Húsnæðismál

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 14:22:42 (8994)

2004-05-26 14:22:42# 130. lþ. 127.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar á heildina er litið styðjum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði þær kerfisbreytingar sem felast í frv. Hins vegar tökum við undir varnaðarorð frá verkalýðshreyfingunni, frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB, varðandi ýmis ákvæði frv. og vísum þar sérstaklega í 12. gr. varðandi uppgreiðslu. Síðan eru ýmsar greinar í frv. sem orka tvímælis. Ég vek t.d. athygli á brtt. meiri hlutans sem felur það í sér að haldið verði inni þvingu í lögunum til að Íbúðalánasjóður færi verkefni út fyrir dyr sjóðsins. Þetta er væntanlega komið frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja sem nú gera mjög harða hríð að þessum þætti íslenska velferðarkerfisins með ósvífinni kæru til ESA um að hann standist ekki heilaga ritningu Evrópusambandsins.