Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:52:26 (8931)

2004-05-25 16:52:26# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir að hafa farið yfir stærstu drættina í umræðunni og dregið þá nokkuð saman og farið yfir helstu mál. Þó þótti mér hann ganga ansi greiðlega yfir allt það sem laut að 90% lánshlutfallinu að því meginkosningamáli Framsóknarflokksins að hækka lánshlutfall íbúðarkaupenda í 90%, af því að þrátt fyrir það að málið sé til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA, þá kemur það ekki á neinn hátt í veg fyrir að ráðherrann og ríkisstjórnin leggi fram áætlun í málinu, af því að einhvern tímann sér fyrir endann á því og ef menn gefa sér það að stofnunin muni heimila, þá hljóta menn að vera með einhvers konar áætlun í skúffunni um hvernig best sé að framkvæma þetta og í hvaða skrefum menn hafa hugsað sér málið þegar það var lagt fyrir dóm kjósenda og blásið upp sem eitt af meginmálum kosninganna í fyrra, þá hljóta menn að hafa verið búnir að sjá fyrir endann á málinu. Framsóknarflokkurinn hlýtur að hafa verið búinn að gera einhverja framkvæmdaáætlun um hvernig hann ætlaði að hrinda þessum miklu breytingum á húsnæðiskerfinu í framkvæmd. Þess vegna vildi ég ítreka spurningar mínar til hæstvirts ráðherra um hvaða áhrif hann telji að 90% lánshlutfallið hafi á íbúðarverð, hvaða prósentuhækkun ef einhverja hann sjái fyrir sér, af því að hann hlýtur að hafa látið skoða hvaða áhrif slík meginbreyting hefði á markaðinn áður en hann fór með málið fyrir kjósendur í fyrra. Menn hafa varla verið að tala af algjörri vankunnáttu um áhrifin á samfélagið þá. Ég spyr hæstv. ráðherra.: Hvaða þak sér hann fyrir sér að verði á lánunum? Erum við að tala um 15 milljónir, 20 milljónir, 25 milljónir o.s.frv.?