi á sínum tíma í svokölluðum byggingarfélögum. Þar voru mismunandi lánaflokkar, og er nú fyrir þá tíð sem ég þekki best úr húsnæðismálunum. Fyrir síðustu kosningar var ég á vinnustað í Kópavogi þar sem þetta var gert að miklu umtalsefni og ofboðsleg reiði út í að það skyldi ekki hafa verið lagað að fólk byggi í samsvarandi íbúðum við sömu götuna með mismunandi lánakjör á íbúðunum. Reyndar er með ólíkindum hvernig farið er þar með ákveðna lánaflokka. Þessu verðum við öllu saman að gera okkur grein fyrir.

[15:00]

Þess vegna er ekki vitað nú hvort þessi nýju húsnæðislán verða hagkvæmari fyrir lántakandann en við skulum vona það. Við óskum þess að kjör sem fólki á húsnæðismarkaði bjóðast séu viðunandi hverju sinni. En ég var að skoða nál. minni hlutans og má til að vísa í athugasemdir sem komu þar fram, m.a. um að í stað þess að afföllin komi strax fram á markaði komi vaxtaálagið og vextirnir verði einfaldlega hærri með hliðsjón af ávöxtunarkröfunni og dreifist á allan lánstímann. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að ef húsnæðisbréfin, sem eiga að liggja til grundvallar þeim lánum sem Íbúðalánasjóður veitir, verða svona góður fjárfestingarkostur eins og bent er á, þá þýðir það að menn ætla sér að fá góða ávöxtun út úr því. Þeir sem ætla að fjármagna þetta ætla að fá góða ávöxtun á sitt fé út úr því.

Ég ætla líka að taka undir gagnrýni, og ætlast til þess að hæstv. ráðherra bregðist við henni hér á eftir, sem hefur komið fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í umræðunni, gagnrýni á að safnað sé upp svona miklum ágóða og eigin fé í Íbúðalánasjóði. Fram hefur komið að síðustu tvö ár hafi myndast tveggja milljarða kr. ágóði. Það er líka umhugsunarefni ef við erum með opinbert húsnæðislánakerfi þar sem á að verða uppsöfnun og sjóðssöfnun af þessu tagi.

Ég vil drepa á það sem hefur verið bent á varðandi þá sem fara í nýbyggingar. Þeir fá lánið ekki greitt fyrr en framkvæmd er lokið. Þetta reyndist ekki vel þegar húsbréfakerfið komst á. Það þurfti að hafa öðruvísi lánafyrirkomulag fyrir íbúðir sem voru keyptar á markaði en nýbyggingar og það var lögð mikil vinna í að lagfæra þetta. Þarna þarf virkilega að skoða hvernig hægt sé að fara með.

Með því að hafa öðruvísi kjör á nýbyggingum er opnað á það gamla kerfi að hlaupa á milli lánastofnana og fá lán hér út af láni sem kemur frá Íbúðalánasjóði seinna og fá lán hér til að greiða hitt. Við vorum hörð á því að þetta ætti að vera liðin tíð þegar húsbréfakerfinu var komið á. Nú er verið að taka þetta upp aftur. Ég geri mér alveg grein fyrir því að víða í fjármálastofnunum eru lokkandi tilboð um lán þannig að væntanlega verður ekki eins erfitt og fyrrum að útvega millibilslánin en það verður vissulega óhagkvæmt eins og alltaf að taka skammtímalán til að bjarga sér og þetta er afturhvarf til fortíðar. Þetta er afturhvarf til fortíðar hvað sem hver segir. Leiða má að því getum að við nýbyggingar verði fólki ýtt inn í lántökur í bankakerfinu og e.t.v. er verið að festa fólk til framtíðar í viðjum nýs hugarfars. Þarna leynist þá sú hugsun að breytingarnar séu skref í þá átt að flytja húsnæðislánakerfið á almennan markað, þ.e. inn í bankana, og með því að láta alla sem byggja og eru með nýbyggingar byrja að fjármagna sig í bankakerfinu eða leita þangað fyrst, þá sé verið að búa til nýja hugsun og festa fólk í viðjar hugarfarsins. E.t.v. kemur það svo ekki til Íbúðalánasjóðs. Við skulum vera alveg meðvituð um það hvaða gildrur geta falist í þessu kerfi.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fjallaði um mjög áhugavert mál varðandi verð og gengistryggingar og greindi frá áhugaverðri skýrslu sem hann las upp úr. Þar var borið saman hvað gæti verið hagstætt fyrir t.d. íbúðar- eða húsnæðiskaupendur. Það fékk mig til að rifja upp nýlegar blaðafréttir --- og þá mundi ég kannski óska eftir því, virðulegi forseti, af því ég er að ljúka ræðu minni, að hæstv. félmrh. komi í salinn vegna þess að nú er komið að tveim, þrem spurningum sem ég ætla að vísa til hans í lok máls míns.

(Forseti (JóhS): Hæstv. ráðherra brá sér augnablik frá og tilkynnti forseta um það en ég býst við honum í salinn aftur á hverri stundu.)

Virðulegi forseti. Ég hinkra við því að ég er komin að lokum máls míns og er með tvær spurningar til félmrh.

(Forseti (JóhS): Hæstv. ráðherra er mættur í salinn.)

Já, virðulegi forseti. Það er mér alveg að meinalausu að hæstv. félmrh. bregði sér frá. Hann hefur verið iðinn við að fylgjast með þessari umræðu og ég met það mjög mikils vegna þess að það er ekkert algengt að ráðherra sé á Alþingi við 2. umr. mála. En ég hef verið í þessari stöðu og geri mér mjög vel grein fyrir hversu gífurlega mikilvægt er að hlusta á umræðuna, sérstaklega í málum eins og þessum. Ég virði það því við ráðherrann að hann hafi gefið sér þennan góða tíma til að vera hér. En ég er að ljúka máli mínu og er með tvær spurningar.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fjallaði í ræðu sinni um skýrslu sem hefur verið unnin um verð- og gengistryggingar lána og velti upp þeirri spurningu hvernig þetta gæti komið út fyrir lántakendur. Það fékk mig til að rifja upp að á dögunum var í fréttum að einn viðskiptabankanna væri farinn að bjóða lán, langtímalán ef ég man það rétt, og lántakandinn gæti valið um verðtryggð og óverðtryggð lán. Ef ég man þetta rétt var einmitt fjallað um lán af því tagi sem við erum að tala um hér, lán til fjárfestinga og framkvæmda.

Ég geri ráð fyrir að þegar gera á veigamikla breytingu eins og að fara úr ríkjandi húsnæðiskerfi með alla þá þekkingu sem við höfum á fortíðinni, þá hafi sú nefnd sem ráðherra setti á laggirnar farið mjög ítarlega í málið. Því langar mig að spyrja hvort það hafi verið skoðað í sambandi við breytingu á húsnæðislánakerfinu hvort til greina kæmi að fólki væri boðið upp á að velja verðtryggð eða óverðtryggð lán. Ef það hefur verið skoðað, hvað kom þá út úr skoðuninni?

Ég er ekki að leggja þetta til vegna þess að ég hef náttúrlega ekki haft neinn möguleika á að skoða slíkt. En þegar einhver viðskiptabankinn fer af stað með þetta má reikna með að hann hafi eytt bæði tíma og fjármunum í að skoða hvað þetta þýði fyrir bankann, þ.e. lánveitandann. Það væri mjög áhugavert að vita hvort nefndin hefur skoðað það varðandi langtímalán hvernig þetta kæmi út fyrir báða aðila; fyrir lántakandann og lánveitandann. Ég geri mér náttúrlega alveg grein fyrir því að í stað affallanna mun lántakandinn nú lenda í vaxtahækkun við tiltekin skilyrði. En þetta er mjög áhugaverð spurning og það væri sérstaklega gott að vita hvort þetta var skoðað í nefndinni.

Svo langar mig að nefna að mér finnst dálítið slæmt að upplifa hversu mikil ótrú er á stöðugleikanum hjá ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum. Það er alveg sama hvað stöðugleikinn verður mikill og hvað verðbólgan verður lág; þótt hún fari niður í 1% en sé kannski 2 og 3 og 4% í löndunum í kring þar sem engin verðtrygging er á lánum. Aldrei nokkurn tímann kemur upp umræða um það hvort komið sé að því að aflétta verðtryggingunni. Mér finnst það dálítið skrýtið og mér finnst slæmt hversu mikil ótrú á stöðugleikanum birtist í þessu.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson talaði um að aðalgagnrýnin á útdráttarfyrirkomulagið hefði verið útdrátturinn á húsbréfum. Hann hélt því fram að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa mundi lækka og vextir verða hagstæðari. Hann talaði líka um að það mætti gera ráð fyrir vaxtalækkun til lántakanda, allt að átta milljörðum kr. ef ég skildi hann rétt. Ég geri ekki lítið úr því. Ef það tekst að lækka vexti þannig að átta milljarðar kr. fari til lántakenda, þá er það gífurlegur ávinningur og allir ættu að sameinast um það. En það sýnist mér ekki vera í hendi miðað við umræðuna og ábendingar sem hér hafa komið fram. Ég velti því fyrir mér hvort ekki megi búast við því ef þetta verða svona góð bréf að það komi eins konar ,,rush`` á bréfin, það verði sóst eftir þeim og hvernig það var skoðað í sambandi við húsbréfin sem þóttu mjög góður fjárfestingarkostur. Ég minnist þess að á ráðstefnu, ég held ráðstefnu hjá ASÍ, kom fram að útlendingar sem fjárfestu sæktust mjög eftir að geta fjárfest í húsbréfum. Hvað nákvæmlega í skoðun nefndarinnar gerir það að verkum að menn eru sannfærðir um að geta lækkað vextina sem svona miklu nemi, átta milljörðum kr.?

Þetta eru þær tvær spurningar sem ég ber fram til ráðherrans og sætti mig alveg við það að hann svari þeim í lokaræðu sinni.