Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:05:47 (8946)

2004-05-26 10:05:47# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:05]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta og þingheims á þeim furðulegu vinnubrögðum sem við fulltrúar í sjútvn. höfum mátt þola nú á síðustu klukkutímum og dögum. Í þinginu í vetur höfum við verið að fjalla um hvernig mætti styrkja stöðu dagabáta í fiskveiðum landsins. Sjávarbyggðir vítt um land, sérstaklega í Norðvest. en reyndar vítt og breitt um landið, treysta á veiðar þessara báta, þær skipta miklu máli. Við höfum fengið fjölda áskorana frá hlutaðeigandi byggðarlögum um að staðið verði við þau fyrirheit að setja viðunandi gólf í dagabátakerfið þannig að þar verði fyrir hendi ákveðinn rekstrargrundvöllur. Að þessu hefur verið unnið. Í haust var afgreidd málamyndalínuívilnunartillaga af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans en þá var jafnframt lofað að næsta verkefni væri að tryggja stöðu dagabátanna. Áfram var þetta rætt eftir áramót og ég og fulltrúi Frjálsl. lögðum saman fram tillögu á þingi aftur eftir áramótin um að treysta stöðu dagabáta. Sjútvrh. leggur hér fram frv. um að tryggja stöðu dagabáta, reyndar málamyndafrv. en engu að síður fjallaði það um það.

Í gær er svo kúvent. Utan úr bæ, eða réttara sagt neðan úr sjútvrn., kemur svo algjörlega nýtt frv. þar sem kveðið er á um að dagabátarnir skuli gjörsamlega þurrkaðir út úr flotanum og allt sett í kvóta, óskafyrirkomulag kvótagreifanna, óskafyrirkomulag þeirra sem vilja geta verslað með þessa auðlind milli manna, milli byggðarlaga, milli fyrirtækja. Þetta er keyrt inn, og út í gegnum sjútvn. af meiri hlutanum í gærkvöldi, fullkomlega nýtt og óskylt mál. Ég mótmæli svona vinnubrögðum, forseti, og skora á hæstv. forseta að gera þau afturreka.