2004-05-26 13:45:12# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), SP
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þingmanns vil ég byrja á að rifja það upp að þann 30. apríl 2002 samþykkti Alþingi þál. um deilur Ísraels og Palestínumanna sem flutt var af utanrmn. Í þessari ályktun var ofbeldi fyrir botni Miðjarðarhafs fordæmt og þess krafist að ofbeldisverkum linnti, öryggi borgara yrði tryggt og mannréttindi virt.

Jafnframt var skorað á Ísraela að draga herlið sitt til baka frá sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna og þess krafist að hafnar yrðu friðarviðræður um sjálfstætt ríki Palestínumanna og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra.

Í ályktun sinni lýsti Alþingi því yfir að þjóðum heims bæri að stuðla að því að Ísraels- og Palestínumenn leystu úr ágreiningsefnum sínum á grundvelli alþjóðalaga og samþykkta SÞ.

Öryggisráð SÞ ályktaði enn vegna ástandsins á Gaza-svæðinu þann 19. maí sl. Þar eru m.a. dráp á óbreyttum palestínskum borgurum og eyðilegging heimila fordæmd. Þann sama dag var send út fréttatilkynning frá utanrrn. þar sem utanrrh. fordæmir árásir Ísraelshers á menn og mannvirki á Gaza-svæðinu, einkum dráp og limlestingar á óbreyttum borgurum, þar með talið börnum, og eyðileggingu á heimilum þúsunda Palestínumanna.

Aðgerðir Ísraelsmanna eru ótvírætt brot á alþjóðalögum þar sem Gaza-svæðið er hernumið í andstöðu við ítrekaðar ályktanir öryggisráðs SÞ. Afstaða íslenskra stjórnvalda liggur því skýrt fyrir.

Hæstv. forseti. Það er mjög erfitt fyrir alþjóðasamfélagið að horfa upp á þessa atburði. Saklausir borgarar beggja aðila líða og ekki sér fyrir endann á ofbeldinu. Þjóðir heims verða að taka höndum saman og reyna að tryggja varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafs.