Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:59:56 (8961)

2004-05-26 10:59:56# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef markmiðið getur ekki verið það að tryggja að einn réttur gangi ekki á annan rétt hefði verið miklu hreinlegra að segja við fólk: Þið skuluð bara vera heima hjá börnum ykkar í sumarleyfinu. Það er mergurinn málsins. Hugsunin að baki lögunum byggir hins vegar á því að skapa það ástand með tilliti til tekna og réttinda að einstaklingurinn verði ekki fyrir skerðingu. Það er hugsunin að baki þessum lögum.

Mér finnast örlítið mótsagnakenndar áherslur hjá hv. þingmanni sem í ræðu sinni áðan óskapaðist yfir því að menn færu fram á þessi réttindi annars vegar, og hins vegar reiðir hann fram þessi fjárhagslegu rök. Ég skil þau. Hann segir að ekki sé hægt að tvöfalda eða þrefalda þennan rétt af fjárhagslegum ástæðum. Þá skulum við ræða það.

Hins vegar er þetta réttlætiskrafa, í fyrsta lagi að fólk í fæðingarorlofi búi við sömu eða samsvarandi réttindi hvað þetta snertir, og síðan er hitt að ef þetta er svona arfavitlaus krafa, finnst þá hv. þingmanni ekki samningar þeirra sem hafa samið um aðra skipan arfavitlausir? Eru þeir líka arfavitlausir? Mér finnst fram koma í máli hv. þingmanns og í sjónarmiðum okkar grundvallarmunur á skilningi á þessum lögum og markmiðum þeirra. Um það mun ég fjalla nánar í ræðu minni á eftir.