Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 14:41:50 (9001)

2004-05-26 14:41:50# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þegar við kvöddum þessa umræðu fyrir matarhlé hafði hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson talað nokkuð gott mál þar sem hann lýsti stuðningi við meginefni þeirra laga sem við erum að breyta. Það gladdi mig óneitanlega að hv. þm. skyldi með þessum hætti taka til máls um frv. vegna þess að það eru ekki giska margar stundir síðan annar hv. þm. Frjálsl., Gunnar Örn Örlygsson, lýsti því yfir, að því er mér skildist, að hann væri andsnúinn meginefni laganna. Ég var algerlega á móti því viðhorfi hv. þm. Gunnars Arnar Örlygssonar og vænti þess að hann komi í umræðuna til að skýra þau viðhorf. Ég tel fullkomlega eðlilegt að hv. þm. hafi þær skoðanir sem hann lýsti. Ég er þeim einfaldlega algerlega ósammála og hefði talið eftir atvikum það vera gott ef hv. þm. Frjálsl. kæmi og skýrði betur með hvaða hætti hann vildi færa rök að þeirri sérkennilegu skoðun sem ég tel úrelta og afdankaða og alls ekki í takt við tímann. Sem betur fer hefur það komið í ljós að viðhorf hv. þm. eru heldur ekki í takt við viðhorf Frjálsl. sem gleður mig óumræðilega vegna þess að ég er einn af hinum leynilegu aðdáendum þess flokks þó að ég hafi ekki séð mér fært að styðja hann frekar en ég hef stundum gert í umræðum.

Um þetta mál vildi ég segja, herra forseti, að ég tel að þessi löggjöf sé ein af merkilegri löggjöfum sem við höfum tekið þátt í að samþykkja á síðustu árum. Eins og gengur þarf stundum að fara höndum um nýja löggjöf þegar reynslan er á hana komin og sníða af henni einhverja skavanka.

Það er aðallega tvennt sem veldur deilum um það frv. sem liggur fyrir. Í fyrsta lagi sú staðreynd að það fjármagn sem skortir til að standa undir kostnaði af lögunum á að taka úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég get ekki annað en andmælt því. Ég held að ekki sé vanþörf á því að sá ágæti sjóður sé vel búinn á næstu missirum og árum. Þrátt fyrir þá velsæld sem hefur einkennt íslenskt samfélag um árabil og þrátt fyrir þær spár sem liggja fyrir um áframhaldandi góðan hagvöxt, þá stöndum við samt frammi fyrir þeirri sérkennilegu stöðu Íslendingar að þrátt fyrir hagvöxt og hagvaxtarspár virðist sem við munum áfram búa við tiltölulega mikið atvinnuleysi. Þær spár sem hæstv. ríkisstjórn lét frá sér fara fyrst við síðustu kosningarnar og síðan aftur í haust hafa alls ekki gengið eftir. Því var spáð að atvinnuleysi ætti að minnka en það hefur ekki gerst. Við höfum þvert á móti séð að atvinnuleysi er fast í kringum 3%. Þetta kallar auðvitað á töluverð útgjöld af hálfu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sömuleiðis kemur í ljós, því miður, í þeim tölum sem hafa gengið frá opinberum stofnunum að það er ekki síst ungt fólk sem virðist vera í vaxandi mæli atvinnulaust og flokkast undir það sem kalla má langtímaatvinnuleysi. Við því þarf að bregðast með ákveðnum hætti. Hægt er að bregðast við því með endurhæfingu og þjálfun til að gera menn færari til að takast á við vinnumarkaðinn og í tilviki ungs fólks hefur reynslan sýnt að það gengur miklu betur. Til þess þarf auðvitað fjármagn þannig að ég held að það sé ekki góð leið að fara þannig að málum að tekið sé fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hins vegar tel ég að upphæðin sem hér liggur undir, 150 milljónir, sé ekki þess eðlis að um það verði miklar deilur, það verð ég að segja.

[14:45]

Hitt atriðið sem menn hafa einkum fett fingur út í, t.d. hv. þm. Katrín Júlíusdóttir í sinni ágætu ræðu fyrr í dag og reyndar fleiri, er að verið er að setja þak á þær greiðslur sem fólk getur fengið sem tekur fæðingarorlof. Þakið á að vera við 600 þús. kr. sem þýðir að greiðslurnar verða í reynd að hámarki 480 þús.

Herra forseti. Vissulega er hægt að færa sterk rök fyrir því að setja þak á hámarksgreiðslur. Það hlýtur að orka tvímælis að greiða fast að 2 millj. kr. á mánuði eins og dæmi eru um. Þegar ég háði kosningabaráttu fyrir síðustu kosningar var það sláandi að á öllum fundum eða mjög mörgum almennum kosningafundum var spurt út í þetta atriði og greinilegt var að margir voru þeirrar skoðunar að það væri a.m.k. álitamál hvort ekki ætti að setja með einhverjum hætti þak á greiðslurnar. Á móti hefur verið teflt að ég hygg töluvert sterkum rökum líka eins og ég hjó eftir í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Hún benti á að ef farin væri þessi leið væri sú hætta fyrir hendi að feður, sérstaklega hálaunafeður, mundu ekki nýta sér þennan rétt sem þarna er gefinn og það yrði hugsanlega til þess að skerða möguleika kvenna á vinnumarkaði og sér í lagi draga úr líkum á sams konar starfsframa þeirra og karla. Ástæðan er eðlilega sú að fyrirtækin kynnu að freistast til þess þegar fólk er ráðið að velja eftir því hver er líklegastur til að hverfa tímabundið frá störfum til að notfæra sér þennan rétt. Þetta er eitt af því sem menn auðvitað hljóta að vega saman, þessi tvenns konar rök þegar farið er í umræðu og lagabreytingar af þessu tagi.

Ég kom hér ekki, herra forseti, aðallega til að ræða efnislega um frv. því ég verð að gera þá játningu að ég hef ekki lagst í mikla rannsókn á því og þekki það ekki út í hörgul. Ég vil hins vegar í örstuttu máli greina frá þeirri skoðun minni að ég tel að Íslendingum hafi á síðustu árum, síðasta áratug, hugsanlega tveimur áratugum, tekist ákaflega vel að búa til samfélag sem auðveldar fólki að eiga börn. Ég hef orðað það svo að Íslendingar hafi sett öðrum þjóðum fordæmi að því er varðar skynsamlegar opinberar fjárfestingar í frjósemi. Ef við horfum aðeins aftur í tímann blasti við sú staðreynd að Norðurlandabúum fækkaði. Á sama tíma var íbúum í Suður-Evrópu að fjölga. Í dag hefur þetta algerlega snúist við. Þegar við skoðum lýðfræðilega þróun í Evrópu birtist okkur sú staðreynd að íbúum í Suður-Evrópu er að fækka á sama tíma og íbúum á Norðurlöndum fjölgar. Ég held að þetta eigi sér rætur í því sérstaka norræna velferðarmódeli sem við jafnaðarmenn og aðrir góðir menn höfum tekið höndum saman um að skapa. Ég held að einmitt sá umbúnaður sem við höfum sett í okkar kerfi og lög á síðasta áratug sé öðrum þjóðum fordæmi um það hvernig á að snúa þessari þróun við.

Við Íslendingar höfum með margvíslegri lagasetningu skapað skilyrði sem auðvelda ungu fólki og barnafjölskyldum að lifa sómasamlegu lífi. Þau lög sem við nú fjöllum um eru ákaflega gott dæmi um það. Ég tel reyndar að ekkert hafi verið gert á seinni árum sem hafi falið í sér jafnraunhæf skref í átt að raunverulegu jafnrétti kynjanna og einmitt þessi lög.

Hægt er að nefna ýmislegt fleira þessu til stuðnings sem er partur af þeirri mynd sem gerir okkur að einstöku velferðarsamfélagi. Leikskólarnir hér eru miklu betri og opnari en víða annars staðar. Það er auðvitað mikilvægur stuðningur við ungt fólk og barnafjölsyldur að eiga tiltölulega greiðan kost á því að koma börnum sínum í leikskóla í heilan dag og jafnvel við vissar aðstæður að fá niðurgreiddan kostnað við það. Ég tel hins vegar að í framtíðinni eigum við að ná sameiginlegri niðurstöðu um það að hluti leikskólans verði gjaldfrír og að lokum allur leikskólinn. Auðvitað mun það kosta mikla peninga en þarna erum við líka að fjárfesta í framtíðinni. Við erum að fjárfesta í fjölgun Íslendinga og það skiptir ákaflega miklu máli.

Sama gegnir um einsetningu skóla, ágæta heilsugæslu þar sem tekið er tillit til þess kostnaðar sem barnafjölskyldur stundum lenda í, að eiga börn sem þurfa bæði á lyfjum og umönnun heilbrigðiskerfisins að halda. Sömuleiðis ber einnig að horfa til þess að tekist hefur samstaða á Alþingi á síðasta áratug um að bæta mjög kjör foreldra langveikra barna og barnanna sjálfra. Allt skiptir þetta ákaflega miklu máli, herra forseti.

Í tilefni af því að þetta mál er undir vil ég í örstuttu máli gera grein fyrir því að ég tel að í þeim málum sem við Íslendingar höfum náð saman um og umrædd lög eru hluti af, hefur okkur tekist að búa til ákveðið módel sem ýtir undir fólksfjölgun. Það er kostnaðarsamt en það er fjárfesting í framtíðinni og ég hef orðið þess áskynja þegar ég hef verið á erlendum ráðstefnum fyrir Alþingi þar sem menn hafa rætt mál af þessu tagi að menn horfa í vaxandi mæli til þessa módels, sem ég hef stundum kallað séríslenska módelið, og hins norræna velferðarmódels.

Því segi ég, herra forseti, að þegar menn hafa lokið afgreiðslu þessa máls og reynslan er smám saman að koma fram af lögum sem við erum að setja um þetta tiltekna mál þá eigum við að halda áfram á þessari braut. Við eigum að halda áfram að fjárfesta í framtíðinni, leggja fjármagn til þess að auka frjósemi og fjölda Íslendinga. Okkur hefur tekist það umfram aðrar þjóðir og ég held að það sé fátt sem Alþingi Íslendinga hefur jafnfarsællega náð saman um og þennan lagavef sem ég hef rakið. Ég held að þetta sé ákaflega gott dæmi um mál þar sem Alþingi Íslendinga á að ná saman um. Í framhaldi af þessu þurfum við auðvitað að taka skyld mál og auðvitað hlýtur að koma að því að við breytum þessum lögum þannig að fæðingarorlofið verði enn lengra jafnt fyrir konur sem karla.