Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:46:36 (8928)

2004-05-25 16:46:36# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að það er enginn ágreiningur milli stjórnarflokkanna um það markmið að taka hér upp 90% lán til húsnæðiskaupa. Þetta markmið er sett fram í stjórnarsáttmála. Um það ríkir fullur einhugur milli stjórnarflokkanna. Það er hins vegar þannig eins og hv. þingmanni er kunnugt um og ég veit að hún þekkir það, að m.a. hafa Samtök banka og verðbréfafyrirtækja haft uppi miklar efasemdir á undanförnum missirum um að húsnæðislánakerfi okkar Íslendinga, starfræksla Íbúðalánasjóðs og ég tala nú ekki um þær hugmyndir sem ég finn að hafa góðan hljómgrunn hér á hinu háa Alþingi að hækka lánshlutfallið í 90%, að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafa haft miklar efasemdir um að allt þetta stæðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna og í ljósi þess var það ákvörðun ríkisstjórnar sl. haust að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um fyrirhugaðar breytingar um rekstur húsnæðislánakerfis okkar til þess að fá úr því skorið hvort ekki væri tryggt að það stæðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fyrirhugaðar breytingar sömuleiðis, til þess, hæstv. forseti, að eyða allri óvissu um rekstur þessa kerfis í framtíðinni. Það væri fullkomlega óábyrgt, hæstv. forseti, af mér sem félagsmálaráðherra, að keyra málið fram á þessari stundu á meðan það er til umfjöllunar í Eftirlitsstofnun EFTA.