Greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 17:17:18 (8941)

2004-05-25 17:17:18# 130. lþ. 125.8 fundur 829. mál: #A greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga# (ÍLS-veðbréf) frv. 59/2004, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Félmrn. aflaði sér nokkurra upplýsinga um þessi lög og hvort rétt væri að afnema þau. Við fengum m.a. ítarlegan rökstuðning frá fjárstýringasviði Íbúðalánasjóðs sem ég er með hérna fyrir framan mig, þar sem nefndin er fullvissuð um það að þessi lög séu í reynd ekki virk og þess getið að greiðslujöfnun hafi ekki verið notuð neitt að því er varðar húsbréfakerfið og hefur á þeim 15 árum sem húsbréfakerfið hefur starfað ekki orðið vart við nein vandamál vegna þess að greiðslujöfnun sé ekki til staðar. Fram kemur hér að greiðslujöfnun hjálpi ekki skuldurum nema þegar það ástand er fyrir hendi að hækkun neysluvísitölunnar sé mun meiri en hækkun launavísitölunnar. Fleiri rök eru hér tínd til sem ástæða þess að rétt sé að fella lögin úr gildi.

Í trausti þess, herra forseti, að þau rök sem hafa verið sett fyrir okkur hér í félmn. af Íbúðalánasjóði, þá föllumst við á það, eða ég, í minni hlutanum að styðja það að þessi lög verði felld úr gildi.

Ég velti fyrir mér af því í þessu frumvarpi eða greinargerð þess eru tíundaðar þrjár leiðir til að aðstoða lántakendur í greiðsluerfiðleikum, m.a. skuldbreyting á vanskilum í nýtt lán til allt að 15 ára og að Íbúðalánasjóður geti fryst lán í allt að þrjú ár þannig að engar greiðslur séu inntar af hendi af láninu á þeim tíma. Þriðja úrræðið er að Íbúðalánasjóður geti lengt lánstíma viðkomandi lána um allt að 15 ár. Ég hef fullvissað mig um það hjá hæstv. félmrh. að það verði engin breyting á þessari aðstoð við fólk í greiðsluerfiðleikalánum og ný lán, ef þau koma vegna skuldbreytingar á vanskilum, munu þá bera sömu kjör og eldri lán. Úr því þetta hvort tveggja liggur fyrir að þessi aðstoð verði enn þá til staðar, og þau rök hafa verið sett fram sem eru trúverðug um það að þessi greiðslujöfnun sé í reynd óvirk, þá styð ég það að þessi lög verði felld úr gildi.